08.04.1926
Neðri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

93. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Eins og greinargerð frv. ber með sjer, þá hefir allshn. flutt frv. þetta eftir beiðni hæstv. atvrh. (MG), og ástæðan fyrir þessum breytingum á lögunum er tekin fram skýrum orðum í greinargerðinni, svo jeg læt mjer nægja að vísa til hennar.

En jeg vil í þessu sambandi beina því til hæstv. ráðherra, að vegna þess að mjer er kunnugt um, að skipulagsnefndin hefir ennþá marga uppdrætti kauptúna í smíðum, en sækist seint að ljúka þeim, sem eflaust mun því að kenna, að þingið hefir verið spart á fje í þessu efni, og mennirnir, sem í nefndina hafa verið skipaðir, hlaðnir störfum, — já, jeg vildi leyfa mjer að skjóta því til hæstv. atvrh., hvort ekki mundi rjettara að fullgera skipulagsuppdrætti þeirra kauptúna og sjávarþorpa, sem þegar er búið að mæla og rannsaka, áður en farið sje að byrja á nýjum mælingum. Það hefir orðið sá dráttur á framkvæmdum þessum hjá skipulagsnefndinni, að jeg verð að álíta, að heppilegra væri; að þeim uppdráttum, sem byrjað er á, yrði lokið sem fyrst, en hefja ekki nýjar mælingar á meðan á því stendur.