12.03.1925
Neðri deild: 31. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Hákon Kristófersson:

Jeg skal ekki fjölyrða um þetta mál, en þótt undarlegt megi virðast, eigum við hv. 2. þm. Reykv. (JBald) dálitla samleið hjer. Jeg vil skjóta því til væntanlegrar nefndar og hæstv. atvrh. (MG), hvort ekki muni vera hægt að hafa frv. á þann hátt, að stjórnin hafi heimild til að ráða til starfans mann, sem hefði samning segjum til 5–6 eða 8 ára. Það vœri ekki lögfesting á stöðunni, og mætti því leggja hana niður, ef hæfa þætti, en kæmi þó í sama stað niður. Jeg treysti hæstv. núverandi landsstjórn til þess að ganga svo vel frá þessu máli, að góðum mönnum líki, en hinsvegar get jeg vitanlega ekkert um það sagt, hvernig næstu stjórnir mundu í því reynast.

Ef frv. verður að lögum, eins og sennilegt er að verði, verður að taka upp í fjárlögin nú fjárveitingu. Kann jeg betur við, að svo yrði gert, með því að ekki er sjáanlegt af lögum þessum, hvað œtti að borga. Þegar embættinu er slegið upp, vita menn um ákveðna stöðu, en ekki ákveðin laun. Jeg skil það svo. En rjettara hefði jeg talið, að launaupphæðin hefði staðið í frv., því venjulegast mun það vera, enda líka sjálfsagt.

Án þess að jeg sje að setja mig á móti þessu máli, enda skifti það ekki miklu, til þess hefir það of öflugan stuðning hjer í hv. deild, hefði jeg kunnað betur við, eins og jeg hefi þegar tekið fram, að frv. gerði frekar ráð fyrir heimild fyrir stjórnina til samninga, en ekki öðruvísi. Jeg býst við, að málið verði borið undir báða bankana, þótt ekki sje sýnilegt af aths. við frv. annað en að það sje aðeins borið undir Íslandsbanka. Þó hv. Alþingi hafi máske vald til að leggja þessa kvöð á Landsbankann án hans samþykkis, hefði jeg þó kunnað betur við það, að umsögn bankastjórnar þess banka hefði legið fyrir, jafnhliða umsögn Íslandsbanka. Um það, sem háttv. 2. þm. Reykv. sagði um, að bönkunum bæri að borga alt, álít jeg rjettara, að landið borgi 1/3.

Þá kem jeg að atriðinu um skýrslurnar og verð þá að segja það, að ef landsmenn vita ekki um jafnþýðingarmikið atriði og markaðshorfurnar eru, fyr en eftir dúk og disk, þá hverfur það þýðingarmesta, sem talið er því til gildis að stofna þetta embætti.

Jeg skal nú láta útrætt um málið að þessu sinni. Jeg býst við, að það fari til nefndar, en það er ekki gott að segja„ hvort það á frekar heima í sjútvn. en í fjhn. Jeg býst líka við, að það sjeu vel glöggskygnir menn í fjhn. engu síður en í sjútvn., en tel það þó aukaatriði, til hvaða nefndar því er vísað, en því verður ekki neitað, að frv. felur í sjer ekki svo lítið fjárhagsatriði.