16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Tryggvi Þórhallsson:

Hæstv. atvrh. (MG) var að kvarta yfir löngum umr. Það hefir nú fyr heyrst úr því horni, að það væri best, að þingið segði sem fæst. Mun öllum hv. þm. það nú fullljóst, að hæstv. stjórn vill fá sem fríastar hendur gagnvart þinginu. En jeg þarf varla að taka það fram, að jeg ber ekki slíkt traust til hæstv. stjórnar, að jeg kjósi, að hún sje einráð. Annars get jeg sagt það, að hvað þetta mál snertir, þá hefir aðeins einn maður talað um það úr þeim flokki, sem jeg tilheyri. Minna má nú varla vera en að einn tali um málið af heilum flokki, og er því ekki hægt að bera okkur Framsóknarmönnum á brýn, að við höfum að óþörfu lengt þessar umr. Jeg get nú fyllilega skrifað undir alt, sem þessi samflokksmaður minn hefir sagt, en þar sem nú vill svo til, að hann hefir talað sig dauðan, þykir mjer rjett að taka nokkuð fleira fram í framhaldi af ummælum hans.

Jeg verð að segja, að mig furðar ekki á, þótt nokkrar umr. verði um þetta mál, einkanlega þegar það kemur á daginn, hvernig. hæstv. landsstjórn snýst við þeim skynsamlegu og sjálfsögðu till., sem háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) ber fram. í þessu sambandi vil jeg einkanlega minnast á þrjú atriði.

Till. háttv. þm. V.-Ísf. miða aðallega að tvennu. Fyrst því, að hindra það, að stofnað sje mjög dýrt embætti fyrir alla framtíð, heldur takmarka þegar þann tíma, sem það skuli standa, enda er það vitanlegt, að ástæður allar geta breyst, svo að þessa embættis gerist ekki þörf. Hæstv. atvrh. (MG) legst þunglega á móti þessu, en berst mjög fyrir að binda embættið með lögum. En hinsvegar segir hæstv. atvrh. í öðru orðinu, að hægt sje að kalla þennan mann heim hvenær sem vill. En það liggur í augum uppi, að þegar þessi leið er valin, að stofna embættið með lagafrv., þá er ætlast til, að það verði föst framtíðarstaða. Og mjer er sem jeg sjái framan í háttv. þdm., ef embættið er nú stofnað með sjerstökum lögum og svo síðar er farið fram á það að taka manninn úr því í miðju kafi og fleygja honum út á gaddinn. Ætli þá heyrist ekki nóg hljóð um þingsvik til þess að slíkt nái ekki fram að ganga! Þess vegna er það fyrirspurn mín til hæstv. atvrh. (MG), hvaða tryggingar hann getur gefið fyrir því, að ef ekki er sjerstök ástæða til að hafa þarna mann, þá verði hægt að leggja embættið niður, án þess að veita þeim, er það hefir á hendi, fullar sárabætur. Slíkt hefir aldrei verið gert hingað til.

Þá vildi jeg víkja að öðru atriði. Það er fyllilega Ijóst af till. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að hann vill, að þingið hafi það fullkomlega á sínu valdi, hve mikið fje gangi til þessa. En af öllum ummælum hæstv. stjórnar er það víst, að hún óskar að hafa óskorað vald á fjárveiting í þessu skyni og geta eytt til þessa eins miklu fje og verkast vill að þinginu forspurðu. Stingur þetta mjög í stúf við aðra framkomu hæstv. stjórnar í fjármálum, og þó einkum hæstv. fjrh. (JÞ). Hann hefir borið fram margar till. þess efnis, og það hefir orðið að samkomulagi með honum og fjvn., að setja allar upphæðir í fjárlögin, svo að þau gæfu sanna mynd af fjárhagsástandinu. Nú vil jeg spyrja hæstv. atvrh. (MG): Ef þetta frv. verður, eins og líkindi eru til, samþykt innan fárra daga, ætlar hann þá að koma með till. um ákveðna upphæð til þessa við eina umr. fjárlagafrv. hjer í hv. deild? Ef hann gerir það ekki, skil jeg ekki, hverju sætir. Jeg verð að halda því fast fram, að þingið á að hafa fulla hugmynd um, hve mikið fje gengur til þessa. Jeg sje enga ástæðu til, að farið sje á bak við þingið með það. Jeg tek fyllilega undir það með háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að það er óheilbrigt að fela slíka fjárveiting fyrir þinginu. En ef hæstv. atvrh. vill nú gefa yfirlýsingu um það, að hann ætli að koma með till. um þetta, þegar fjárlögin koma aftur hingað, þá er jeg því feginn og þykir betur rætast úr en orð hans hafa bent til hingað til.

Þriðja atriðið, sem jeg vildi víkja að, er það, að Landsbankanum er gert að skyldu að greiða 1/3 af launum mannsins. Nú liggja fyrir mótmæli Landsbankans gegn þessu. Þá kem jeg að atriði, sem töluvert hefir verið rætt um hjer, en það er, hvort þingið geti yfirleitt skipað Landsbankanum að gera þetta eða hitt. Virðist mjer sem svo fari fyrir hæstv. ráðherrum nú eins og segir í vísunni:

— einn rekur sig á annars horn,

eins og graðpening hendir vorn.

Hæstv. atvrh. (MG) segir, að þingið geti skipað Landsbankanum að gera þetta, en hæstv. fjrh. (JÞ) hefir sagt alveg gagnstætt um afstöðubankans til löggjafarvaldsins. Jeg er nú sammála hæstv. atvrh. um það, að þingið hafi vald til að skipa bankanum að gera hitt og þetta. Og þegar þingið álítur, að annar aðalatvinnuvegur vor hafi ekki borið þau lán úr býtum frá bankanum, sem skyldi, þá finst mjer sjálfsagt, að þingið noti vald sitt á þessu sviði. En hjer er alt öðru máli að gegna, þegar rætt er um að skipa bankanum að greiða ákveðnum manni laun. Ef þingið gerir það, álít jeg, að það misnoti vald sitt. Jeg er því í „principinu“ samþykkur hæstv. atvrh., en í þessu eina atriði, sem hjer um ræðir, er jeg sammála áliti hæstv. fjrh. á þessum efnum.

Jeg býst nú við, að jeg hafi ef til vill helt olíu í eldinn, en jeg geri ráð fyrir, að jeg fái skýr svör og góð hjá hæstv. atvrh. (MG), enda þótt það lengi ofurlítið umr.