28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1455 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

99. mál, vörutollur

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð út af ummælum hæstv. fjrh. Mjer dettur ekki í hug að efast um, að sú skýrsla, sem hann vitnaði í, sje rjett hermd af honum. Jeg tek það alveg trúanlegt, en engu að síður raskar það ekki því, sem jeg hefi sagt um aðstöðu atvinnuveganna í þessu landi. Því miður mun það nú vera þannig, að við erum ekki orðnir samkepnisfærir, samanborið við aðrar þjóðir. Vegna til gífurlega tilkostnaðar hjá okkur, geta erlendar þjóðir selt afurðir sínar fyrir minna verð en við getum. Þetta mun vera hinn sorglegi sannleikur í þessu máli. En til frekari skýringar á ummælum mínum við 1. umr. skal jeg víkja nánar að því, hvernig verðlagið er á helstu landbúnaðarafurðum, samanborið við það, sem var fyrir stríð, og að helsta tilkostnaðinum. Jeg miða við verðlag að hausti til og telsts svo til, að kjöt hafi hækkað um 233%. Jeg ábyrgist ekki, að þetta sje rjett upp á eyri, því að jeg man ekki upp á eyri verð á kjötpundinu fyrir stríð, en jeg miða bara við 1. flokks kjöt. Smjörverðið hefir hækkað um hjer um bil 125%. Þessi tala er ekki alveg nákvæm, því að verðlag yfirleitt á þeirri vörutegund er mjög mismunandi, bæði fyr og nú, og kann hún að eiga að vera nokkru hærri. Þó er skekkjan ekki svo mikil, að það skifti nokkru máli. Ullarverð er litlu hærra nú heldur en fyrir stríð. Jeg veit ekki hvort búið er að gera upp þá reikninga fyrir síðastliðið ár og treysti mjer því ekki til að segja nákvæmlega, hve miklu hækkunin nemur: en það er afarlítið.

Þetta eru helstu framleiðsluvörur bænda, og sje tekið meðaltal af þeim, sem að vísu er ekki beinlínis rjettur mælikvarði, er það langt fyrir neðan það verðlag, sem hæstv. fjrh. nefndi, jeg hugsa, að hagstofan hafi miðað við verðlag nú eftir áramót, en það getur ekki staðist til samanburðar við það, sem var fyrir stríð. Vitaskuld má kjötverðið sín mest í inntektum bænda, og þar næst ullarverðið. Smjörframleiðslan nemur sjaldnast nokkru verulegu. Ef til vill er í þessum útreikningi hagstofunnar innifalin húsavinna. (Fjrh. JÞ: Nei, þá er jeg þess fullviss, að miðað er við verðlag eftir áramót, en kjötverð er þá miklu hærra en að haustinu til, og kemur ekki bændunum við.

Þá ætla jeg að drepa á tilkostnaðinn hjá bændum, og er þá fyrst að minnast á verkalaunin. Fyrir stríð voru víðast hvar árshjú. Það er svo á nokkrum stöðum enn, en þá er oftast um að ræða venslahjú eða þá gamalt fólk. Víðast hvar er því ekki nema um kaupafólk að ræða, og þau skifti eru þungar búsifjar fyrir bændurna, því að vinnan er nú margfalt dýrari en áður var. Að minsta kosti um sláttinn er kaupið 330% hærra en það var fyrir stríð. Þetta atriði snertir auðvitað miklu meira fólk til sveita en við sjóinn. Jeg get ekki sjeð, að þetta geti staðið til langframa. Tilkostnaðurinn hlýtur að lækka. Til þess að atvinnuvegir okkar geti borið sig, er óhjákvæmilegt, að tilkostnaðurinn lækki innanlands. Það er svo í flestum kauptúnum landsins, að mjög er dýrt að lifa, svo að verkafólk þarf að fá mikið kaup. Þetta á þó einkum við um húsaleiguna. Hún er óhæfilega há, einkum hjer í Reykjavík, og sýnist hafa ætlað að sliga atvinnuvegina bæði til lands og sjávar, og áhrif Reykjavíkur í þessu efni verka á land alt.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Jeg hefði við 1. umr. gjarnan kosið, að þannig væri ástatt, að ekki hefði þurft að koma fram þessi tillaga. En það eru svo ríkar ástæður til þess að veita skattaívilnun, að það er ekki hægt að vera á móti því. Helst hefði jeg samt kosið að meiga greiða atkvæði gegn tillögunni, til að sjá fjárhag ríkisins borgið og hafa næg fje til nauðsynlegra framkvæmda, en svo mikilvægt sem það er að sjá á hverjum tíma fjárhag landsins borgið, er þó enn þýðingarmeira, að gert sje það, sem hægt er, til þess að atvinnuvegir landsins geti þrifist, og fyrir þá sök eina greiði jeg atkvæði með tillögunni.