05.03.1926
Neðri deild: 23. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

48. mál, líkhús

Flm. (Magnús Jónsson):

Þetta mál er að öllu leyti lítið mál að lengd og efni, og get jeg þess vegna verið fáorður. Það er bent á það sjerstaklega í brjefi sóknarnefndanna, sem prentað er í greinargerð frv. á þskj. 85, að aðalástæðan fyrir því, að málið sje tekið upp á þessum grundvelli, sje sú, að líkhúsið í kirkjugarðinum hjer í Reykjavík sje svo gamalt orðið og hrörlegt, að það geti ekki hangið lengur uppi. Hinsvegar er því haldið fram, að Reykjavíkurbær geti á engan hátt verið án þess að eiga líkhús eða kapellu í kirkjugarðinum. Nú hafa ýmsir menn haldið því fram, að líkhús þetta eða kapellu gætu söfnuðirnir látið reisa og jafnað síðan niður kostnaðinum samhliða lögboðnum kirkjugjöldum. En aðrir hafa efast um, að slíkt væri hægt lögum samkvæmt, og þess vegna er það, að óskað hefir verið eftir ótvíræðri lagasetningu um það.

Hið eina, sem fundist hefir í lögum eða reglugerðum um líkhús, er klausa sú, sem stendur í 1. gr. reglugerðar um kirkju garða frá 16. ágúst 1906 og prentuð er í brjefi sóknarnefndanna á þskj. 85. Þar er sagt, að í grafreitum, sem sjeu töluvert langt frá kirkju. skuli vera líkhús, eða að minsta kosti klukka sæmileg, með útbúnaði til að hringja.

Að vísu verður ekki sagt, að grafreitur Reykjavíkurbæjar sje langt undan, en hitt hefir reynslan sýnt, að óhjákvæmilegt sje að hafa þar líkhús, enda almenn ósk safnaðanna, að svo verði. Það eru líka ýmsir, sem líta svo á, að gott væri, að hingað færðist sá erlendi siður, sem tíðkast í stórborgunum, að jarðarfarir fari fram frá líkhúsum eða kapellum án þess að opna hinar stóru kirkjur. Með því móti fara jarðarfarir meira fram í kyrþey, og losna þá margir með því við óþarfa kostnað og fyrirhöfn við það.

Jeg er ekki svo kunnugur þessum málum úti um land, en þó veit jeg um tvo söfnuði, sem nýlega hafa komið sjer upp skipulegum grafreitum allfjarri kirkjunum, en það er í Stykkishólmi og Hafnarfirði. Eftir því, sem jeg veit best, væri söfnuðum þessum full þörf á að koma sjer upp líkhúsi í grafreitunum, og kemur þeim þá vel, að til sje lagaheimild, sem skipi fyrir um, hvernig skuli fara með kostnað þann, er af byggingunni leiðir, og um rekstur húsanna að öðru leyti.

Fleira þykist jeg ekki þurfa að nefna, en geri það að till. minni, að málinu verði vísað, að þessari umr. lokinni, til allshn.