01.04.1925
Efri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

86. mál, Landhelgissjóður

Forsætisráðherra (JM):

Út af þessu nýja skipi vil jeg geta þess, að það hefir ekki verið hugsað sem björgunarskip, heldur aðeins sem landvarnaskip. En þetta skip getur líka bjargað, ef á þarf að halda, og hefir möguleika til að draga skip eða bát í land. En það hefir ekki verið hugsað útbúið eins og t. d. Geir eða því um líkt. Ætlunin er sú, að byggja togara, sem gæti orðið sæmilegur bústaður fyrir landhelgisgæslumennina, án þess að hann væri björgunarskip, enda er ekki hægt að bera saman starfsemi Þórs í kringum Vestmannaeyjar og þessa nýja skips, sem yrði, eins og hv. þm. Snæf. (HSteins) sagði, á þönum í kringum alt Ísland. Auðvitað á að keppa að því, eins og hv. þm. Vestm. (JJós) hefir sagt, að halda botnvörpungunum burtu. Sumir foringjar landvarnaskipanna hafa og lagt kapp á það, en það kostar afskaplega mikið af kolum, ef aðeins eru 2–3 skip á svo stóru svæði.

Tillögur hv. sjútvn. verða eflaust teknar til greina. Það var ekki nema eðlilegt, að hv. þm. Vestm. benti á það fordæmi, sem Vestmannaeyingar hafa gefið í þessu máli, þar sem það hefir orðið til þess meðal annars að gefa oss hug til þess að leggja út í öflugri landvarnir.