20.03.1926
Efri deild: 33. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Frsm. (Eggert Pálsson):

Vegna þess að þetta er 2. umr., verð jeg að segja nokkur orð um málið til viðbótar því, sem í nál. stendur.

Eins og greinargerð frv. ber með sjer. er það komið frá hv. landbn. Nd. að tilhlutun dýralæknis og tilgangur þess er að gera yfirgripsmeira en áður bann um innflutning á ýmsum húsdýrum og fleiru, sem húsdýrum vorum getur stafað sýkingarhætta af. Lög um innflutningsbann á dýrum eru frá 1905 og í þeim er bannað að flytja inn sauðfje, nautgripi, hesta, svín og geitur. Og með viðauka frá 1909 er einnig bætt við hundum.

Dýralækni hefir nú sýnst nauðsyn á því, að bannaður sje innflutningur á nokkrum dýrum og ýmsum hlutum, er sóttnæmi getur borist með. Í frv. er gert ráð fyrir, að bannað sje að flytja inn spendýr og fugla. Sumum kann nú að virðast, að óþarfi sje að banna innflutning á fuglum, og hefir því landbn. átt tal um það atriði sjerstaklega við dýralækni. Dýralæknir taldi, að fuglar gætu borið með sjer sóttnæmi, eigi aðeins fyrir sömu fuglategund, heldur einnig fyrir aðrar fuglategundir, og ef til vill ýms húsdýr, og jafnvel menn, svo sem berklabakteríuna. Í lögum annara þjóða er það líka alstaðar bannað að flytja inn fugla, og fyrir þessar sakir fann nefndin ekki ástæðu til þess að hrófla við þessu ákvæði.

Í háttv. Nd. mætti það nokkurri mótspyrnu, að bannaður skyldi innflutningur á hálmi og kom þar fram brtt. um að fella niður það ákvæði frv. En sú brtt. náði ekki samþykki hv. deildar. og þess vegna þótti nefndinni ekki ástæða til þess að koma nú fram með brtt. í sömu átt hjer í þessari hv. deild. Og um hálminn má það segja, að af honum getur stafað sýkingarhætta; það dylst engum. Því að skepnum hættir til að leggja sjer hann til munns. Annars fær nefndin ekki betur sjeð en að nota megi annað en hálm til umbúða, þegar banna þarf innflutning á honum, svo sem fína hefilspæni, sem engin hætta er á, að geti orðið nokkurri skepnu að grandi.

Nefndin vill því láta frv. fara óbreytt frá sjer að þessu leyti, en hún hefir þó komið með tvær brtt. við frv. Fyrri tillagan snertir bannið á mjólk. Fanst nefndinni það dálítið kynlegt að banna skilyrðislaust innflutning á mjólk, þar eð eigi varð þá annað ráðið af frv. en að banna ætti líka innflutning á niðursoðinni mjólk. En það var og er ekki tilgangurinn, því að í niðursoðinni mjólk er engin sýkingarhætta fólgin. Þetta vildi nefndin, að kæmi skýrt fram í sjálfum lögunum, og þess vegna vill hún bæta inn í frv., að átt sje aðeins við „ósoðna“ mjólk.

Nefndin átti tal um þetta atriði við dýralækni. Fjellst hann á það að skjóta orðinu „ósoðinni“ inn á undan orðinu „mjólk“. En að banna eða geta bannað innflutning á ósoðinni mjólk taldi hann fulla nauðsyn. Kvað hann eigi loku fyrir það skotið, að ósoðin mjólk færi að flytjast hingað frá útlöndum, þegar samgöngur yrðu greiðari. Nú er t. d. flutt ósoðin mjólk, utan af landi til Reykjavíkur með Esju, og er engu ólíklegra, að hægt sje að flytja slíka mjólk bæði frá Noregi og Danmörku með hraðferðaskipum. Því þykir rjett að slá þann varnagla, að hægt sje að hefta slíkan innflutning, ef hætta sýnist geta af honum stafað.

Hin brtt. nefndarinnar snertir form frv. Það stóð upphaflega í því, að atvinnumálaráðherra væri „heimilt“ að banna innflutning samkv. frv. Þessu orði var síðan breytt í „skylt“, en það er ekki í samræmi við venjuleg ákvæði í lögum, því að ef ráðuneytinu er skylt að fara eftir fyrirmælum dýralæknis, þá er ráðuneytið þar með beinlínis sett undir dýralækninn. Nefndin vill því færa frv. í sinn fyrra búning um þetta atriði, en það breytir engu um efni frv., því að sjálfsögðu verður farið eftir ráðum og tillögum dýralæknis, hvort orðið sem notað verður í frv.