16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Ásgeir Ásgeirsson:

Það kom bert í ljós hjá háttv. þm. Ak. (BL), hvað liggur á bak við hjá þeim, sem leggjast á móti brtt. minni við 3. gr. á þskj. 329. Hann vantreystir þinginu. Enda er leikurinn til þess gerður að komast framhjá þinginu, að frv. er borið fram í þessari mynd og að staðið er á móti þessari brtt. minni.

En jeg held því fram, að slíkir hlutir sem launakjör starfsmanna ríkisins eigi að heyra undir valdssvið þingsins. Og landið á ekki að hafa þá menn í þjónustu sinni, sem ekki er trúandi til að gera svo sanngjarnar kröfur, að þingið geti sannfærst um rjettmæti þeirra.

Hv. þm. Ak. (BL) segir það fyrirsjáanlegt, að ekki muni fást hæfur maður í stöðu þessa, ef brtt. mín verður samþykt, en hæstv. atvrh. (MG) sagði, að í till. væri alls ekki ákveðið, hve há launin skuli vera. Þetta er að vissu leyti rjett. Það er aðeins fastákveðinn launastofn, 12 þús. kr., en síðan skal þingið ákveða uppbót launanna fyrir eitt ár í senn. Þannig er slíkum málum skipað víða, enda er ekki hægt að ákveða uppbótina fyrir lengri tíma í einu.

Brtt. mín er fram komin vegna þess, að þingið á að hafa úrskurðarvald í þessu máli eins og öðrum, sem snerta launakjör opinberra starfsmanna, og þingið verður að treysta sjer til að fara sæmilega með það vald.

Jeg skal benda háttv. þm. Ak. á það, að enda þótt einhver krefjist hærri launa en þingið hefir ákveðið, þá er mögulegt að taka þann mann eigi að síður, ef bankarnir vilja fá hann í stöðuna fremur en einhvern annan, sem býðst fyrir lægri laun. Bankarnir þurfa ekki annað en bæta við nokkru úr sínum sjóði. Jeg er því alls ekki hræddur við, að brtt. hafi þau áhrif, að síður fáist hæfur maður til að gegna starfinu.

Hæstv. atvrh. (MG) segir, að meiri hl. sjútvn. hafi ekki treyst sjer til að ákveða laun fulltrúans. Jeg er sjálfur í þessum meiri hl. og get jeg því sagt, að þetta er ekki rjett hjá hæstv. ráðh. (MG). (Atvrh. MG: Hv. þm. er ekki allur meiri hl.). Hitt mun rjettara, að nokkur hluti nefndarinnar vildi láta það ógert að fastákveða launin, en jeg læt ósagt, hvort hann hefir ekki treyst sjer til þess. Ef ekki má treysta sjútvn. til að ákveða laun þessa fulltrúa, þá er hæstv. stjóra ekki heldur treystandi til þess. Ekki af því, að sjútvn. sje jafngöfug eins og hæstv. stjórn, heldur vegna þess, að hæstv. stjórn gat aflað og látið sjútvn. í tje allar þær upplýsingar, sem hún ætlar sjálf að fara eftir, þegar hún endanlega ákveður launin. Og það er í rauninni skylda þingsins að afgreiða ekki þetta mál, fremur en önnur, eins og hálfvitar, án þess að leita nauðsynlegra upplýsinga um kostnaðarliðina. Mörgum málum er svo varið, að leita þarf mikilla skýringa og upplýsinga um þau, áður en ákvörðun verður um þau tekin, og fæ jeg ekki betur sjeð en að þing og stjórn standi nokkurn veginn jafnt að vígi með að afla sjer þessara upplýsinga.

Hæstv. atvrh. (MG) sagði, að í brtt. væri ekkert launahámark, og að því leyti væri hún jöfn frv. óbreyttu. En munurinn er samt mikill, vegna þess að brtt. fer fram á, að þinginu sje geymt ákvörðunarvaldið.

Í stjfrv. er kveðið svo á, að stjórnin skuli ákveða upphæð launanna. Síðan á að taka upphæðina upp í fjárlög, eftir að hún er samningsbundin og ef til vill þegar greidd.

Þarna er valdið í raun og veru tekið úr höndum þingsins; nema það geri það, sem óþekt er áður, að neita stjórninni um fjárveitingu, sem þegar hefir verið greidd samkv. samningi. Það er því alls ekki óviðkunnanlegt, að ekki skuli vera ákveðið hámark í till. minni. Launin er ekki hægt að ákveða nema fyrir skamman tíma í senn, og sá ákvörðunarrjettur á að vera í höndum þingsins.

Hæstv. ráðherra (MG) sagði ennfremur, að óviðeigandi væri, að þingið ákvæði launin, þegar af þeirri ástæðu, að fleiri aðiljar ættu að greiða þau. Jeg fæ ekki sjeð, að þetta sje nægileg mótbára, enda hefir hæstv. stjórn borið fram frv., þar sem Landsbankanum er gert að skyldu að greiða launanna, að bankastjórninni fornspurðri, eða, ef hún hefir verið spurð ráða, þá þvert ofan í till. hennar. Ennfremur hefir Íslandsbanki lýst yfir því, að hann sje fús til að greiða 1/3 launanna, án þess að vita, hversu mikil þau verði. Að vísu má segja, að bankinn ætti að taka þátt í ákvörðun upphæðarinnar, en það getur hann eftir sem áður, þó að tillaga mín verði samþykt, því hann hefir altaf sitt atkvæði á sameiginlegum fundi bankanna og stjórnarinnar, sem á að gera till. um upphæð launanna. Nei, það er engan veginn óviðeigandi, að Alþingi neyti þess valds, sem því ber.

Hæstv. atvrh. (MG) taldi þau vandkvæði við brtt. mína við 1. gr., að ef Landsbankinn, Íslandsbanki og Fiskifjelagið tilnefndu hvert sinn manninn, þá gæti stjórnin engan skipað í embættið. (Atvrh. MG: Ekki ef farið er eftir strangasta bókstaf brtt.). En jeg býst við, að lögfræðingar sjeu vanir því að fást við jafnóbrotna skýringu og þá, sem verður að gefa á þessari till. Ef aðiljar þeir, sem hjer eiga hlut að máli, geta ekki orðið ásáttir um, hvern skipa skuli, þá hefir stjórnin vitanlega óbundnar hendur og getur gert hvort hún heldur vill, að skipa einhvern þeirra, sem tilnefndur hefir verið, eða tekið einhvern 4. mann, ef henni líst það ráð vænna. Þetta er ofurauðskilið mál og kemur þráfaldlega fyrir um embættaveitingar.

Þá sagði hœstv. ráðh. (MG) það óviðfeldið að binda veitingu starfans við 5 ár, m. a. vegna þess, að ekki sje víst, að þörf verði á þessu embætti í full 5 ár. Ef slíkt getur komið til mála, hefði hæstv. stjórn sparað sjer ómakið að bera frv. fram. Frv. er vitanlega fram borið vegna þess, að hæstv. stjórn hefir álitið þess fulla þörf að hafa þarna fastan fiskifulltrúa, og á þá nauðsyn hefir sjútvn. fallist.

Þá spyr hæstv. ráðherra (MG), hvernig fara skuli að, ef fulltrúann þyrfti að kalla heim áður en ráðningartíminn væri úti. Jeg hygg, að skilja megi brtt. svo, að enda þótt fulltrúann skuli skipa til 5 ára, þá megi eigi að síður kalla hann heim hvenær sem vill, áður en þessi tími er útrunninn, alveg með sama hætti og ef fulltrúinn væri skipaður um óákveðinn tíma. Í till. stendur ekki, að semja skuli við fulltrúann til 5 ára, heldur að hann skuli skipaður til 5 ára í senn, svo að þetta ákvæði ætti ekki að saka.

Að því er ferðakostnaðinn snertir, gat hæstv. atvrh. (MG) þess, að komið gætu fyrir þau tilfelli, að ekki væri rjettlátt að láta ríkissjóð og bankana bera hann. Þetta er rjett. T. d. getur vel komið fyrir, að fulltrúinn taki sjer ferð á hendur eingöngu í þágu einhverra útgerðarmanna eða fiskútflytjenda. Í slíkum tilfellum er rjett, að hlutaðeigandi útgerðarmaður greiði sjálfur kostnaðinn við förina, en ekki ríkissjóður eða bankarnir, enda gæti stjórnin lagt svo fyrir fulltrúann, að hann færi ekki slíkar ferðir, nema þeir, sem ferðirnar eru farnar fyrir, greiði kostnaðinn.

Annars er till. mín um ferðakostnað fulltrúans auðvitað ekki flutt í þeim tilgangi að hvetja hann til ferðalaga meira en nauðsyn krefur. Hún er flutt til þess, að fulltrúinn þurfi ekki af fjárhagsástæðum að láta undir höfuð leggjast ferðalög, sem annars eru nauðsynleg, og við verðum að treysta honum til þess að eyða ekki fje að óþörfu í ferðakostnað. Þessum fulltrúa verður trúað fyrir meiru en svo, að ekki megi gera ráð fyrir, að hann fari samviskusamlega með fje til ferðalaga.

Yfirleitt byggist þessi starfi á mjög mikilli tiltrú til þess manns, sem hann hlýtur.

Loks skal jeg drepa á það, að ef erindreki þessi ætti að vera sendiherra, væri útilokað, að hann gœti unnið margt það, sem honum nú er ætlað að vinna, því að þeir eru of háttstandandi embættismenn til að vinna sjálfir slík störf. Sendiherra þyrfti að sitja í Madrid, halda þar veislur og sitja í veislum, en senda sendimenn sína til þeirra starfa, sem þessum fulltrúa er ætlað að vinna.

Embætti þetta er ekki stofnað af diplomatiskum ástæðum, heldur vegna verslunar- og viðskiftaþarfar landsmanna, og er því rjett, að sendimaðurinn heiti fulltrúi, en ekki sendiherra, enda er hæpið, að annað sje heimilt samkv. sambandslögunum.

Ef slíkur sendimaður þarf að hafa einhvern „stimpil“, þá væri sennilega hægt að fá skipaðan dansk-íslenskan generalkonsúl, er þá hefði aðsetur í Barcelona eða einhverri annari hafnarborg á Spáni. En sá generalkonsúll myndi þá hafa yfir sjer dönsku sendisveitina í Madrid, enda þyrfti það ekki að koma að sök, þar sem hagsmunir okkar þar suður frá eru sjerstæðir og fara ekki í bága við hagsmuni Dana.