08.04.1925
Efri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

21. mál, styrkveiting til handa íslenskum stúdentum við erlenda háskóla

Frsm. meiri hl. (Sigurður Eggerz):

Það er rjett, sem hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) sagði um brtt., en það stafar af því, að brtt hefir af vangá orðið við 2. gr., í staðinn fyrir við 1. gr. Jeg mun þess vegna taka brtt. aftur og færa hana í rjett horf til 3. umr.

Út af því, sem hv. 5. landsk. (JJ) sagði um stúdentana, að þeir færu ekki vel með styrkinn, verð jeg að taka í sama streng og hæstv. forsrh. (JM). Síðustu 2 árin, sem jeg stóð fyrir ráðuneytinu, leitaði jeg upplýsinga um þá, og yfirleitt var fullyrt, að þeir væru mjög ástundunarsamir. Í svo stórum hóp má gera ráð fyrir, að allir sjeu ekki eins reglusamir, en yfirleitt held jeg, að megi segja það, og með sönnu, að stúdentar hafi farið vel með styrkinn.

Því hefir verið haldið fram, að þessi styrkur væri allríflegur, en hann hefir ekki verið ríflegri en svo, að það er óhugsandi fyrir stúdenta að lifa af honum einum. Hvað það snertir að snúa þessum styrk upp í lán, þá vil jeg benda á í því sambandi, að það hefir ekki reynst heppilegt, hve stúdentar hafa oft komið skulum hlaðnir frá námi; þeir hafa að loknu námi tekið hjer við embættum, oft illa launuðum, og oft orðið að sitja í skuldasúpunni alla sína tíð, því að þeim hefir verið um megn að losa sig úr skuldunum. Það er eins og hæstv. forsrh. tók fram, að það var áskilið, að þeir stúdentar, sem vildu sigla, fengju þennan styrk, 1200 kr., og jeg skildi það svo, að allir ættu að fá hann, og ekki man jeg betur en að jeg fengi yfirlýsingu í þinginu um það, og því er hjer ekki verið að hlaða undir þá stúdenta, sem vilja fara utan, heldur er hjer verið allmikið að þrengja kosti þeirra, og þess vegna hefi jeg viljað fara þá leið að gera þessi bönd heldur rýmri. Það getur vel verið, að skoðanir mínar á þessu máli stafi nokkuð af því, að jeg hefi sjálfur gengið þessa braut, og veit því af eigin reynd, við hvað mikla fjárhagslega örðugleika stúdentarnir eiga að berjast. Fyrir þá menn, sem langar til að nema eitthvað, hafa virkilega þrá til þess og trú á því, að þeir eigi möguleikana í sjálfum sjer, er ákaflega hart að geta ekki notað hæfileika sína. Yfirleitt hefir mjer fundist það hjá flestum þjóðum, að hið opinbera bæri hlýjan hug til stúdenta síns lands, en því ver og miður lítur ekki út fyrir, að svo sje hjá oss, því að það er ekki hægt að neita því, að hjer á Alþingi kenni stundum of mikils kulda eða of mikils skilningsleysis á lífi stúdentanna. Að því er snertir brtt. hv. 5. landsk. (JJ), þá tók jeg það fram, að jeg væri hlyntur kjarnanum í henni, en gæti ekki fallist á hana sem viðauka við þetta frv., af því að hún gæti orðið frv. að falli. En hvað snertir þær brtt., sem meiri hl. nefndarinnar hefir borið fram, þá skil jeg ekki, að þær geti orðið frv. að falli. Þó að þær verði samþyktar hjer í deildinni, þá held jeg, að frv. myndi ekki sæta neitt verri móttöku í háttv. Nd. Að minsta kosti er mjer kunnugt um, að sumir, sem greiddu atkv. á móti frv. í háttv. Nd., af því að þeim þótti það ganga of stutt, munu nú greiða atkv. með því vegna brtt. meiri hl., ef þær verða samþyktar.

Jeg vil að lokum skjóta því til hv. 5. landsk., hvort hann vilji ekki taka brtt. sína aftur og koma með hana á öðrum stað, og vísa jeg jafnframt til þeirra vingjarnlegu radda, sem heyrst hafa um kjarna till.