31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

1. mál, fjárlög 1926

Sigurjón Jónsson:

Það eru aðeins tvær brtt. á þskj. 235, sem jeg hefi leyft mjer að bera fram að þessu sinni og verð að minnast á nokkrum orðum.

Fyrri brtt. er sú XXVII. í röðinni og er brtt. við brtt. hv. fjvn. á þskj. 195, og fer jeg fram á, að kvenfjelagið Ósk á Ísafirði fái til húsmæðraskóla síns 3 þús. kr.

Í stjfrv. var styrkur þessi upphaflega settur 1000 kr., en hv. fjvn. hefir orðið ásátt um að hækka hann upp í 2000 kr. Vitanlega er jeg þakklátur nefndinni fyrir þessa till. hennar, þótt jeg hins vegar játi, að það sje dálítið mót von minni, að hv. fjvn. hefir ekki sjeð sjer fært að fara jafnhátt og jeg hafði mælst til, eða upp í 3 þús. kr., eins og brtt. mín hljóðar um, en það er það minsta, sem hægt er að nefna, svo að fjelagið geti haldið uppi þessari húsmæðrakenslu sinni.

Fyrir hv. fjvn. lá umsókn fjelagsins um 5 þús. kr. styrk til þess að halda uppi húsmæðraskóla, og álítur fjelagið sig hafa fylstu þörf á svo háum styrk til þess að geta haldið uppi skólanum. Þess vegna voru tilmæli mín um 3 þús. kr. styrk miðuð við það allra minsta, sem hægt yrði að komast af með.

Kvenfjelagið Ósk hefir haldið þessum skóla uppi um nokkurra ára skeið og notið til þess dálítils styrks úr ríkissjóði. Þó varð skólinn að leggjast niður á verstu stríðsárunum, vegna fjárhagsörðugleika. Fjelagið hefir lagt á sig mikil fjegjöld og mikla fyrirhöfn, til þess að halda skólanum uppi, og sýnir í því mikinn áhuga og góðan skilning á þessu mikilsverða máli.

Hjer er um að ræða eina þá notadrýgstu fræðslu, sem ríkið styrkir: að gera ungar konur færari um að verða góðar húsmæður. Hjer er því ekki um neinn hjegóma að ræða eða tildurmentun; þessi skóli kostar kapps um að kenna nemendum sínum matartilbúning, hreinlæti, reglusemi og önnur þau fyrstu og aðalskilyrði þess, að þær geti orðið góðar húsmæður og geri heimili sitt að góðu heimili, bæði fyrir sjálfa húsráðendurna, vinnufólkið, en þó ekki síður fyrir þann æskulýð, sem þar á að alast upp.

Góð húsmóðir vinnur ekki eingöngu fyrir heimilið og sína nánustu, og hún vinnur ekki einungis fyrir sína samtíð. Framtíðin uppsker einnig ávextina af starfi góðrar húsmóður. Bæði sjálfrátt og ósjálfrátt mótast hver einstaklingur á margan hátt af heimilinu, sem hann er alinn upp á, en húmóðirin setur á margan hátt mestan svipinn á heimilið.

Um þetta er óþarfi að fjölyrða. Hv. þdm. munu mjer sammála um það, hve mikils virði það er fyrir þjóðina að eiga sem flestar góðar húsmæðurnar, sem færar eru um að leysa sitt vandaverk vel af hendi. Þess vegna er svo langt frá, að því fje, sem gengur til slíks skóla, sje á glæ kastað. Jeg þykist ekki gera lítið úr ýmsri annari mentun æskulýðsins, þótt jeg segi, að betur sje því fje varið, sem gengur til góðs húsmæðraskóla, en til annarar mentunar æskulýðsins. Þá álít jeg og sjerstaka ástæðu fyrir okkur að gefa þessari húsmæðrafræðslu meiri gaum en alment hefir verið. En hún er sú, að svo mikið los er víða á heimilunum, að lítil tækifæri eru þar til þess að þroskast í ýmsu því, sem hverri einustu ungri húsmóður er nauðsynlegt að kunna. Ber ef til vill meira á þessu við sjávarsíðuna en til sveita, en fólksfæð á sveitaheimilunum mun einnig í þessu efni hafa sín áhrif.

Í þetta skifti hefir kvenfjelagið Ósk leigt sjer gott húsnæði og vandað í alla staði fyrir skóla sinn, og með heimavistum fyrir námsmeyjarnar. Forstöðukonan hefir alment álit fyrir að vera mjög hæf til starfa síns, og vandað er til allrar kenslu þar. En til þess að skóli þessi geti orðið öllum almenningi að sem mestum notum, verða skólagjöldin að vera lág, og til þess er ríkissjóðsstyrkurinn nauðsynlegur. Og þó að brtt. mín fari fram á að hækka styrkinn um 1000 kr. frá því, sem hv. fjvn. leggur til, þá þarf enginn að efast um, að þeim peningum verði vel varið. Fel jeg svo rjettsýni hv. þdm. þessa litlu brtt. mína.

Þá kem jeg að hinni brtt., sem er sú XVI. í röðinni á sama þskj. Hún er nú gamall kunningi hjer í hv. deild — var hjer á ferðinni í fyrra — og hljóðar um 60 þús. kr. styrk til Ísafjarðarkaupstaðar, og er upphæð þessi miðuð við 1/4 þess verðs, sem hafskipabryggja bæjarins hefir kostað.

Bryggja þessi var bygð á síðasta ári og fullgerð núna fyrir áramótin. Er hún vönduð í alla staði og bygð samkvæmt hafnarlögunum. Stjórnin hefir samþykt kaup bæjarins á Tangseignunum svo kölluðum, og eins og jeg skýrði frá í fyrra varð því ekki frestað að byrja á bryggjusmíðinni, því að ella varð bærinn að greiða 1000 kr. í sekt á mánuði, ef bryggjan var ekki fullgerð þann 1. jan. þ. á. Krabbe verkfræðingur hafði yfirumsjón með verkinu, svo að það ætti að vera nokkur trygging fyrir því, að það sje vel af hendi leyst.

Annars lít jeg svo á, að ekki sje nema tímaspursmál, hvenær Ísafjarðarkaupstaður fái þennan styrk, því að samkvæmt lögunum frá 1922 hlýtur hann að fá styrkinn fyr eða síðar. Jeg drep á þetta vegna þess, að bærinn verður að greiða ríkissjóði hallærislán frá stríðsárunum, er meira nemur en þetta. Þegar þessa er sjerstaklega gætt, þá ætti á sama að standa fyrir ríkissjóð, hvort hann greiddi styrkinn nú eða síðar, en skemtilegra fyrir Ísafjarðarkaupstað að fá hann sem fyrst, svo að hann geti grynt á skuldum sínum. Annars væri einfaldast, ef styrkur þessi yrði samþyktur, að setja inn tekjumegin samsvarandi upphæð, sem þá dregst frá skuld bæjarins við ríkissjóð.

En um þetta þykist jeg ekki þurfa að orðlengja frekar, og læt því máli mínu lokið í bráð.