04.03.1925
Efri deild: 22. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg býst ekki við, að jeg fái tíma til að fara ítarlega út í alt, sem hjer hefir verið sagt í garð minni hl. í þessu máli. Get jeg enda látið mjer nægja gagnvart hæstv. atvrh. (MG) að segja það, að jeg hefði óskað og enda búist við því af honum, að hann hefði lesið hvorttveggja nál. með svipaðri velvild. En mjer finst, að á því hafi verið nokkur brestur, að því er af ræðu hans mátti ráða.

Hann kveður mig hafa sagt, að jeg legði aðaláhersluna á starfið, en ekki stöðuna, og er það alveg rjett. En þetta frv., sem hjer liggur fyrir, fer ekki fram á annað en að staðan verði stofnuð og lögfest. Jeg er hinsvegar alveg fylgjandi því, að sendimaður verði sendur til Spánar með erindisbrjefi frá stjórninni, svo sem gert hefir verið að undanförnu. Um það eru báðir hl. nefndarinnar sammála. Það, sem þá ber á milli, er það, að hv. meiri hl. vill fá stöðuna festa.

Hæstv. atvrh. (MG) gat þess, að engin afstaða hefði verið tekin um það, hvort maður þessi yrði opinber starfsmaður eða ekki. En það, sem liggur í loftinu, og enda má lesa á millj línanna í nál., er það, að þessi staða verði með tíð og tíma gerð að ræðismannsstöðu. En það er steinn á veginum fyrir því, að við getum í náinni framtíð sagt við Spán: Nú breytum við okkar innanlandslöggjöf. Gerið svo vel og leggið toll á fisk okkar, ef yður þóknast. Jeg veit, að þið álítið, að hjer sje um templaraöfgar að ræða, og mjer er engin launung á því, að jeg er bindindismaður. En stærsta atriðið í þessu máli frá mínu sjónarmiði er það, að jeg álít Spánarsamninginn stærsta rothöggið, er sjálfstæði hins unga, ísl. ríkis hefir fengið. Og verði ekki fyr en síðar ráðin bót á því, þá má guð vita, hvort sjálfstæði vort verður nokkurntíma til nema á pappírnum. Jeg vil ekkert spor stíga, sem tefur fyrir því, að sjálfstæði vort geti orðið sem traustast og öruggast. Það má kannske segja sem svo, að ekki sje mikil þörf á hugsjónum hjer á hinu háa Alþingi, en mjer er nú samt svo varið, að jeg tek margt fram yfir þorskinn, þó hann hafi verið mjer þarfur.

Hæstv. atvinnumálaráðherra gat þess, að ekki væri ástæða til að fara að blanda Spánarsamningunum í þetta mál. Þetta get jeg ekki skilið öðruvísi en svo, að hæstv. ráðherra (MG) sje ánægður yfir þeim málum. Því hvar á að tala um Spánarsamningana, ef ekki í sambandi við þetta mál, þegar vjer erum að tryggja áframhaldandi markað á Spáni og minka þar með líkurnar fyrir því, að vjer getum losnað við hann og það helst, er hann leggur á sjálfstæði vort? Og þó hægt sje að færa til væntanlegan fulltrúa — sem þá verður að líkindum orðinn ræðismaður —, þá er það lítilla þakka vert. En það dugir ekki að tala um þetta mál eins og við börn. Fram hjá því verður ekki komist, að þetta embætti verður til þess að festa markaðinn á Spáni, en ekki það, að gera mögulegt að losna við Spánarsamningana.

Mál þetta hefir tvær hliðar. Það er bannmál, og jeg geri engar kröfur til hv. þm., að þeir fylgi mjer þar. En allir ættu að geta sjeð þá hættu, sem sjálfstæði hverrar þjóðar er búin, þegar önnur þjóð óviðkomandi setur henni reglur um það, hvernig hún skuli haga sjer í sínum innanlandsmálum.

Það hefir verið sagt, að ferðirnar milli Spánar og Íslands sjeu dýrar. Jeg játa, að jeg er því ekki kunnugur. En varla trúi jeg því, að ferð fram og til baka þurfi að kosta meira en 1500 kr. Og talað hefi jeg við mann, sem dvaldi þar syðra í tvo mánuði, og eyddi hann ekki meiru til ferðarinnar en 3000 kr. Má vel vera, að hann hafi lifað sparlegar en fulltrúa eins ríkis sæmir.

Jeg fyrir mitt leyti legg ekki svo lítið upp úr því, að bœði þing og stjórn hafi sem víðtækust áhrif á þennan mann, því að með því móti vinnur hann að hagsmunum Íslands, en ekki Spánar; þess vegna á hann ekki að hafa fast aðsetur þar syðra. En eigi hann að bera hagsmuni Spánverja fyrir brjósti, þá er búsetan þar suður frá í Miðjarðarhafslöndunum honum nauðsynleg. Þar er jeg á því hreina.

Þess vegna tel jeg hagsmunum Íslands betur borgið með því móti, að maðurinn komi sem oftast heim til skrafs og ráðagerðar, svo þingi og stjórn gefist kostur á að tala við hann.

Þá virtist háttv. frsm. meiri hl. (JJós) vilja halda því fram, að okkur væri sjerstaklega nauðsynlegt að tryggja fiskmarkað okkar í Miðjarðarhafslöndunum, einkum þó á Spáni, enda væru Spánverjar elstu og bestu viðskiftavinir okkar. Ójá, það er nú svona eins og það er tekið. Elstir viðskiftamenn eru þeir, því verður líklega ekki neitað, en um gæðin finst mjer óþarfi að tala, og því síður finst mjer ástæða að hæla þeim fyrir það, þó að þeir borgi fiskinn. Þeirra er þágan að kaupa, engu síður en okkar að selja. Þó höfum við orðið að láta af hendi við Spánverja það dýrmæti, til þess að þeir keyptu fiskinn, sem ekki verður metið til neinna peninga, og fer hann þá að skerðast hagnaðurinn, sem okkur er að því að vera bundnir Spánverjum.

Jeg held jeg hafi þá svarað því helsta; þó er eitt atriði enn, sem jeg verð að minnast lítilsháttar á. Hv. frsm. meiri hl., þm. Vestm. (JJós), sagði nú í seinni ræðu sinni, að hann hefði ekki lagt sjerstaka áherslu á málakunnáttuna, og þó gaf hann fyllilega í skyn, að við hefðum aðeins einn mann nú, sem svo væri fær í spönsku, að hann gæti tekið þennan starfa að sjer. Það getur verið, að jeg hafi misskilið þessi orð hans, en þó held jeg ekki. En hitt er líka víst, að í nefndinni lagði hann mikla áherslu á málakunnáttuna og taldi það fyrsta skilyrðið, að sendimaðurinn skildi vel spönsku, og það tel jeg auðvitað mikils virði líka. Þá hjelt hann því einnig fram, að við hefðum svo fáum mönnum á að skipa, er kynnu málið til hlítar, líklega ekki nema tvo eða þrjá hjer í Reykjavík. Jeg er nú ekki svo kunnugur hjer í Reykjavík, en þó þykir mjer sennilegt, að ef vel væri leitað, myndu þeir finnast fleiri. Og austur á fjörðum veit jeg þó um einn mann, sem er prýðilega vel að sjer í spönsku, talar hana ágætlega og ritar að sama skapi vel. Svo að ef við legðumst báðir á eitt um að leita slíkra manna, gæti jeg trúað, að við fyndum 20–30 menn á landinu, sem spönskukunnáttunnar vegna gætu vel tekið að sjer þennan starfa. Það, sem mjer finst tortryggilegt í þessu efni, er það, að með frv. sje verið að stofna embætti handa ákveðnum manni. Það má vera, að svo sje ekki, en hví er þá svo nauðsynlegt að stofna embættið með lögum, ef við höfum úr fleiri mönnum að velja? Enda er spá mín, að ef embættinu verður slegið upp — og það geri, jeg ráð fyrir, að verði gert, svona til málamynda — að þá komi fleiri en 4 eða 5 menn úr pokahorninu, og trúlegt, að allir væru að einhverju leyti starfinu vaxnir.

Mjer var bent á það af tveim hv. þm., þegar nál. mínu var útbýtt hjer í háttv. deild, að jeg hefði í nál. titlað hr. Gunnar Egilson skipamiðlara í staðinn fyrir konsúl; hann væri sem sje spanskur ræðismaður hjer á landi. Jeg skal viðurkenna fávisku mína í þessu efni, því jeg vissi ekki betur, og bið því velvirðingar á því, sem mjer er ábótavant í þessu efni. En einmitt þessar upplýsingar, að þessi ákveðni maður sje spanskur konsúll, urðu þess valdandi, að jeg varð ennþá ákveðnari á móti frv., einkum þó vegna þess, að flest, sem fram hefir komið í þessu máli, virðist benda til þess, að embætti þetta sje einmitt ætlað þessum ákveðna manni.

Jeg er þeirrar skoðunar, að jeg tel það heldur ekki alveg víst, að heppilegt sje landinu að stofna embætti handa fyrirframhugsuðum embættismanni. Að vísu geta stundum verið þær ástæður fyrir hendi, að það sje nauðsynlegt, en í þessu tilfelli, eða eins og sakir standa nú, tel jeg það hvorki heppilegt nje nauðsynlegt, enda hafa að því hnigið rök þau, er jeg hefi borið fram í móti frv.

Jeg sje nú ekki ástæðu til að þæfa öllu lengur um mál þetta. Hv. deild ætti að fara að skiljast, hvað á milli ber. Fyrir mjer vakir það eitt að flytja fiskmarkað okkar frá Spáni, og það er ekki eingöngu vegna bannmálsins, heldur miklu fremur vegna sjálfstæðis okkar unga ríkis, sem er í voða alla þá stund, sem Spánverjar skipa fyrir um innanlandslöggjöf okkar.