05.05.1926
Neðri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

110. mál, sala á síld o. fl.

Jón Kjartansson:

Mjer þykir leitt, að hv. frsm. er ekki viðstaddur, því að jeg þarf að svara honum nokkrum orðum. Hv. þm. vildi gera mikinn mun á ríkiseinkasölu og „lögvernd“, sem hann kallaði. En þegar þessi lögvernd heimtar einkasölu, þá fæ jeg ekki sjeð, að munurinn sje annar en sá, að í fyrra tilfellinu er það ríkið, sem hefir öll ráðin, en í því síðara er það meiri eða minni fjöldi einstaklinga. Sje jeg ekki, að þar á sje neinn ógnar munur.

Hv. frsm. fór enn nokkuð út í „fórn“ sjávarútvegsins vegna kjöttollsmálsins, sem jeg mintist á. Sagði hann, að varla ætti við að ræða viðskiftin við útlönd á opnum fundi. En jeg get ekki fundið neina ástæðu til að þegja um þetta, þar sem aðalatriði kjöttollssamningsins hafa verið birt almenningi hjer og í Noregi. Jeg benti aðeins á, að það hefði ekki verið vilji Alþingis, að þar væri um nokkra fórn að ræða. Háttv. frsm. bar ekkert á móti þessu, og verð jeg því að líta svo á, að hann hafi viðurkent, að jeg hafi þarna farið rjett með.

Þá kom hv. frsm. inn á öflun nýs markaðs fyrir síld. Taldi hann þar hin mestu vandkvæði á fyrir einstaka útflytjendur, sakir þess, hve dýrt það væri. Öðru máli væri að gegna um kjötið; þar hefði öflugt fjelag tekið að sjer markaðsleitina og nyti til þess styrks úr ríkissjóði. Það skal viðurkent, að erfitt er fyrir einstaklinga að gera mikið í þessu máli. En hinu mótmæli jeg, að tilgangslaust sje fyrir síldarframleiðendur að leita til ríkissjóðs um hjálp í þessu skyni. Alþingi hefir sýnt vilja sinn í sambandi við kjötið, og svo mundi fara um þetta. Og þó það hafi kostað ríkið allmikið fje þær tilraunir, sem gerðar hafa verið með kjötið, mun það sýna sig, að slíkt borgar sig, þegar fram í sækir. Við biðjum ekki um peninga, segir háttv. frsm. En hvað biðja þeir um? Fullkomin umráð yfir einum atvinnuvegi þjóðarinnar! Og er það þá a. m. k. gullsígildi.

Það er algerlega ómaklegt af hv. frsm. að halda því fram, að þýðingarlaust sje fyrir síldarframleiðendur að leita til Alþingis. Það hefir áður á þessu þingi sýnt að það vill ljetta undir með sjávarútveginum, með því að ljetta á honum skattabyrðina. Finst mjer lítið þakklæti koma fram frá háttv. frsm. fyrir þessar gerðir þingsins.

Loks fór hv. frsm. að kenna mjer heilræði, og krefst víst þakka fyrir. Sagðist hann aldrei vera vanur að leggja neitt til þeirra mála, sem hann hefði ekki vit á. Á þingi í fyrra stóð hv. þm. Ak. (BL) í þeim sporum, sem nú stendur hann, og barðist drengilega fyrir frjálsri verslun, þar sem var afnám á einkasölu með tóbak og steinolíu. Taldi hann þá alt óhæfu, sem ekki væri í anda fríverslunarinnar. Nú stendur hann þarna aftur, — en nú á fríverslunin að víkja. Vil jeg því spyrja, hvar leita á visku hans um það, hvenær höfð skuli frjáls verslun og hvenær einkasala.

Loks vil jeg undirstrika það, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að það er óviðeigandi að vera með aðdróttanir til þeirra, sem hafa mótmælt frv., með því að gefa í skyn, að það sje ætlun þeirra að vernda leppana, en ekki Íslendinga sjálfa. — Mun jeg svo ekki tala fleira um þetta mál.