28.03.1925
Neðri deild: 45. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

1. mál, fjárlög 1926

Jakob Möller:

Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði snemma við þessa umr., að hann væri þeirrar skoðunar, að ríkið ætti að geyma framkvæmdir sínar til mögru áranna, og í öðru lagi sagði hann, að nota bæri góðu árin til þess að búa sig undir þessar framkvæmdir.

Þetta er nógu áferðarfalleg kenning, en þó er jeg sannfærður um, að ef ríkið ætlaði að framkvæma hana, þá yrði niðurstaðan sú, að framkvæmdirnar yrðu geymdar frá feitu árunum til mögru áranna og frá mögru árunum til feitu áranna, og þannig koll af kolli, svo að ekkert yrði aðhafst.

Ef tekjum góðu áranna er ekki varið til nauðsynlegra framkvæmda, þá verður aldrei neitt framkvæmt.

Ef öllum tekjum góðu áranna er varið til að borga með þeim skuldir frá mögru árunum, sem jeg að öðru leyti skal ekki lasta að greiddar sjeu, þá mun fara svo, að ef nokkuð á að framkvæma á vondu árunum, þá þarf að stofna til nýrra skulda í því skyni.

Jeg efast um, að mönnum þyki fýsilegra að stofna nýjar skuldir til verklegra framkvæmda þegar illa árar en að verja til þeirra tekjum góðu áranna.

Jeg get auðvitað ekki áfelt hæstv. fjrh. (JÞ), þó að hann vilji ekki láta eyða fje ríkissjóðs mjög að ófyrirsynju, enda þótt í góðæri sje.

En samt finst mjer hann gera nokkuð mikið úr því, hversu fjárhagur ríkissjóðs sje nú örðugur.

Það eru þessar svokölluðu lausaskuldir, sem hann veifar stöðugt framan í okkur og brýnir fyrir okkur að greiða þurfi.

Hinsvegar gerir hann sjer minna far um að benda okkur á, hvernig fjárhagslegri afkomu ríkissjóðs er í raun og veru varið nú sem stendur.

Hann segir, að tekjuhlið fjárlagafrv. leyfi ekki, að ráðist verði í byggingu landsspítala á næsta ári, eins og jeg hefi lagt til ásamt hv. 2. þm. Reykv. (JBald).

En í þessu sambandi má einnig líta á, hvernig niðurstaða yfirstandandi ársmuni verða.

Hv. fjvn. hefir nú að vísu hækkað ýmsa tekjuliði í fjárlagafrv. fyrir árið 1926 um 930 þús. kr. frá því, sem þeir voru áætlaðir í stjfrv.

Það er engan veginn hægt að segja, að þessi hækkun hv. fjvn. sje óvarleg, eða að ekki sjeu líkur til, að þessir liðir gefi svo miklar tekjur árið 1926.

En hitt er og athugandi, að það mun fullkomlega óhætt að hækka hlutfallslega sömu liði í fjárlögum yfirstandandi árs, og hefir mjer talist svo til, að samkvæmt þeirri hækkun gefi þessir liðir um 1235 þús. kr. umfram áætlun fjárlaganna. Og ef menn vilja leggja útkomu ársins 1924 til grundvallar, þá má enn bæta um 1 miljón við tekjurnar samkvæmt þessum sömu liðum árið 1925.

Þannig er það, að ef bygt er á afkomu síðastl. árs, sem að vísu var óvenju gott, þá má á þessu ári gera ráð fyrir um 21/4 milj. kr. tekjum umfram áætlun á þeim liðum einum, sem hv. fjvn. leggur til, að hækkaðir verði í frv. fyrir árið 1926.

Hjer við má þó enn bæta 2 liðum, sem hv. fjvn. leggur ekki til, að verði hækkaðir í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, vegna þess að enn er allsendis vafasamt, hversu miklar tekjur þeir muni gefa á því ári, en sem vafalaust gefa mun meiri tekjur í ár en áætlað er.

Þar má fyrst nefna tekju- og eignarskatt, sem í fjárlögum þessa árs er áætlaður 800 þús. kr., en sem vafalaust verður miklum mun hærri, vegna þess, hve síðasta ár reyndist fengsælt öllum þorra landsmanna, en af síðasta árs tekjum er skatturinn í ár reiknaður, eins og kunnugt er. Jeg held, að það sje alls ekki óvarlegt að gera ráð fyrir því, að þessi liður fjárlaganna fari í ár um 500 þús. kr. fram úr áætlun, jafnvel þó að samþykt verði breyting sú á tekjuskatti hlutafjelaga, sem fyrir þinginu liggur.

Í öðru lagi má ekki ganga framhjá póst- og símatekjum. Þær fóru síðastl. ár um 460 þús. kr. fram úr áætlun, og er engin ástæða til að halda, að þær verði ekki jafnmiklar í ár.

Þarna eru komnar um 1 milj. kr. tekjur umfram áætlun núgildandi fjárlaga í viðbót við áðurnefndar 24 milj. kr. Á þennan hátt reiknast mjer til, að tekjur yfirstandandi árs megi áætla nálega 34 milj. kr. umfram áætlun fjárlaganna, og þó að hjer frá sjeu dregin 15%, sem hæstv. fjrh. (JÞ) segir, að gjöldin fari að jafnaði fram úr áætlun, þá verður eftir um 2 milj. kr. tekjuafgangur á þessu ári.

Þá er að athuga, hversu öruggar tekjulindir ríkissjóðs eru, því að þar á veltur, hvort þessar áætlanir mínar fái staðist og hvort treysta megi því, að tekjur ársins 1925 verði ekki minni en síðasta árs.

Í þessu sambandi er fyrst athugandi, af hverju hinn mikli tekjuafgangur ársins 1924 stafar, eða m. ö. o. hvers vegna tekjur þess árs fóru svo mjög fram úr áætlun.

Þetta stafar að töluverðu leyti af því, að á síðasta ári blómgaðist mjög alt viðskiftalíf landsins, en í öðru lagi og ekki hvað síst af hinu, að ýmsir tollar og gjöld voru hækkuð mikið á síðasta þingi, auk þess að nýr tollur var í lög leiddur, verðtollurinn.

Hjer við bætist ennfremur, að verslunarfyrirtæki ríkisins gáfu ríflegri arð en áætlað var, sem sumpart stafar af bættum efnahag almennings, en sumpart vafalaust af gengiságóða.

Þegar nú hver tekjuliður er athugaður út af fyrir sig, — en það hefi jeg gert eftir föngum, — þá verður ómögulegt að komast að annari niðurstöðu en þeirri, að engin ástæða er til að ætla, að þeir gefi neinum mun minni tekjur á þessu ári en þeir gáfu síðastl. ár.

Það er aðeins einn liður, sem ef til vill verður eitthvað lægri, en það er útflutningsgjaldið, vegna þess að það lækkar jafnhliða verðhækkun ísl. krónunnar og afurðir landsins verða minna virði að nafnverði. Hjer við er þó athugandi, að enda þótt afurðasalan hafi yfirleitt gengið mætavel síðastl. ár, þá varð útflutningsgjaldið þó ekki svo mikið, sem því svarar fullkomlega. Það stafar af því, að þó að fiskverðið hafi verið gott, þá brást síldin, svo að óvenjulítið var útflutt af henni. En útflutningsgjald af síld er í rauninni sá hluti útflutningsgjaldsins, sem mest dregur um, þegar aflast í meðallagi eða meira.

Þó að útflutningsgjaldið kunni því að lækka eitthvað vegna gengishækkunar ísl. krónunnar, þá sje jeg ekki ástæðu til að gera ráð fyrir, að það lækki nokkuð verulega í heild, ef síld aflast í meðallagi, þar sem útflutningsgjald af síld er miðað við þunga, en ekki verð.

Þá er enn eftir að athuga eitt atriði, sem einnig hefir þýðingu í þessu sambandi.

Eins og kunnugt er, hefir síðasta þingi verið hælt mikið fyrir að hafa áætlað útgjöld ríkissjóðs í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár enn varlegar en áður hefir tíðkast. Þess vegna má ef til vill draga eitthvað frá þeim 15%., sem hæstv. fjrh. (JÞ) vill láta bæta við útgjöldin eins og þau eru áætluð í fjárlögum, til þess að hin rjetta útkoma fáist.

Hversu varlega útgjöldin hafa verið áætluð, má m. a. sjá á því, að enda þótt svo að segja allar verklegar framkvæmdir hafi verið skornar niður, er gjaldahliðin nærri því jafnhá og hún var í fjárlögum fyrir síðasta ár, en þar var þó gert ráð fyrir töluverðum verklegum framkvæmdum.

Þó er rjett að reikna með því, að ýms útgjöld fari á þessu ári töluvert fram úr áætlun, eins og t. d. laun embættismanna ríkisins, vegna þess að dýrtíðaruppbótin hefir reynst hærri en ráð var fyrir gert.

En þegar alls er gætt, er samt engin ástæða til að efast um, að útkoma ársins 1925 verði mjög hagstæð og ríkissjóði hlotnist allverulegur tekjuafgangur.

Jeg vil því staðhæfa, að enda þótt greidd verði á þessu ári af lausaskuldunum fullkomlega jafnhá upphæð þeirri, sem áætlað er, að greidd verði árið 1926 samkvæmt till. hv. fjvn., og þar að auki lagðar 150 þús. kr. til landsspítalabyggingar og 75 þús. kr. til heilsuhælis á Norðurlandi, þá verður samt verulegur tekjuafgangur.

Af þessum hugleiðingum mínum leiðir það ennfremur, að jeg verð að álíta, að útkoma ársins 1926 muni einnig verða að því er tekjurnar snertir töluvert betri en tekjuhlið þessa frv. sýnir, jafnvel eftir að till. hv. fjvn. hafa verið samþyktar.

Jeg þykist vita, að mjer hafi misheyrst, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi sagt, að tekjur samkv. 2. gr. fjárlagafrv. eins og hv. fjvn. skilar því, sjeu áætlaðar 11/2 milj. króna hærri en í fjárlagafrv. 1923. (Fjrh. JÞ: Það er rjett). Þetta kann svo að vera, en þá er aðgætandi, að nú eru í þeirri grein ýmsir liðir, sem þar voru ekki árið 1923. (Fjrh. JÞ: Þeir eru reiknaðir frá í þessu sambandi). Þá skil jeg ekki niðurstöðu hæstv. fjrh. (JÞ).

Í fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir 8 milj. 242 þús. kr. tekjum og hv. fjvn. hefir hækkað það um 930 þús. En þar frá dragast svo 800 þús. fyrir tolli og 60 þús. af steinolíueinkasölunni. Og þá skil jeg ekki, að eftir verði 11/2 milj. umfram áætlun fjárl. 1923. Og þá er þess hjer að gæta, að gengisviðaukinn gefur mjög miklar tekjur, sem koma þarna til greina.

Þá sagði hæstv. fjrh., að hann áliti þó tiltækilegt að veita þessar upphæðir, ef tekinn væri varasjóður landsverslunarinnar, en algerlega ótiltækilegt að taka til þess lán.

Jeg get ekki sjeð, hver munur er á því að taka eign ríkissjóðs og nota hana eða taka lán og eiga eignina. Ef eignin gefur arð, þá er það mikið álitamál, en ef eignin gefur engan arð, þá er það vafasamt, hvers virði hún er.

Ef hæstv. stjórn vill fá heimild til þess að gera þetta, þá er betra að veita þá heimild, ef svo sýnist, án þess að blanda því máli inn í þessar umr.

Jeg held, að það sje fullkomlega forsvaranlegt að setja þessi útgjöld í fjárlög fyrir 1926, með tilliti til þess, hve góð útkoman var árið 1924 og hve útlitið er gott. Tekjuafgangur var árið 1924 11/2 milj., og því má treysta, að afgangurinn verði ekki minni hin árin til jafnaðar.

Hv. frsm. (ÞórJ) sagðist fyrir hönd nefndarinnar ekki sjá sjer fært að ljá till. minni um landsspítala fylgi sitt. Bygði hann það meðfram á því, að framlög til aukningar húsum á Kleppi ættu og yrðu að ganga á undan. Jeg held hann hafi gert fullmikið úr erfiðleikunum á því að sjá fyrir geðveikum sjúklingum, þar sem hann gerði ráð fyrir, að meðgjöfin með einum sjúklingi gæti orðið alt að 11 þús. kr. á ári. Það er óneitanlega býsna hátt. Mjer er að svo komnu ómögulegt að trúa því, að ekki sje hægt að fá mann til að taka sjúklinga fyrir lægri meðgjöf, þótt örðugir kunni að vera.

Hins er ekki að synja, að það er þegar þörf á því, að Kleppur sje stækkaður. En jeg held því fram, að landsspítali sje hin langnauðsynlegasta undirstaða heilbrigðismála í landinu.

Jeg gat þess í fyrri ræðu minni, að prófessorarnir í læknisfræði væru í vandræðum með að kenna aðra aðalgrein læknisfræðinnar, lyflæknisfræði, sakir skorts á sjúkrahúsi. Og það getur hver maður sagt sjer sjálfur, hvílík áhrif það hefir á mentun lækna. Jeg vil vekja athygli á því í sambandi við berklahælið, hvaða áhrif það hlýtur að hafa, ef háskólinn er ekki firtur þeim vandræðum. Það gæti sem sje leitt til þess, að læknar hættu að þekkja sjúkdóminn. En slík tækifæri, sem til þess þarf, fá læknanemar aldrei fyr en landsspítali er fenginn. Og meðan það er dregið, er stofnað til nýrrar hættu og líf manna og heilsa gert ótryggara en þarf að vera.

Jeg vil því taka það fram ennþá: Landsspítalinn er nauðsynlegastur. Ef nokkurt fje á að veita, þá á að veita til hans.