10.04.1926
Neðri deild: 50. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

1. mál, fjárlög 1927

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg skal fyrst lýsa yfir því fyrir hönd fjhn., að tvær brtt. á þskj. 297, nr. 30 og 36, eru teknar aftur, þar sem fallin er tilsvarandi till. við fyrri kafla fjárlaganna.

Þá er mjer falið af mentmn. að tala fyrir IV. brtt. á þskj. 304, uppbótinni til stundakennaranna Önnu Bjarnadóttur og Einars Magnússonar. Þessi fjárhæð er miðuð við það, að þau hafi sömu laun yfir sumarmánuðina og vetrarmánuðina. Það er sanngjörn krafa. Þau hafa sótt um að fá sömu laun sem fastir kennarar, en nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að ganga svo langt, enda hefir fjhn., sem það heyrir frekar undir, lýst sig andstæða opnun launalaganna. Þessari umsókn fylgja bestu meðmæli frá rektor skólans. Jeg þykist vita, að hv. deildarmenn muni vera þessu máli hlyntir, a. m. k. þeir, sem ætla sjer að fylgja frv. því um lærðan skóla, sem hjer er á ferðinni, þar sem gert er ráð fyrir því, að allir kennarar skólans verði fastir kennarar, og njóti þá betri kjara en hjer er farið fram á. Hjer er aðeins að ræða um lítið brot af þeirri stefnu, og ætti því till. að fá góðan byr.

Þá skal jeg minnast á þrjár till. á þskj. 297, sem jeg ber fram. Fyrst er 28. brtt., um 1200 kr. styrk til Markúsar Kristjánssonar til háskólanáms erlendis. Samkvæmt lögum, er samþykt voru á síðasta þingi, geta þeir einir fengið styrk til náms erlendis, sem tekið hafa stúdentspróf hjer heima. En þetta var glapræði, að afskifta íslenska námsmenn, sem hafa tekið stúdentspróf erlendis, ef þeir ætla sjer starf hjer heima. Hjer var því um tvær leiðir að ræða, annaðhvort bera fram lagabreytingu eða styrkbeiðni. Jeg hefi valið hina síðari leið, því að það mun sjaldgæft, að Íslendingar taki stúdentspróf erlendis, og því ekki eins mikil þörf lagabreytingarinnar. Markús Kristjánsson er duglegur, skyldurækinn og reglusamur maður og hefir hin bestu meðmæli frá kennurum sínum. Hann stundar háskólanám í hljómlist í Leipzig og er eini Íslendingurinn, er háskólanám hefir stundað í þeirri grein. Jeg vænti þess, að hann verði látinn njóta jafnrjettis við aðra stúdenta og gjaldi þess ekki, að hann hefir tekið stúdentspróf erlendis.

Þá er 33. brtt. á sama þskj., um 1600 króna utanfararstyrk til Helga Hjörvars. Hann hefir í hyggju að kynna sjer byrjendakenslu í lestri, og er síst vanþörf á því. Auk þess mun hann og kynna sjer flokkun barna og myndasýningar í skólum. Jeg hirði ekki um að nefna fleira, en hygg, að hann muni ekkert mannlegt álíta sjer óviðkomandi í utanför sinni, ef honum verður styrkur veittur. Jeg vil aðeins bæta því við, að auk þess sem Helgi Hjörvar er ágætur kennari, er hann og hinn snjallasti rithöfundur, svo sem hann hefir sýnt á síðastliðnu ári, og ætti það að vera ærið nóg ástæða til styrkveitingarinnar.

Þá er 58. brtt., um 1500 kr. styrk til Guðmundar Guðjónssonar til lokanáms í húsgerðarlist. Þessi tillaga er svipaðs eðlis og till. um Markús Kristjánsson. Það vantar í fjárlögin almenna styrkveitingu, hliðstæða stúdentastyrknum, er gangi til þessa nauðsynjanáms. Till. um lögboðna fjárhæð í þeim tilgangi var feld í Ed. í fyrra, og því er þessi till. fram borin. Guðmundur er duglegur og efnilegur maður, hefir stundað nám lengi, á eitt ár eftir, en er þrotinn að námsfje. En þessi styrkur mun hrökkva langt til að hjálpa honum.

Þá vil jeg að lokum minnast á till., sem fjvn. flytur á þskj. 297,34, um 3500 kr. styrk til umbóta á skólahúsinu á Núpi í Dýrafirði. Jeg vil þakka hv. nefnd fyrir að taka upp till. þessa og vona, að fylgi hennar hrökkvi til, að hún verði samþykt. Deildin ætti að kunna að meta hið ágæta. starf sjera Sigtryggs. Þetta er í fyrsta sinn, sem styrkur er veittur skólanum til húsabóta, en hann hefir lagt öll sín kennaralaun til skólans, en þau hrökkva ekki til lengur, vegna væntanlegrar mikillar aðsóknar nú þegar skólinn hefir aftur tekið til starfa, því að skólinn nýtur mikilla vinsælda og kennarar ástar og virðingar nemendanna. Jeg vænti því, að hv. deild samþykki þessa till.