18.04.1925
Neðri deild: 59. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

12. mál, fiskifulltrúi á Spáni og Ítalíu

Tryggvi Þórhallsson:

Hæstv. forsrh. (JM) ásakaði þdm. fyrir það áður, að þeir hjeldu of langar þingræður. En ræðuhöld hjer eru ekki þdm. að kenna, heldur því, að stjórnin hefir vanrækt sitt starf um að undirbúa þingmálin og borið fram fáránlegri frv. en áður hefir gert verið. Hún vill hækka nefskatt á efnalausum mönnum, en lækka skatt á stóreignamönnum. Og af einu frv. hennar verður ekki betur sjeð en að hún vilji gera ráðstafanir til þess, að uppreist verði í landinu.