30.04.1926
Neðri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

110. mál, sala á síld o. fl.

Ólafur Thors:

Á meðan hv. þm. Borgf. (PO) var að tala, varð háttv. frsm. (BL) að víkja sjer frá í bili, en bað mig að standa fyrir svörum, og hjet jeg því.

Raunar er það nú svo, að ræða háttv. þm. Borgf. gaf mjer ekki ástæðu til langra athugasemda að þessu sinni. Hann talaði, að mjer skildist, nokkuð á víð og dreif um málið, og virtist mjer í öðru veifinu eins og bregða fyrir, að hann mundi telja skaðlaust, þótt síldveiði legðist niður. En það er hinn mesti misskilningur og furðuleg skammsýni af svo gáfuðum manni að halda slíku fram, enda blandast mjer ekki hugur um það, að síldveiðar munu reynast mikil gullnáma, ef komið verður sæmilegu skipulagi á þennan atvinnuveg.

Mjer skildist, að þessi hv. þm. (PO) vildi, að menn hefðu það hugfast, að „sígandi lukka er best“, og þó að jeg viðurkenni sannleiksgildi þessa gamla spakmælis, vil jeg þó minna hann á það, að ekki er langt síðan þarfir ríkissjóðs voru aðeins 1/10 hluti þess, sem nú er. Og víst er um það, að eigi þjóðin að fá risið undir þeim skattabyrðum, sem nú hvíla á henni; dugir ekki að sniglast áfram, heldur verður að vera járnbrautarhraði á framþróun atvinnulífsins og framkvæmdum.

Háttv. þm. Borgf. gat þess, sem rjett er, að nauðsyn bæri til að tryggja það, að síldarframleiðslan yrði ekki of mikil. En hann vildi gera það með því að hafa stoð í lögunum til þess að stöðva veiði, ef sjerstaklega mikið berst að í einu. Þetta hefir nefndin athugað og komist að þeirri niðurstöðu, að varhugavert geti verið að fara út á slíka braut. Ekki gott að segja með vissu á meðan verið er að veiða, hvenær á að stöðva veiði, eða t. d. að banna að salta á ákveðnum degi, áður en nokkrar skýrslur liggja fyrir um veiði Norðmanna eða annara útlendinga utan landhelgi.

Nefndin hugsar sjer að hafa hemil á, að of mikið berist af íslenskri síld á erlenda markaðinn, og ef það sýnir sig að veiðinni lokinni, að of mikið hafi verið saltað, þá skuli síldin seljast í verksmiðjur innanlands til þess að fyrirbyggja, að of mikill útflutningur felli hana í verði. Jeg álít, að það gæti komið ójafnt niður við ýmsa framleiðendur, ef öllum væri gert að skyldu að hætta að salta síld á ákveðnum degi. Sumir eru hepnari fyrri hluta vertíðarinnar, en öðrum gengur betur seinni hlutann, svo að erfitt yrði að fylgja þessu í framkvæmdinni án þess af hlytist órjettlæti og óvinsældir.

Þá taldi háttv. þm. Borgf. til bóta, ef bannað væri að veiða síld fyrir 25. júlí. En það er nú stundum svo, að einmitt í byrjun vertíðarinnar er lokið við að selja framleiðslu síðasta árs, og er þá verðið á nýju síldinni oft hátt, enda þá mest kapp í útlendum mönnum að veiða utan landhelgi. Væri þá mikils virði fyrir Íslendinga að geta notið þess markaðs, en ætti nú að banna þeim að veiða fyrir 25. júlí, þá lendir aðalgróðinn hjá Norðmönnum eða öðrum þeim útlendingum, sem veiði stunda utan landhelgi.

Nefndinni var það ljóst, að margir og miklir örðugleikar eru á framkvæmdum þessa máls. Einn er sá, að ýmsum vandkvæðum er það bundið að greiða andvirði vörunnar svo snemma, að menn geti notað það fje til áframhalds atvinnurekstrarins. En það verður verkefni þeirra, sem eiga að standa fyrir fyrirtækinu, að ráða fram úr þessu, og verður það þá væntanlega gert með reglugerð, í samráði við atvinnumálaráðuneytið.

Þá fanst mjer hv. þm. Borgf. una því illa, að þeim mönnum væri gert örðugt fyrir, er fengju að láni hjá erlendum mönnum tunnur og salt, gegn því að selja þeim framleiðslu sína. En svona byrjar einmitt leppmenskan, að menn fá tunnur og salt að láni gegn því að selja samtímis ákveðinn tunnufjölda af saltaðri síld. Þegar svo Svíar vildu ekki greiða nóg og skáru við nögl sjer að borga sæmilega fyrir vöruna, breyttist þetta á þá leið, að menn sleptu áhættunni, en fengu í þess stað ákveðna krónutölu af hverri tunnu fyrir það eitt að lána nafn sitt, svo fyrirtækið væri að nafninu til rekið lögum samkvæmt. Það er því síst ástæða til að bera þessa menn svo sjerstaklega fyrir brjósti.

Þá áleit hv. þm. (PO), að misráðið væri af nefndinni að ætla þeim einum rjett til að gerast fjelagar, sem saltað hefðu síld á síðastl. ári, en vildi, að þeir nytu sama rjettar, er ætluðu að stunda þessa atvinnu á komandi ári. Nefndin hafði einmitt athugað þetta og komist að þeirri niðurstöðu, að með þessu gæti það komið fyrir, að þeir, sem segðust ætla að salta síld, settu hinum stólinn fyrir dyrnar, þó að þeir söltuðu aldrei eina einustu síld, en það taldi nefndin illa farið. Annars vil jeg benda hv. þm. á, að það er ekki mikils virði að teljast fjelagsmaður á fyrsta ári, því að rjettur meðlima er vísvitandi skertur um tvö ár.

Nefndin tók líka til athugunar ósamræmi það í 3. og 4. gr., sem hv. þm. benti á. Getur hún fallist á, að setningin í lok 4. gr. sje óþörf, og mun bera fram till. um að fella hana niður. Á þessu ósamræmi stendur svo, að 3. gr. var breytt á síðustu stundu, en gleymdist að gera tilsvarandi breytingu á 4. gr.

Þá gat hv. þm. Borgf. þess, að lög þessi væru sett fyrir síldarspekúlantana. En það er alger misskilningur. Ef þetta stýrir lukku, sem nefndin hefir borið fram, eru lögin fyrst og fremst sett til hagsmuna fyrir framleiðendurna. Ef þetta fyrirkomulag reynist það bjargráð, sem ætlast er til, þá verður það framleiðendum til meiri hagsmuna en þeim, sem kaupa nýja síld til söltunar. Síldarkaupmennirnir geta hagnast hvort heldur verðið er hátt eða lágt, en framleiðandinn á mest undir því, að verð á framleiðsluvörunni verði sem hæst og sem tryggast.

Fleira var það ekki í ræðu háttv. þm. Borgf., er jeg sje ástæðu til að svara, og sný mjer þá að háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), en nota tækifærið um leið til þess að segja ýmislegt um málið frá mínu sjónarmiði.

Háttv. frsm. hefir skýrt allítarlega frá sögulegum gangi þessa máls, svo að þá hliðina leiði jeg hjá mjer að tala um, en bendi aðeins á, að þeir hv. þdm., sem tekið hafa til máls, virðast sammála um, að ekki megi við svo búið standa um sölu síldarinnar, heldur verði nú að hefjast handa og gera þær ráðstafanir, sem tryggi fjárhagslega afkomu þessa atvinnuvegar.

En þegar hjer er komið sögunni, skilja leiðirnar. Hv. 2. þm. Reykv. vill, að ríkið taki að sjer einkasölu á síld, og flytur frv. þess efnis. Því er meiri hl. sjútvn. andvígur og ber fram annað frv., sem hjer liggur nú fyrir til umr. Hv. 2. þm. Reykv. telur sig andvígan þessu frv. meiri hl., en lætur þó annað veifið í veðri vaka, að það sje hold af hans holdi og ýmislegt í því undan hans rifjum runnið. Ef þetta væri rjett, væri þessi hv. þm. að afneita sínu eigin fóstri. Næsta mál á dagskránni er skilgetið afkvæmi hv. þm. og algerlega óskylt frv. meiri hl. Jeg þykist vita, að háttv. 2. þm. Reykv. muni skilja þann stefnumun, sem kemur fram í þessum tveimur frv., þar sem annarsvegar er að ræða um ríkiseinkasölu, en um samtök atvinnurekenda hinsvegar. Jeg tel óþarft að benda á alla þá galla, sem eru ríkiseinkasölu fylgjandi, en vil þó benda á einn, sem jeg tel vera höfuðgalla við það fyrirkomulag, sem sje þann, að ríkisvaldið ræður framkvæmdarstjóra og aðra starfsmenn, en það er undir vali þessara manna komið, hvernig fer um afkomu ríkiseinkasölu. Nú er engin trygging fyrir því, að þeir, sem fyrir valinu verða, sjeu búnir þeim hæfileikum, sem nauðsynlegir eru þeim mönnum, sem fyrir slíku eiga að standa, en þessir hæfileikar eru fyrsta og helsta skilyrði þess, að salan fari vel úr hendi. Meðal annars liggja þessar ástæður til þess, að meiri hl. sjútvn. er mótfallinn frv. hv. 2. þm. Reykv. og reynir með frv. því, er hjer liggur fyrir, að benda á önnur ráð, sem við teljum, að rjett sje að reyna, hvort ekki verði síldarútveginum til bóta.

Það, sem um er að ræða í okkar frv., eru samtök atvinnurekenda, eða framleiðenda, og þykist jeg geta lesið svo í hug hv. þdm., að enginn þeirra muni amast við því, að framleiðendur bindist samtökum, er miða í þá átt að hækka söluverð vöru þessarar á erlenda markaðinum. Enda mun alment litið á það með velþóknun, að þegnar ríkisins — framleiðendurnir á hvaða sviði sem er — bindist slíkum samtökum.

Undir venjulegum kringumstæðum geta slík samtök framleiðenda verið frjáls, og er það æskilegast og mun gefast best, verði því við komið. En hjer er beðið um lögvernd slíkra samtaka. Nú vil jeg staðhæfa, að ekki sje rjett, að löggjafinn fullnægi slíkri ósk, nema að annaðhvort hafi meginþorri þeirra manna, sem þar eiga hlut að máli, krafist þess, eða þá að alveg sjerstaklega standi á. Hjer liggja nú ekki fyrir óskir sjálfra atvinnurekendanna. Nefndin verður því að minni hyggju að sanna, að hjer hagi sjerstaklega til, en það er einmitt það, sem hv. frsm. hefir bent á með skýrum rökum, nefnilega að meiri hluti þeirra manna, sem að síldarsöltun standa, eru aðeins verkfæri í höndum erlendra síldarkaupmanna, og að vitanlegt er, að lögvernd sú, sem hjer er farið fram á, hlýtur að ganga á bug við hagsmuni útlendinganna. Af þessu leiðir aftur það, að óhugsandi er með öllu, að hægt sje að fá meiri hl. þeirra manna, sem að síldarsöltun standa, til þess að krefjast lögverndar. Því þeir, sem fyrir lítilfjörlega þóknun ganga á mála hjá erlendum húsbændum, hugsa ekki um, hvað landinu er fyrir bestu, heldur munu þeir halda áfram að þjóna þessum erlendu herrum sínum.

Mjer virðist því auðsætt, að þegar svo stendur á, þá verði löggjafarvaldið að víkja frá meginreglunni og veita þá lögvernd, sem frv. fer fram á, þó að ekki liggi fyrir ósk allra þeirra manna, er að síldarsöltun hafa starfað, enda má treysta því, að langsamlega flestir þeirra Íslendinga, er við síldarsöltun hafa fengist fyrir eiginn reikning, eru frv. þessu fylgjandi. Jeg geri ráð fyrir, að lagavernd þessi reynist bráðum óþörf, því að þegar „lepparnir“ hafa helst úr lestinni, er annað tveggja, að samtök hinna eru örugg án lagaverndunar, eða þá að svo fer í reyndinni — þvert á móti vonum mínum og annara, sem að frv. þessu standa — að Íslendingar sjálfir, sem við þetta eiga að búa, sætti sig illa við þetta fyrirkomulag, og leiðir þá af sjálfu sjer, að lögin verða numin úr gildi. Ef slíkt fyrirtæki, sem hjer er gert ráð fyrir, blómgast ekki undir stjórn þeirra manna, sem sjálfir framleiðendurnir velja, þá býð jeg ekki mikið í þau fyrirtækin, sem stjórnað er af einhverjum Pjetri eða Páli, sem hið opinbera velur samkv. frv. hv. 2. þm. Reykv.

Jeg hefi talið mig eindreginn stuðningsmann frjálsrar verslunar, og geri það enn upplitsdjarfur og með fullri einurð, þó að jeg eigi þátt í því að snúa þeim snöru um háls, er mestu tjóni hafa valdið síldarútveginum.

Og jeg get sagt hv. 2. þm. Reykv. það, er hann gerir sjer vonir um, að ekki sje nema stutt spor að stíga frá okkar frv. til hans, að jeg geri ráð fyrir, þó að jeg sje á ljettasta skeiði og ekki þungur fótur, að jeg verði orðinn bæði sárfættur og fótfúinn um það, að hann hittir mig í einokunarkoti sínu. Svo löng er leiðin ofan frá björtum og glæstum höllum þeirra, er frelsinu unna, niður til dimmra og sótugra heimkynna hinna, sem eru svo glámskygnir á meginþátt mannlegs eðlis að keppa altaf og undir öllum kringumstæðum að því að leggja í læðing athafnafrelsi manna, ef takast mætti að draga úr kjarki og dugnaði framsýnna einstaklinga þjóðarinnar.