04.03.1925
Efri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Sú hugsjón hefir vakað fyrir oss öllum, þótt vjer sjeum „fáir, fátækir og smáir“, að vernda vort unga sjálfstæði eftir mætti, og það ekki aðeins í orði eða með ytri merkjum, eins og t. d. sendiherrastöðu, heldur að standa sem þjettast saman gagn vart óskyldum, erlendum þjóðum, svo að þær hlutist ekki til um innanlandslöggjöf vora eða setji oss stólinn fyrir dyrnar á einn eða annan hátt. Þetta er þó einmitt það, sem Spánverjar hafa gert í viðskiftum sínum við oss. Minni hl. nefndarinnar hefir því fyrst og fremst lagt áherslu á það í þessu máli, að aðalstarf þessa fyrirhugaða erindreka sje í því fólgið að afla oss nýs fiskmarkaðar utan Spánar. Meiri hl. lítur öðrum augum á þetta. Hann leggur fyrst og fremst áherslu á stöðuna sjálfa, vill gera erindrekann að hálfgildings sendiherra og bendir á, að stofna þurfi þetta embætti þannig, að sá maður, sem gegnir því, beri það með sjer, að hann sje umboðsmaður íslensku stjórnarinnar, og sje svo stimplaður af henni, að hann eigi greiðan aðgang að spönskum stjórnarvöldum og geti mjög nálgast sendiherra annara ríkja.

Munurinn er sá — og hann er mikill — að minni hl. leggur aðaláherslu á starfið, en meiri hl. á stöðuna. Og í þessu sambandi vildi jeg leyfa mjer að minna þá hv. þm., sem hjer áttu sæti, þegar Spánarsamningurinn var samþyktur, á, að þá gáfu þeir yfirlýsingu um það, að þeir gengju nauðugir að þeim kjörum, er þar voru ákveðin, og vildu gera alt sitt til að koma í veg fyrir, að slíkt ástand hjeldist til lengdar. Meiri hluti þjóðarinnar stóð á öndinni meðan á samningunum stóð. Þetta virðist líka hafa verið háttv. þm. ljóst, er þeir gáfu þessa yfirlýsingu. Jeg efast ekki um, að þeim hafi verið alvara, og sje enn, að stuðla á allan hátt að því að bæta úr þeim hnekki, sem sjálfstæði vort óneitanlega beið við samning þennan.

Ef þessi er vilji þm., sem jeg efast ekki um, þá verður fyrst og fremst að forðast að gera nokkuð það, sem torveldi þessa leið. Er hv. þm. gáfu út yfirlýsinguna, hugsuðu þeir sjer — og með rjettu — að eina leiðin úr ógöngunum væri sú, að vinna íslenskum fiski markað utan Spánar. Og jeg trúi því, að sú leið sje fær, enda þótt það muni ef til vill taka langan tíma að finna hana. Starfsemi fiskifulltrúans á aðallega og fyrst og fremst að beinast að því að finna þessa leið. Tilætlunin hefir líka ávalt verið sú, uns sú till. kemur fram á þessu þingi að gera hann að föstum embættismanni á Spáni, og þannig beinlínis að torvelda að draga fiskmarkaðinn úr höndum Spánverja, enda er margt í nál. hv. meiri hl., sem bendir til, að svo myndi fara. Þetta er líka fullkomlega eðlilegt, þar sem augljóst er, að þessi maður myndi verða fyrir áhrifum frá Spánverjum við umgengni sína við þá og dvöl þar í landi. Þetta er einmitt það, sem jeg vil forðast. Jeg vil, að alt starf fulltrúans sje í vora þágu unnið og beinist fyrst og fremst að því að losa oss undan helsi Spánverja.

Jeg býst við, að þegar hv. deild athugar þessi ummæli mín, þá muni menn sjá, að það er ekki svo lítið, sem á milli ber. Ef svo verður ákveðið, að skipaður verði fastur embættismaður á Spáni, tel jeg oss hafa hvikað frá þeirri hugsjón, sem fólst í yfirlýsingu þingmanna 1922 og vakti og vakir enn fyrir öllum þorra þjóðarinnar. Því hefir minni hl. nefndarinnar lagt til, að stofnun þessa embættis verði frestað, en fiskifulltrúastarfið verði með svipuðu fyrirkomulagi og undanfarið. Jeg mun á engan hátt telja eftir það fje, sem varið er til að bæta fiskmarkað vorn, en jeg er sannfærður um, að hægt er að nota þessar 30 þús. kr., sem áætlað er, að embættið kosti árlega, á miklu hagkvæmari hátt en að stofna þetta fasta embætti á Spáni.

Jeg vona nú, að hv. deild skilji, hvað vakir fyrir minni hl. í þessu máli. Það er ekki fjárhagsatriðið, er hann telur mestu skifta, heldur hitt, að hann álítur, að með stofnun slíks embættis sje verið að hvika frá þeirri stefnu, er bæði þjóð og þing hafa heitið fylgi sínu.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara ítarlega út í ræðu hv. frsm. meiri hl. (JJós). Við erum sammála um sum atriði, enda þótt munurinn á skoðunum okkar á þessu máli sje sá, sem jeg hefi þegar tekið fram. Hann segir, að mikil þörf sje að koma málum þessum á fastan grundvöll. Jeg er honum alveg sammála um það, og því vil jeg ekki, að sá grundvöllur sje rangur. Hann sagði líka, að ekki væri nema um einn fiskifulltrúa að ræða. Jeg er þar á sama máli, og því vil jeg ekki, að þessi eini sje búsettur á Spáni. Að endingu gat hv. frsm. (JJós) þess, að við þyrftum að ala upp menn í þessa stöðu. Hann taldi og, að fáir hjer myndu kunna málið nægilega til slíks starfs. Jeg er nú ekki kunnugur þessum málum, en jeg þekki þó a. m. k. 2 menn hjer í Reykjavík, er vel gætu tekið að sjer starfið hvað tungumálakunnáttuna snertir, og einn á Austfjörðum. Við erum því ekki svo illa staddir í því efni. Hann gaf í skyn, að þetta embætti ætti að vera einskonar skóli fyrir tilkomandi fiskifulltrúa vora. Jeg er alveg mótfallinn þessu, af sömu ástæðum og jeg hefi áður tekið fram, að jeg vil ekki, að fulltrúinn sje búsettur á Spáni; og því síður vil jeg, að við ölum okkar fiskifulltrúaefni upp þar, því að jeg tel, að fulltrúinn eigi að gæta íslenskra hagsmuna, en ekki spanskra. Þessi ágreiningsatriði dýpka ekki alllítið djúpið milli nefndarhlutanna.

Hitt er satt, að samvinna hefir verið góð í nefndinni, og get jeg verið meiri hl. þakklátur fyrir samvinnuþýðleik hans.

Jeg lýk nú máli mínu að sinni með þeirri ósk, að hv. deild taki til athugunar ástæður þær, sem jeg hefi borið fram gegn frv. þessu, og sjái, að enn er ekki tími til kominn að afgreiða málið á þennan hátt. Jeg þykist hafa skýrt málið frá mínu sjónarmiði eins og atvik lágu til, og get jeg því látið hjer staðar numið.