28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

99. mál, vörutollur

Þorleifur Jónsson:

Jeg á brtt. á þskj. 443, sem fer fram á, að vatnsvirkjunar- og rafmagnsvjelar verði settar í 2. flokk þessara laga. Á undanförnum árum hafa margir lögreglustjórar litið svo á, að þessar vörur ættu að tollast eftir 7. flokki, sem er hæsti tollflokkurinn; og er það alt of þungur skattur og ósanngjarn, sem þannig er lagður á þessar vörur. Nú hagar víða svo til, að auðvelt er að koma á vatnsvirkjunum til sveita, og þar er því allvíða vaknaður talsverður áhugi fyrir því að koma upp rafmagnsvirkjunum til heimilisnotkunar, og jeg tel einmitt þetta vera eitt hið mesta framfaramál fyrir þær sveitir, þar sem þessu verður komið við. Þess vegna álít jeg, að ekki megi leggja neinar óþarfahömlur á þessar framkvæmdir nje gera þær erfiðari með því að íþyngja mönnum með alt of háum tollum á þeim vörum, sem þarf til þessa. Þessar vjelar, sem brtt. fjallar um, eru alveg hliðstæðar vjelum þeim (mótorum), sem nú eru í 2. flokki, og er þetta mál því öllum svo auðsætt, að jeg tel óþarft að fara fleiri orðum um þetta, en vænti þess fastlega, að þessi brtt. mín verði samþykt.

Jeg hafði ekki hugsað mjer að koma með breytingartillögu um það, að rafmagnshitunarvjelar og rafmagnseldavjelar væru einnig settar í þennan sama (2.) flokk, en eftir viðtali, sem jeg hefi átt við hæstv. fjrh. (JÞ), tel jeg óþarft að láta verða úr því, þar eð hæstv. fjrh. telur sjálfsagt, að þau áhöld öll eigi að teljast undir 2. lið vörutollslaganna.

Jeg skal geta þess, að brtt. er ekki sem greinilegast orðuð, en þó ætti þetta ekki að þurfa að valda misskilningi; brtt. á við 2. málagr. 1. gr. frv.