27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1652 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

9. mál, vatnsorkusérleyfi

Frsm. (Jón Kjartansson):

Það voru aðeins örfá orð, sem jeg vildi segja út af ræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg býst við því, að öll allshn. sje honum sammála um það, að það eigi að vera ríkjandi stefna í þessum lögum, að örugt eftirlit sje haft með virkjun stærri fallvatna. En hinsvegar verður ekki fallist á það, að ekki felist nægileg trygging um þetta í frv. því, er hjer liggur fyrir. Það er ekki rjett hjá hv. þm. (SvÓ), að frv. sje gamall forngripur. Frv. er komið frá samvinnunefndinni, sem starfaði á þinginu 1919. Annars er það einróma álit allshn., að það beri að láta eignarrjettarspursmálið liggja alveg utan við þessar umræður, enda er það að mínu áliti það eina rjetta, hvað sem hv. þm. (SvÓ) segir. Þar sem vatnalögin eru nú gildandi lög, þá er því meiri ástæða til þess að halda þessu atriði utan við umr., því að við, hv. þm. (SvÓ) og jeg, erum alveg sammála um það, að þetta spursmál er útkljáð með vatnalögunum. Annars tel jeg það ekki rjett hjá hv. þm. (SvÓ) að benda á ýmsar greinar í vatnalögunum, þegar hann er að útskýra það, hvernig vatnalögin hafi skorið úr þessari deilu, en sleppa alveg að minnast á 2. gr., sem er aðalgreinin, en sú grein verður altaf aðalheimildin, sem fara verður eftir. Annars vil jeg ekki gefa tilefni til þess, að farið verði að deila um það atriði, og það því fremur, sem aðrir hv. þm., er til máls hafa tekið, hafa leitt það hjá sjer.

Viðvíkjandi ræðum þeirra hæstv. atvrh. (MG) og hv. 2. þm. Rang. (KIJ) skal jeg geta þess, að jeg hygg, að skoðanir þeirra á till. hv. 1. þm. S.-M. falli alveg saman við skoðun allshn. Hún vill mæla með 2. og 9. brtt., en að vísu mælir hæstv. atvrh. ekki með 9. brtt., en allshn. er öll með henni, og jeg fyrir mitt leyti legg langmest upp úr henni. 5. brtt. lætur nefndin afskiftalausa, en jeg vil ekki fallast á það, að það sje nauðsynlegt að samræma þetta atriði við 49. gr. vatnalaganna. Það, sem átt er við í 4. gr. þessa frv., er þetta, að lækka sjerleyfisgjaldið þegar á að virkja aðeins lítinn hluta af stærra fallvatni. En jeg geri þetta ekki að ágreiningsatriði, og jeg geri ráð fyrir því, að nefndin sje því ekki mótfallin, að þessi brtt. verði samþykt.