10.03.1926
Neðri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (1971)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta frv. nú, þótt málið sje merkilegt. Jeg bar þetta frv. fram í fyrra, og fylgdi því þá rækileg greinargerð, og get jeg látið mjer nægja að vísa til þess. Jeg vil aðeins minna á, að á búnaðarþingi, sem þá var nýafstaðið, var þessu vel tekið, og á þingmálafundum víðsvegar um land hafa verið gerðar ályktanir um þetta efni. Jeg skal ekki orðlengja um það, hve nauðsynlegt er, að bændur hafi greiðan aðgang að því að nota þennan áburð og fái hann ódýran, nje heldur um það, hversu sjálfsagt það er, að hið opinbera veiti sinn styrk til þess og greiði fyrir því. Jeg álít, að hjer standi mjög svipað á og þegar gaddavírslögin voru fyrst sett. Við getum allir verið sammála um, að það er gott og gagnlegt að geta á einhvern hátt bætt úr áburðarskortinum. Jeg hefi breytt dálítið fyrirkomulaginu frá því, sem það var í fyrra, eftir bendingu frá hv. 2. þm. Skagf. (JS). En jeg get lýst yfir því, að ef menn geta bent á heppilegri leiðir en hjer er farið fram á, þá er jeg fús á að fylgja því, því að fyrir mjer vakir ekkert annað en ráða fram úr þessu á einhvern heppilegan hátt, og að bændur geti fengið hagkvæm kjör á þessum áburði, sem er eitt af undirstöðuatriðum í ræktun landsins. Jeg skal geta þess hjer, að jeg mun gefa nefndinni upplýsingar um það, að aðstaðan með áburðinn hefir breytst frá því í fyrra, með því að ein þýðingarmesta áburðartegundin er komin í hendur einkaverslunar hjer í bænum, og það meðal annars rekur á eftir því, að nú sje eitthvað gert í málinu. Jeg leyfi mjer að leggja til, að málinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til landbúnaðarnefndar.