12.05.1926
Efri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

110. mál, sala á síld o. fl.

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) talaði um það, að þetta mál hefði komið hingað allsnögglega og væri afgreitt með mikilli skyndingu. Þessu er nú svo varið, eins og háttv. þm. veit. þessa síðustu daga þingsins, þegar mörg mál koma fyrir deildina í senn, þá er ekki nema um tvent að gera, annaðhvort að afgreiða þau fljótt eða alls ekki. Af þessum ástæðum, sem jeg nú tók fram, sá sjútvn. sjer ekki fært annað, af því hún vildi ekki láta fella þetta frv., en að flýta sem mest fyrir afgreiðslu þess. Brtt. sá hún, að enginn tími var til að bera fram við frv. hjeðan af. Um það, hvernig þetta mál yfir höfuð kom fyrir deildina, ætla jeg ekki mikið að ræða við hv. þm.; hann sagði, að það kæmi eins og þjófur á nóttu. Jeg hygg, að það hafi komið eins og venja er til, að mál komi.

Þá sagði hv. þm., að hann hefði ekki getað fundið, að okkur væri óljúft að mæla með frv.; jeg tók fram þegar í byrjun ástæður nefndarinnar fyrir því, að hún mælti fram með frv. við þessa hv. deild, og tel jeg óþarfa að fara að endurtaka það aftur. Jeg get þó lýst yfir því að nýju fyrir hönd nefndarinnar, að þó að við höfum talið rjett að mæla fram með þessu frv., höfum við þó alls ekki þar með gert þá játningu að við teljum einokun besta verslunarfyrirkomulagið. En við verðum að horfast í augu við það ástand, sem nú er á þessu sviði viðskiftanna, og þegar það virðist vera komið í algert óefni með þessa útflutningsvöru, finst mjer það vel geta komið til mála, að slík tilraun sem þessi verði gerð. Þetta á ekkert sameiginlegt við einokunarstefnu í verslunarmálum. Aðalatriðið í þessu máli er það, að þeir, sem best vit hafa á þessum málum, telja, að með lagasetningu eins og þessari verði „leppum“ og „leppmensku“ allri afstýrt, en hún er, eins og allir vita, mesta vandræðaástand. Það er vandræðaástand, þegar menn, sem annars, ættu að geta rekið þessa atvinnu á frjálsum grundvelli, neyðast til að leigja sig útlendingum á laun.

Hv. þm. áleit, að stjórninni væri enginn greiði gerður með þessu frv.; þetta getur vel verið. Stjórnin verður að taka við vandanum í þessu máli eins og öðrum málum, sent henni eru falin til meðferðar, þótt vandræðamál sjeu. Þegar vandræði standa fyrir dyrum, verður stjórnin að vera við því búin, að reynt sje að finna einhver úrræði. Að þetta sje mikið hagsmunamál margra manna, er alveg satt. Það snertir líka útlenda atvinnurekendur og leiguþjóna þeirra hjer, en við megum ekki gleyma, að málið er líka hagsmunamál allra innlendra atvinnurekenda, sem eru að reyna að bjargast upp á eigin spýtur. Það er og hagsmunamál fyrir alla þjóðina í heild; það er spurningin um það, hvort þessi atvinnuvegur okkar, sem gæti verið blómlegur, ef rjett er að farið eigi að leggjast í dróma leynilega af útlendingum og innlendum hjálparmönnum þeirra.

Í þessu sambandi get jeg ekki komist hjá að minna á mótmælin, sem komið hafa fram gegn þessu máli frá Norðurlandi. Jeg bar þetta eitt sinn undir hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) og spurði hann, hve mikið mundi mega taka tillit til þessara mótmæla, og jeg verð að segja það, að svar hans gaf ekki tilefni til að ætla, að mikið mætti byggja á mótmælum þessum. Hann játaði, að ástandið væri þannig lagað, að það væri ákaflega erfitt að fara eftir þessum mótmælum. Þó hann að vísu viðhefði ekki beinlínis þessi orð, skildi jeg hann þó svo, að hann legði ekki mikla áherslu á þessi mótmæli. Hafi jeg misskilið hann. vænti jeg, að hann leiðrjetti það, sem jeg kann að fara rangt með; en jeg leitaði til hans sem kunnugs og þekts manns á þessu sviði.

Viðvíkjandi því, er menn fá að láni frá útlöndum tunnur og salt, gegn gegn veði í veiðinni, verð jeg að segja, að þetta gæti mikið ýtt undir „leppmensku“; er þó að vísu ekki ávalt það sama, en þó er þetta ein leiðin, sem þangað getur legið.

Um einstök atriði starfrækslu fjelagsins væntanlega ræði jeg ekki. Allir hljóta að sjá og skilja, að hjer er aðeins um heimildarlög að ræða og ríkisstjórninni er ætlað að semja eða samþykkja reglugerð handa væntanlegu fjelagi, sem stofnað yrði samkvæmt þessum lögum, áður en leyfið er veitt, og það verður að treysta stjórninni til að veita ekki þetta einkasöluleyfi, nema trygð sjeu þau skilyrði, sem nauðsynleg verður að telja, t. d. viðvíkjandi þeim atriðum, sem hv. þm. mintist á.

Nefndin ber fyrir sig sömu ástæður og háttv. l. þm. Eyf. viðvíkjandi því; að hún bar ekki fram brtt. við frv. Nefndinni var það ljóst, að annaðhvort varð að gera, að afgreiða það tafarlaust eða breyta því, sem var hið sama og hindra framgang þess á þessu þingi, eins og áliðið er, þar eð tími er enginn, er leyfi slíkar tafir, og yrði það því aðeins til falls málinu.

Hv. 1. landsk. (SE) vjek að þeirri hlið málsins, er snýr út á við, og sagði sem satt var, að það væri allalvarlegt íhugunarefni. Jeg drap á það í ræðu minni áðan, að jeg er honum fyllilera sammála um þetta. Stjórnin verður vandlega að gefa gætur að þeim áhrifum, sem þessi tilraun kann að hafa á viðskifti vor við erlendar þjóðir. Jeg tek undir þetta með honum og endurtek hjer með það, sem jeg hefi áður sagt um þetta atriði.

Aftur á móti get jeg ekki verið sammála hv. 1. landsk. þm. um það, er hann ljet ummælt viðvíkjandi lágmarki því, sem sett er í frumvarpið til þess að menn geti orðið fjelagsmenn í fjelaginu. Háttv. 1. landsk. þm. telur 200 tunnur of hátt lágmark, en jeg verð að vera á öðru máli. Flestir, sem við þennan atvinnuveg fást, munu hafa mun meiru en þessu úr að spila, að minsta kosti á Norðurlandi. Þar er þetta vissulega svo, að langflestir munu vera langt fyrir ofan þessa tölu.

Jeg hefi svo ekki fleira að svara að sinni. Jeg hefi tekið fram, að slík tilraun sem þessi getur verið rjettmæt, þegar í annað eins óefni er komið og nú er raun á orðin, og er ekki við neitt annað saman jafnandi á öðrum sviðum atvinnurekstrar hjer á landi. Þetta verður að telja forsvaranlegt, þegar slíkt neyðarástand virðist yfirvofandi og nú er í þessum rekstri, ef menn ekki vilja sætta sig við að verða að öllu leyti „leppar“ og undirtyllur útlendra atvinnurekenda.