29.04.1926
Efri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

78. mál, notkun bifreiða

Frsm. (Ágúst Helgason):

Það eru tvö aðalatriði í frv. þessu. Annað er það, að koma í veg fyrir slys af bifreiðarakstri, en hitt er að tryggja með fjárframlögum þá, sem verða fyrir slysum af bifreiðum.

Nefndin leit svo á, að frekari áherslu beri að leggja á fyrra atriðið og herða á þeim ákvæðum laganna, sem miða að því að afstýra slysum. Á síðari árum hefir það alt of mikið tíðkast, að ölvaðir menn hafa stýrt bifreiðum, og liggur í augum uppi, hver hætta getur af því stafað, ekki aðeins fyrir þá, sem í bifreiðunum ferðast, heldur og einnig þá, sem um veginn fara. Nefndin vill láta varða rjettindamissi, ef sannast, að bifreiðarstjóri ekur undir áhrifum víns, en sje slíkt brot ítrekað, skuli hann missa ökuskírteini sitt með öllu, og þar með rjettinn til að stýra bifreið framar. Það skal að vísu játað að bifreiðarslys af völdum víns munu, sem betur fer, vera fá ennþá, en nefndin vill ekki bíða eftir meiri slysum, heldur byrgja brunninn áður en barnið er dottið í hann, og svifta ökumann rjetti til að stýra bifreið jafnskjótt og hann gerist sekur um vínneyslu.

Um síðara atriðið er það að segja, að nefndinni fanst tryggingarskilyrðin of ströng eins og þau eru í frv. nú. Vegamálastjóri áætlar, að sú upphæð muni nema árlega um 38 þús. kr. fyrir allar bifreiðar í landinu, og er þá auðsætt, að sá skattur mundi koma niður á landsmönnum í hækkandi flutnings- og fargjöldum. En eins og þau gjöld þykja há, virðist illa farið að stuðla að hækkun þeirra. Af þeirri reynslu, sem menn hafa um bifreiðarslys, þá virðist óþarft að hafa tryggingarkröfuna svo háa. Í þessu sambandi leggur nefndin til, að ef sami maður á margar bifreiðar, þá færist tryggingarskyldan niður þegar fyrstu bifreiðinni sleppir; sömuleiðis að bifreiðareiganda sje ekki gert að skyldu að kaupa tryggingu í tryggingarfjelagi, ef hann getur gefið jafngóða og gilda tryggingu á annan hátt.

Jeg tel óþarft að fjölyrða frekar um þetta, en læt mjer nægja að vísa til brjefs vegamálastjóra, sem prentað er aftan við nál. á þskj. 431.