12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Ágúst Flygenring:

Það var út af þessu, sem hneykslaði hv. 2. þm. Reykv., að þessi sendimaður virtist eiga að vera fulltrúi aðeins fárra manna. En þó svo kynni að vera, að hann væri fyrir fáa menn, þá verður að líta á það, að hjer er um að ræða annan aðalatvinnuveg landsins, og þetta snertir meira en helming allra út fluttra vara, og þá er það fyrir landsmenn alla, hvernig sem á er litið. Það væri víst hægðarleikur að upplýsa, að ef þessi maður hefði verið á Spáni undanfarið, hefði hann getað afstýrt mörgu, sem komið hefir óþægilega við útflytjendur. Að þessu hafa ekki verið gefnar eins góðar gætur og vera bar. Hafa útflytjendur yfirleitt verið of tómlátir í þessum efnum. Þessi fulltrúi verður einmitt ekki fyrir stærstu útflytjendurna; það er mesti misskilningur, því þeir hafa sína umboðsmenn og fá upplýsingar beint frá þeim. Þetta fulltrúastarf verður beinlínis fyrir almenning og verður í framkvæmdinni þannig, að reynt verður að gera fiskmarkaðinn öruggari, vara við ýmsu, gefa matsmönnum upplýsingar um ýmislegt, t. d. hvernig varan þyrfti að breytast að því er snertir verkun, aðgreining, umbúðir o. s. frv., sem kunnugur maður einn getur gefið, maður, sem er kunnugur öllu, er að fiskveiðum og fiskverkun lýtur hjer, og sömuleiðis neytendum á Spáni. Þetta embætti er því mjög mikilsvert, og stjórnir þær, er hjer hafa verið undanfarið, hefðu sjálfsagt viljað koma því á, ef hægt hefði verið kostnaðarins vegna; á þá hliðina hefir um of verið einblínt undanfarið. Nú hafa bankarnir sjeð, að þetta mál snertir þá mjög, og fyrst þeir vilja taka þátt í kostnaðinum, er sjálfsagt að koma embættinu á.

Það þarf enginn að hneykslast á því, þó að starfið kunni að vera ætlað vissum manni. Það er sjálfsagt ekki um marga að velja, og þessi maður, sem flestir telja sjálfsagðan, hefir reynst ágætlega undantekningarlaust til þessa starfa.

Hvað skýrslurnar snertir, þá finst mjer sjálfsagt, að því sje hagað svo, að þeirra fái sem flestir að njóta, og ef eitthvað í þeim snertir allan almenning. t. d. hugsanleg breyting á fiskverkun eða þvílíkt, þá komi það fram opinberlega.