28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

29. mál, almannafriður á helgidögum

Pjetur Ottesen:

Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) deildi á mig sem forseta út af því, að jeg tók ekki til greina kröfu hans um að taka þetta mál út af dagskrá. En fyrir þessari kröfu sinni færði hann ekki aðrar ástæður en þær, að hann hefði ekki athugað málið. Í sambandi við þetta vil jeg benda á það, að það eru rúmar 5 vikur síðan málið kom frá nefnd. Jeg ætla að láta hv. deildarmenn dæma um það, hvort ekki hafi verið rjettara af mjer að verða við áskorun hv. flm. um að láta málið koma fyrir heldur en taka til greina kröfu hv. 2. þm. N.-M. Eyði jeg svo ekki fleiri orðum að þessu.

Jeg á hjer brtt. á þskj. 232, sem lítillega hefir verið minst á. Hún er þess efnis að banna bifreiðaakstur í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem kirkja er, á tímabilinu frá kl. 11 f. h. til 4 e. h. Frv. þetta fer fram á að tryggja frið á þessum tíma og er því brtt. mín í fullu samræmi við efni frv. Það er bönnuð afgreiðsla skipa, og þar af leiðandi allir vöruflutningar. Þetta er höfuðbreyting frv., og er það einkum lagt til grundvallar, hvernig málum er háttað hjer í Reykjavík. Því kom mjer það kynlega fyrir sjónir, að það skuli hafa verið gengið framhjá bifreiðunum, þegar frv. þetta var samið, sem mjer virðast valda mestri truflun hjer á helgum dögum. Það gefur að skilja, hvaða áhrif það hefir, er bifreið fer framhjá kirkju, með skerandi öskri, sem smýgur í gegnum merg og bein. Það er kunnugt, að í raddfærum bifreiðanna eru saman komin öll veraldarinnar óhljóð, allar tóntegundir milli öskurs og óhljóða. Mjer fanst ekki hægt að ganga framhjá þessu, úr því að verið er að leitast við að koma á friði um messutímann, og hefi því viljað gefa hv. deild kost á að losa menn um messutímann við þennan friðarspilli helgidagsins og hneykslunarhellu trúrækinna manna.