15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

42. mál, innflutningsbann á dýrum o. fl

Jón Auðunn Jónsson:

Það sýnir sanngirni hæstv. forseta, er hann telur að Norður-Ísfirðingar eigi að hafa þrjá fulltrúa á þingi, og jeg sæti eftir atvikum verið ánægður með að vera 3. þm. Norður-Ísfirðinga, eins og hann nefndi mig. Í raun og veru ætti Norður-Ísafjarðarsýsla að hafa 3 þm. eftir fólksfjölda, en jeg skal ekki fara út í það nú. Ef til vill gefst tækifæri til þess síðar.

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, fer í þá átt að koma í veg fyrir, að sjúkdómshætta á húsdýrum berist hjer til lands. En nú er rætt um það að banna innflutning á heyi, og það jafnvel frá þeim löndum, sem laus eru við þennan sjúkdóm, munn- og klaufnasýki, eins og Noregi. Þar hefir þessi sjúkdómur aldrei verið og lítil hætta á, að hann berist þangað, vegna sterkra varna. Það mun því vera meining hv. flm. með brtt. að styðja að því, að íslenska heyið verði notað. Jeg álít nú, að þetta mundi ekki verða til neinna happa fyrir hinn íslenska landbúnað. Hv. flm. hafa talað um þær miklu búnaðarframfarir, sem væru fyrir dyrum. Jeg bjóst ekki við, að þeir, sem berjast fyrir aukinni ræktun og öðrum framförum í búnaði, óskuðu þess, að aukinn heyfengur yrði notaður til heysölu, en hitt vanrækt, að auka bústofninn. Það þarf enginn að halda það, að það verði ótæmandi markaður í kaupstöðunum fyrir hey, og því óforsjálni að byggja aukna ræktun í sveitum á heysölu þangað. Jeg er á þeirri skoðun, að ef horfið væri að því ráði að banna innflutning á heyi, mundi verð á íslensku heyi hækka, og margir fátækari menn í kaupstöðum, sem hafa skepnur, mundu neyðast til að hætta því, og markaðurinn því ekki aukast, heldur minka. Jeg hefi líklega meiri reynslu en aðrir hv. þdm. í kaupum á heyi, þar sem jeg hefi um 8 ára skeið haft 5–6 kýr og 2 hesta og keypt alt heyið handa þessum gripum. Menn tala um efnarannsóknir, og jeg hefi ekki á móti því, að þær geti verið rjettar. En er tekið tillit til úrgangsins í þessum rannsóknum? Í íslensku heyi, sjerstaklega töðu, er mikið af úrgangi, en í norska heyinu getur maður varla talað um úrgang. Það þarf enginn að segja mjer, að norska heyið sje ekki eins gott til fóðurs og íslenskt úthey, en að sjálfsögðu þarf fóðurbæti með útlenda heyinu. Við notum áreiðanlega of lítið af fóðurbæti. Það er sennilegt, að við töpum ekki litlu af nytinni úr kúm okkar fyrir óheppilega fóðurblöndun. Hv. þm. Str. sagði, að útlitið blekti menn og ilmurinn úr norska heyinu og það ætist vel. Jeg segi nú fyrir mig, að jeg vil heldur kaupa útlent hey, sem jest vel, heldur en íslenskt, illa verkað hey, sem ekki jest nema helmingur eða í mesta lagi 2/3 hlutar af. Jeg hefi heyrt marga bændur segja, að þeir hafi haft nóg hey, en skepnurnar hafi þó orðið magrar, af því að heyin voru illa verkuð. Jeg held, að rjettast væri að láta sitja við það, sem nú er með heyinnflutninginn. Jeg játa það, að með góðri verkun og sæmilegri nýtingu er íslenska taðan betri en útlent hey. En það getur komið fyrir í heilum hjeruðum, að hey verkist illa — og hvers vegna ætti þá að neyða t. d. fátæka menn í kaupstöðum, sem hafa eina belju eða nokkrar geitur, til þess að kaupa skemt hey? Jeg álít, að það sje ekki rjett að hvetja bændur til þess að selja meira af heyi en þeir hafa gert. Það hefir oftast verið heldur vöntun á heyi í þessu landi heldur en of mikið. Eins og kunnugt er, var sumarið 1925 eitthvert allra besta sprettu- og heyskaparsuma, sem komið hefir í manna minnum. Slík ár eiga bændur að nota til að komast undir fyrningar. en ekki til þess að gerast heykaupmenn. Íslenskur búskapur er þá fyrst í góðu lagi, þegar bændur hafa safnað sjer nægilegum fyrningum. Það er viðurkent, að þeir bændur, sem altaf hafa nóg hey og fóðra skepnur sínar vel, verða altaf bjargálnamenn og komast hjá vandræðum. Og jeg held, að við ættum ekki að gera neitt til að breyta þeirri reynslu, sem fengin er eftir mörg hundruð ára búskap á þessu landi.