12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2389 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

15. mál, útsvör

Þórarinn Jónsson:

Jeg hefi ekki tekið til máls fyr í útsvörunum, og er það af því, að jeg hafði svo miklar annir í fjvn., þegar þau komu fram, að mjer vanst ekki tími til að fara til hlítar í gegnum þetta mikla mál. Jeg var ekki að öllu leyti ánægður með frv., en fylgdi því þó, með það fyrir augum, að það mundi fá meðferð í báðum deildum og breytast við það til bóta. Hinsvegar áleit jeg, að þó að gallar væru á frv. frá mínu sjónarmiði, væru þó í því miklar rjettarbætur. Nú er frv. komið aftur frá Ed. og hefir tekið nokkrum breytingum, og þó að jeg sje enn ekki ánægður með það, álít jeg, að svo mikil bót sje að því, að jeg álít, að það eigi að ganga í gegn; en það væri ekkert undarlegt með þessi lög, þó að reynslan gæfi fljótlega tilefni til breytinga. Jeg býst við því, að jeg muni greiða frv. atkv. mitt, en get hinsvegar ekki komist hjá að minnast á þetta mesta deiluatriði, um konurnar. Það er hallað rjettur, sem er órjettur. Jeg hefði þó leitt þetta atriði hjá mjer, ef ekki hefðu fallið ýms ummæli um það í umræðunum um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða, sem jeg tel algerlega óviðeigandi og óverðug. En þá voru af forseta skornar niður umræður svo ekki varð svarað.

Það var háttv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), sem hafði orð fyrir sjálfum sjer, því að hann var að gera grein fyrir atkv. sínu. En það fyrsta, sem mjer datt í hug, þegar jeg hafði hlustað á þessa ræðu, var það, sem umskiftingurinn sagði, að aldrei hefði hann sjeð svo langan gaur í svo lítilli grýtu. Því að eftir alla þessa greinargerð varð ekkert atkvæðið. Það kom aldrei. Jeg hefi hjerna hjá mjer skrifað það helsta, sem hv. þm. (ÁJ) sagði, og skal jeg fara nokkrum orðum um það og byrja á hinum vægari ummælunum. Hv. þm. segir, að heimilin missi af hæfustu konunum. Jeg tel, að aðalstarf konunnar sje á heimilinu, en vil ekki, að hún sje svo einangruð við heimilisstörfin, að hún megi ekki koma nálægt öðru, og jeg skil ekki í því, að konur geri heimilin ómöguleg, þó þær eyði 4–5 dögum á ári til annars. Það ætti líka ekki að vera lakara fyrir konuna að sjá önnur störf heldur en eingöngu heimilisstörfin. Enda eru störf í hreppsnefndum að vissu leyti sama eðlis og heimilisstörfin; þar er t. d. um töluvert uppeldisstarf að ræða, svo sem ómagaframfæri. Konur hafa líka oft lagt það til þeirra mála, sem ekki var ómannúðlegra en till. karlmannanna, og hefir stundum síst verið vanþörf á því. Það ætti ekki að spilla fyrir uppeldisstarfi konunnar á heimilinu, að hún kynnist slíkum störfum. Þvert á móti, við það eykst víðsýni hennar og dómgreind. Hitt er hrein einangrun.

Hv. þm. sagði sögu, og við það datt mjer í hug önnur saga, sem jeg ætla að segja honum, og það er sönn saga. Það var maður í hreppsnefnd, sem var einfaldur en ljet mikið yfir sjer, en átti skynsama konu og vel þekta. Einu sinni kom hann heim af hreppsnefndarfundi og var ekkert ölvaður, — jeg vil taka það fram, því að ekkert mark er takandi á því, sem menn kunna að segja í slíku augnabliksástandi. — Konan spyr hann frjetta af fundinum, og hann svarar: „Það gekk alt vel. Ómagarnir voru boðnir upp“. „Ómagarnir boðnir upp?“ spurði konan. „Já. Annars er ekki til neins að tala um þetta við þig, þú hefir ekkert vit á þessu“ segir maðurinn. Konan sagði þá aðeins þetta: „Ósköp er það lítið, sem getur skygt á konuna“. Þarna var farið þannig með ómagana, að þeir voru fengnir þeim, sem gerðu lægst boð í þá. Ætli konur hefðu verið þarna lakari en karlar? Jeg segi nei.

Þá sagði hv. 2. þm. N.-M., að hroki kvenna minti sig á það, þegar þrælar voru gefnir lausir. Þetta álít jeg algerlega óverðskuldað og óviðeigandi. Eða hver ætli hafi þá sett þrælsmerki á konuna? Svona ummæli eiga alls ekki við, og jeg álít það beinlínis heppilegt, að konur taki þátt í þessum störfum, og að það geti á engan hátt spilt heimilunum. Auk þess þori jeg að fullyrða það, að hvergi þar, sem jeg þekki til, mundi kona vera kosin nauðug í hreppsnefnd.

Hv. þm. (ÁJ) varð svo skrafdrjúgt um þetta, að hann hófst á loft og mintist á hugsjónir og sagði, að þær gætu verið góðar, þó að menn næðu aldrei í þær, og hafði það eftir Guðmundi á Sandi. En nú mundi það hafa atvikast svo, að kvenrjettindamenn hefðu rekið bát sinn á hugsjónina og brotið hann. En jeg held nú, að hugsjónir sjeu ekki svo efniskendar, að hætt sje við, að menn brjóti bát sinn á þeim. Hitt hygg jeg rjettari skýringu, úr því að svo er komið, að þessir kvenrjettindamenn hafa rekist á hugsjónina, þá sje það af því, að þeir hafi nú náð henni heilu og höldnu. Hinsvegar held jeg, að menn muni ekki sjá glæsta sigling, þar sem fley hv. þm. er á ferðinni, og að það muni stranda á útskerjum undir Svörtuloftum eða Stigahlíð, eða einhverjum slíkum stað. Og jeg fullyrði, að þó að flakið finnist, mun aldrei verða notaður nagli eða fjöl úr því í nýtt fley. Jeg vil ekki fara út í sögu hv. þm., því að fyrir mjer er þetta mál ekkert hlægilegt. Eins og frv. er nú, finst mjer að ætti því fremur að samþ. það, og jeg vona, að hv. deild sje nú búin að fá skilning á þessu, þó að hún hafi litið svo á áður, að um einhver rjettindi væri að ræða fyrir konur, að geta skorast undan kosningu. Það væri aðeins grímuklætt vantraust, og þær mundu finna það, að slíkt ákvæði væri sett aðeins af því, að þeim væri ekki trúað fyrir þessum störf um.