26.03.1926
Efri deild: 38. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

55. mál, framlag til kæliskápakaupa o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Jeg get ekki verið alveg samdóma hv. 3. landsk. (JJ) um það, að þetta skip sje það hentugasta, sem Eimskipafjelagið hefði getað eignast, og ekki heldur um það, að því sjeu svo lokuð öll sund, að það hefði ekki getað eignast skip án þess að fara þá leið, sem till. fer fram á. Það er kunnugt, að skipið, sem hjer um ræðir, er á stærð við Goðafoss, og Goðafoss rúmar 1600 smálestir, en nýja kæliskipið getur ekki tekið nema 1350 smálestir. Með öðrum orðum, það munar 250 smálestum. Og þó eru þau jafnstór og líklega jafndýr í rekstri. Mismunurinn liggur í ákaflega miklum vjelaútbúnaði, einangrunarleiðslum og öðru, sem kæliskip þarf sjerstaklega. Það sýnist þess vegna ljóst, að væri skipið laust við þetta, hefði það þeim mun meira rúm fyrir varning og þeim mun meiri farmgjöld í hverri ferð. Um þetta þarf ekki að eyða orðum.

Jeg þarf ekki að svara ýmsum atriðum í ræðu hv. 3. landsk. Við erum að mörgu leyti sammála um þetta mál. Hann hefir einmitt haldið nú þá ræðu, sem jeg hefði óskað, að hann hefði haldið við 2. umr. Þá hefði jeg aldrei þurft að taka til máls nú.

Jeg hefi aldrei minst á það, að jeg skoðaði bændur í neinni þakkarskuld við nokkur sjerstök kjördæmi, frekar í þessu máli en öðrum, og datt mjer ekki í hug að nefna mitt kjördæmi í því sambandi. Alt tal hv. 3. landsk., sem bygðist á því, að hann hjelt, að jeg hefði sagt eitthvað í þessa átt, er því út í bláinn og ályktanir hans vitanlega þar af leiðandi rakalausar. Jeg hefi, sjerstaklega síðan áreksturinn varð á markaðinum í Noregi með kjötið, sjeð svo mikla nauðsyn á því, — og svo mun vera um flesta, — að markaðurinn sje ekki bundinn við þetta eina land. Og jeg fyrir mitt leyti hefi trú á, að það muni geta tekist í framtíðinni.

Tilraunirnar, sem gerðar hafa verið — og vitnað var í — voru ákaflega veigalitlar, nema tilraunin á síðastliðnu ári. Ef fara ætti eftir því, hvernig sú tilraun tókst, þá myndu vonir manna dvína nokkuð, því að hún var síst af öllu líkleg til að vekja áhuga manna og von um, að þetta geti tekist. En það má í mínum augum ekki binda sig við það, að ein tilraun tekst eða mistekst. Mistökin nú lágu aðeins í mistökum heima fyrir. Fyrirtækinu, var ekki vel stjórnað af þeim aðiljum, sem hlut áttu að máli. (JJ: Skýring æskileg). Skýringin er sú, að það lá fyrir áður þingi var slitið í fyrra tilboð um leiguskip til þess að framkvæma þessa tilraun Og það var líka vitanlegt öllum, sem fylgdust með málinu, að hæfur maður var búinn til að útbúa kælivjelarnar í því skipi áður en það færi til Íslands, svo að það gæti komið algerlega tilbúið að flytja þennan varning. Þessu tilboði var ekki tekið. Málið dróst á langinn. Síðar meir er skip leigt, og kemur það til landsins ótilbúið í þessu tilliti. En það er langtum athugaverðara heldur en ef skip kæmi ótilbúið (þ. e. óklætt innan með borðum og striga) til að taka aðra vöru, t. d. saltfisk; það er svo áríðandi, að kæliútbúnaðurinn sje í lagi. Það urðu þess vegna miklar tafir að þessu. Skipið mun hafa legið í Reykjavík og eitthvað verið dyttað að kæliútbúnaðinum. Svo lá það lengi í höfn á Norðurlandi, jeg hygg Akureyri, og þar var ennþá verið að bjástra við það á ófullkominn hátt. Fram hjá öllu þessu hefði mátt komast, ef fyrirhyggja hefði verið meiri og hugsað hefði verið í byrjun fyrir því, að skipið kæmi hingað tilbúið að taka farm. Allar þessar tafir hafa kostað stórfje. Og það er mikið efamál, hvort einmitt það, að vjelaútbúnaðurinn til kælingar var í ólagi, var ekki orsök þess, að farmurinn kom í miður góðu ásigkomulagi fram þegar til Englands kom.

Þetta verða menn að athuga. Menn segja nú sem svo: Það var gerð ítarleg tilraun í fyrra, með ríkissjóðinn að bakhjarli, en hún mistókst. Maður má alla ekki missa trú á hugmyndina, þótt ein tilraun að einhverju leyti mishepnist fyrir ónóga aðgæslu, eina og jeg nú hefi lýst.

Jeg hefi sjeð í útlendum höfnum í fleiri skifti, þegar þessi vara var færð í land úr skipum Eimskipafjelagsins, og glaðst yfir að sjá, hvað alt var snyrtilega um gengið og í fallegu ásigkomnlagi. Og trú mín á því, að þessi vara eigi eftir að vinna sjer álit einmitt hjá Bretum, hún hefir styrkst við það, sem jeg hefi verið sjónarvottur að ytra. Jeg hefi sjeð, að ef rjett er að farið, getur þessi góða fæðutegund komið fram í svo góðu og útgengilegu ásigkomulagi, að jeg fyrir mitt leyti er langt frá því að halda, að þetta geti ekki vel tekist og með tímanum verði meiri hlutinn af kjötinu selt kælt eða frosið.

Það getur sjálfsagt fremur undir öðrum kringumstæðum orðið ástaða fyrir okkur hv. 3. landsk. (JJ) að tala um möguleikana á þennan hátt á útvíkkun markaðs fyrir aðrar afurðir landsins. En mjer þykir vænt um að heyra hann lýsa yfir því, að hann er jafnfús á að styðja tilraunir sem þessa fyrir sjávarútveginn, ef gerðar verða.

Það eru svo margir vegir til, að mönnum kemur ekki altaf saman um, hvern eigi að fara til þess að opna nýjan markað fyrir afurðir landsins. Og þótt jafnvel tveir vilji í raun og veru láta framkvæma það sama, þá geta menn ákaflega mikið um það deilt, hvaða leið fara skuli. En jeg get sagt það strax eins og það er, af því að hv. þm. mintist á Suður-Ameríkumarkaðinn, að mín skoðun er sú, að það þurfi að hefjast handa og reyna að koma þar inn einhverju af íslenskum fiski. Þótt hv. þm. vitni í, hvað Pjetur Ólafsson, sem einu sinni var sendur suður í lönd, segir um það, og hvað hann álasar útflytjendum hjer fyrir framkvæmdaleysi í því máli, þá finst mjer það ekki svo mikið til að byggja á. Jeg hefi altaf verið þeirrar skoðunar, að slíkar skyndiferðir og hann fór, og sumir aðrir hafa farið, geti ekki borið tryggan árangur. Niðurstaðan af slíkum fljótaferðum er vanalega yfirborðsskoðun, enda er það afarerfitt að gera sjer þá hugmynd, sem maður getur haft ástæðu til að halda, að sje nærri sanni, um þær rjettu markaðshorfur, þó maður hafi fyrir framan sig skýrslu eins og þá, er hr. Pjetur Ólafsson gaf eftir ferð sína.

Málið horfir alt öðruvísi við, ef þeir, sem tilraunir gera, hafa það trygt frá ríkinu, að þeir skuli allajafna fara skaðlaust út úr þeim. Væri um að koma því í framkvæmd, þá held jeg þeir myndu verða færri en nú eru, sem Pjetur Ólafsson og aðrir gætu ásakað fyrir framtaksleysi í því máli.