27.04.1926
Neðri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (1994)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Magnús Jónsson:

Jeg verð að segja, að það kom flatt upp á mig ýmislegt, sem fram kom við 2.umr. þessa máls. Jeg hafði litið svo á, að þetta væri eiginlega hálfgert hjegómamál. Hv. þm. Str. (TrÞ) bar fram sitt áburðarfrumvarp eins og hann gerði í fyrra, og eins og hann gerir líklega næsta ár, á sinn hátt eins og þegar 2. þm. Reykv. (JBald) ber fram einkasölufrumvörp sín þing eftir þing. Þetta er stefnumál, sem gengur illa að hafa fram, en sem menn halda fast við ár eftir ár. Jeg skal játa, að maður átti að geta vaknað við það, að hv. landbúnaðarn. bar fram tillögur sínar, sem sýna, að málinu er beint í nýjan farveg. Nefndin leggur á móti frv., en býr til sem brtt. nýtt frv. um einkasölu. Þar að auki voru í nál. landbn. nokkuð sterk ummæli um eitt og annað í garð stjórnar Búnaðarfjelags Íslands. En jeg tók þetta eins og heimiliskrit á landbúnaðarheimilinu, sem við þyrftum ekki að skifta okkur af. Jeg bjóst nú við því, að við 2. umr. mundi ganga í gusum milli kunningjanna og tillagan verða feld, því að jeg hjelt, að það sama þing, sem væri búið að ryðja eins til í einkasölumálum og það hefir gert, mundi varla fara að samþykkja nýja einkasölu nú. En við 2. umr. fer alt á annan veg. Fátt eða ekkert kemur fram til skýringar málinu, það er talað um það með mestu stillingu af frsm. landbn., en aftur á móti er haldinn einkennilegur eldhúsdagur yfir formanni Búnaðarfjelags Íslands, sem gefur loðin svör. Þá fer að glitta í hitt og þetta einkennilegt, sem þarf að athuga. Nefndin lýsir því yfir, að hún sje andvíg einkasölu yfirleitt. En í sömu andránni leggur hún til einkasölu, eins og hjer eigi að liggja á bak við einhver dæmalaus býsn, sem hljóti að snúa eldheitum mótstöðumönnum einkasölunnar þannig, að þeir verði að grípa til einkasöluheimildar. Jeg varð þó ennþá meira hissa, þegar nálega allur þingheimur greiðir atkvæði með tillögunni, án þess að fram kæmi, hvaða býsn þetta væru. Jeg tók mjer þá fyrir hendur að reyna að leita mjer upplýsinga um málið. Ætlaði jeg einkum að athuga vandlega þau skjöl, sem fyrir hv. landbn. hafa legið, en af sjerstökum ástæðum gekk mjer svo illa að ná í þessi skjöl, að jeg fjekk þau ekki fyr en nú í fundarbyrjun. Jeg verð samt að leggja upp með þetta.

Það er margt einkennilegt í kringum þetta og óljóst alt. Hv. landbn. ætlar, þvert ofan í sannfæringu sína, að leggja út í einkasölu, og loks dettur botninn úr öllu saman við það, að ef eitt útlent fjelag snýr frá villu síns vegar og lætur Búnaðarfjelag Íslands fá einkasölu á þessum áburðarefnum, á alt verkið að falla niður. Þá má alt verða frjálst.

Til þess að gera grein fyrir öllu þessu, ætla jeg að reyna að rekja málið sem mest sögulega.

Eins og öllum er kunnugt, hefir á síðustu árum verið fluttur inn í landið Noregssaltpjetur, í mjög smáum stíl samt. Þetta hefst árið 1922, 1923 er það nokkru meira, 1924 eykst það enn, en er þó lítið. Á þessum árum er það, að Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri kemst í þetta dularfulla samband við „Norsk hydro elektrisk kvælstofaaktieselskab“. Árið 1923 mun Sigurður hafa verið á ferð í Noregi í alt öðrum erindum, en það var sjerstaklega einn maður hjer í bæ, Thor Jensen, sem hafði beðið hann að athuga, með hvaða kjörum væri hægt að fá köfnunarefnisáburð í Noregi. Þá er það, sem Sigurður kemst í samband við þetta fjelag og gerir lítilsháttar pöntun hjá því. Mönnum gatst vel að vörugæðum og verði, og eftirspurnin eftir þessum áburði eykst. Sigurður fer að taka á móti fleiri pöntunum. Þær eru honum sendar gegn borgun mót farmskírteini, og yfirleitt er hjer um svo lauslegt og óformlegt samband að ræða, sem mest má vera. Búnaðarmálastjóri hefir sem sje leitað tilboða hjá Norsk hydro og gantað eftir þeim. Það er ekki um neitt umboð að ræða, og því síður einkasölu, enda má þetta heita tilraun meira en eiginleg verslun. Þó að þetta sje kallað „eneforhandling“, er ekkert hægt að leggja upp úr því. Það getur átt einungis við það, að búnaðarmálastjóri var sá eini, sem pantaði vöruna þaðan. (HH: Þetta er ekki rjett). Háttv. þm. Barð. (HK) stendur þá víst upp á eftir og sýnir, að hverju leyti jeg fer með rangt mál. Eins og jeg hefi tekið fram, var salan mjög lítil. Hjer í skjölunum er sagt frá, að 1923 hafi hún verið 95 tonn, 1924 150 tonn, og er hætt við, að Norsk hydro, sem framleiðir 200 þúsund tonn á ári, hafi þótt þetta lítið og ekki taka því að fara að stofna einkaumboð.

Það hafa, eftir því sem mjer hefir verið sagt, gengið talsverðar dylgjur um, að Sig. Sigurðsson hefði átt að fá af þessu miklar prósentur. En jeg hefi sjeð brjef, þar sem Norsk hydro lýsir því yfir, að Sigurður hafi aldrei haft neitt upp úr þessari sölu. Jeg held, að hjer sje um mjög óformlegt og eðlilegt atriði að ræða, eins og allir hljóta að sjá, sem vilja líta rólega á málið.

Um þessar mundir kemur firmað Nathan & Olsen til sögunnar. Carl Olsen fer að flytja inn áburð handa sjer 1922, vegna ræktunar, sem hann hefir með höndum hjer fyrir innan bæinn. 1924 hafa aftur á móti pantanir Búnaðarfjelagsins aukist það mikið, að það fer að verða óþægilegt að hafa ekki dálítið fyrirliggjandi af vörunni hjer á staðnum. Út frá þessu hefir mjer skilist, að firmað Nathan & Olsen tæki að sjer að hafa útsölu á því, sem ekki var fyrirfram pantað. Jeg hefi heyrt sagt, að Eyjólfur Kolbeins hafi líka haft eitthvað af sölu með höndum, og að Nathan & Olsen hafi selt dýrara en hann. Um þetta skal jeg ekkert segja. Jeg ætla hvorki að forsvara Nathan & Olsen nje búnaðarmálastjóra, heldur ætla jeg aðeins að skýra frá málavöxtum eins og jeg veit sannast og rjettast.

Svona standa sakir haustið 1924. En þá kemur nýr aðili til sögunnar, Mjólkurfjelag Reykjavíkur. Ýmsir meðlimir þess fjelags hafa ræktun með höndum. Þetta fjelag hafði fengið umboð fyrir Lysaker-verksmiðjuna á tilbúnum áburði (superfosfati), en vildi nú komast í samband við Norsk hydro. Hvernig sem á því stóð, varð samt ekkert úr því, og þykir mjer líklegast, að Norsk hydro hafi enn þótt illa taka því að gera samninga. Þeir, sem mestan áhuga höfðu sýnt á að breiða út þekkingu manna á þessu, var firmað Nathan & Olsen. Það gaf m. a. út vandaðan bækling um málið. Í árslok 1924 virðist málið því liggja ósköp einfalt fyrir. Mjólkurfjelag Reykjavíkur vill fá umboð fyrir Norskhydro og hefir ef til vill gert tilraunir til þess, en ekki tekist það.

Í janúar 1925 er annar aðaleigandi firmans Nathan & Olsen, Carl Olsen, staddur ytra. Jeg hefi leitað frjetta hjá honum persónulega um þetta, og hann sagði mjer, að hann hefði átt tal við Norsk hydro, sem hefði tekið dauflega í málið, af því að um svo litla sölu var að ræða. En ekki varð vart við neina mótstöðu af því, að neinn annar hefði hjer umboð. Enda er óhugsandi, að Norsk hydro hefði gert samning við Carl Olsen, ef aðrir hefðu haft umboð. Að minsta kosti hefði samningstíminn þurft að vera útrunninn. Það er heldur ekkert undarlegt, þó að Norsk hydro væri mýkri í samningum við Nathan & Olsen en aðra, af því að þessi fyrirtæki hafa mikla trú á að hafa fyrir umboðsmenn hrein verslunarhús, í stað t. d. Búnaðarfjelags Íslands, sem starfar að alt öðrum málum, eða Mjólkurfjelag Reykjavíkur, sem líka starfar að alt öðrum málum. 4. og 5. febrúar er það svo afgert, að Nathan & Olsen fái einkaumboð. En vegna þess, að slík verslunarhús eru ákaflega vönd að virðingu sinni, og Norsk hydro hafði haft viðskifti við Sigurð Sigurðsson og Búnaðarfjelagið, þá óskaði það þess, að Nathan & Olsen fengju samkomulag við Búnaðarfjelagið um málið.

Mjer sýnist hv. landbn. fyrst fara að grilla í málið eftir allan þennan undirbúning, en sjá þó alt skakt. Því að hún fer vægast sagt með mjög vafasamt mál með tali sínu um einkasölu Búnaðarfjelagsins, því hún hefir aldrei átt sjer stað, og talinu um afhendingu á þeim hlut, sem ekki var til. Það er ómögulegt að tala um afhendingu einhvers manns hjer úti á Íslandi á umboði fyrir slíkt stórfirma sem Norsk hydro. Auðvitað hlýtur það að vera sjálfrátt, hvaða umboðsmann það hefir. Í öðru lagi gat Sigurður Sigurðsson ekkert umboð afhent, af þeirri einföldu ástæðu, að hann hafði ekkert umboð. Líklega stafar þessi misskilningur af því, að Norsk hydro óskar, að Nathan & Olsen fái samþykki Búnaðarfjelagsins og Sigurðar Sigurðssonar. En sje nokkur vafi um þetta, þá er hann allur kveðinn niður með brjefi frá Norsk hydro, sem jeg vil leyfa mjer að lesa kafla úr, með samþykki hæstv. forseta:

„. . . . Naar De spör, om De har anbefalet os, at d'herrer Nathan & Olsen skulde faa eneforhandling med Norgesaltpeter iaar og for fremtiden, saa maa vi dertil svare nei ....“

Þetta brjef mun Sig. Sig. hafa útvegað sjer út af dylgjunum um afhending hans á umboði Búnaðarfjelagsins. Þetta um einkasölu Búnaðarfjelagsins og afhending Sig. Sig. er því hreint fleipur hjá hv. nefnd. Það er ekkert annað sem gerist 4.–5. febrúar í fyrra en það, að Carl Olsen tekst að fá Norsk hydro til að fá þá trú á áburðarsölu hjer, að þeim þykir taka því að hafa hjer umboðsmenn.

Nú kemur næsti þáttur í málinu, og það er Búnaðarfjelagið og dugnaður og árvekni stjórnar þess. Það var minst á það við 2. umr., að í heilt misseri veit form. fjelagsins ekki, hvort það er Búnaðarfjelagið eða Nathan & Olsen, sem hafa á hendi umboðið. Þetta virðist næstum óskiljanlegt, þegar stjórn fjelagsins er á fundi 21. febrúar falið að hafa umboðið áfram. Út af þessu vil jeg reyna að skýra það, sem fram fór.

Í samræmi við skilyrði Norsk hydro fór Carl Olsen á fund Búnaðarfjelags stjórnarinnar, til þess að komast að samningum. Út af þessu komu þeir á 2 fundi saman, hinn 5. mars í fyrra, kl. 10 árd. og kl. 8 síðd. Nathan & Olsen buðust til að selja saltpjeturinn við afarvægu verði, aðeins með 2% álagningu. En formaður Búnaðarfjelagsins þykist hafa lagt höfuðáherslu á, að Mjólkurfjélag Reykjavíkur yrði ánægt, og talaðist að lokum svo til, að 200 tonna sendingu var skift þannig, að Nathan & Olsen fengu 140 tonn, en Mjólkurfjelagið 60. En jafnframt var ákveðið, að álagningin skyldi vera 7–8%, líklega til þess að gera Mjólkurfjelagið ánægt! Formaður Búnaðarfjelagsins mun hafa komið með þá tillögu, til þess að Mjólkurfjelagið fengi eitthvað af saltpjetrinum, og auðvitað slógu Nathan & Olsen ekki hendinni á móti slíku boði.

Á fundi Búnaðarfjelagsins, 21. febrúar 1925, er samþykt tillaga um það, að fjelagið haldi áfram einkasölu á tilbúnum áburði. Orðalagið er sýnilega bygt misskilningi, en átt við það, að fjelagið haldas áfram að versla með áburð. Samkvæmt því, sem jeg hefi áður tekið fram, voru Nathan & Olsen þá þegar búnir að fá umboðið, en Olsen líklega ókominn til landsins. En nú er að athuga framkvæmdir Búnaðarfjelagsstjórnarinnar, því að hún átti að sjá um, að samþyktum aðalfundar væri framfylgt. Formaður gaf skýrslu hjer í gær, og var hún óneitanlega heldur óskýr. 21. febrúar er stjórninni falið að hafa umboðið. En fyrst í desember segist formaður hafa haft hugmynd um, að Búnaðarfjelagið hefði það ekki. Þetta er svo ótrúlegt, að það gengur undri næst. Stjórnin situr á tveim fundum með Carli Olsen og semur um áburðinn og veit ekki, hvort það er hún eða hann, sem er að bjóða vöruna. Síðan gengur öll áburðarverslun ársins svo fyrir sig, að formaður Búnaðarfjelagsins heldur, að Búnaðarfjelagið sje að versla, án þess að svo sje! Og þetta eru þó á þriðja hundrað tonn. Carl Olsen gerir ákveðin tilboð um verð vörunnar; en samt opnast ekki augu formannsins. Svona líður árið til enda. Mjólkurfjelagi Reykjavíkur er neitað um Noregssaltpjetur beint, sakir þess að Nathan & Olsen sjeu einkaumboðsmenn. Þá er óhugsandi annað en það fjelag hafi einhverja hugmynd um þetta. En formaður Búnaðarfjelagsins einn veit ekki neitt og gerir ekki neitt, því að annars hefði hann hlotið að komast að því sama. Hann lifir allan tímann í þeirri sælu einfeldni, að alt sje í lagi og ekkert þurfi að gera.

Loks í desember opnast augu formannsins. Þá er sendur út ráðunautur Búnaðarfjelagsins, svo að segja ári eftir að Norsk hydro hefir afhent Nathan & Olsen umboðið.

Mig furðar ekki, þótt landbn. segi, að búnaðarmálastjóri hafi, „að því er virðist dulið“ fjelagsstjórnina hins sanna í þessu máli. Það hefir ekki verið neitt ógnarlegt þrekvirki, þegar alt þetta er á ferðinni kringum hana, brjef, skeyti, samningar o. s. frv., en ekkert dugir. Hún er alveg úti á þekju.

Svona er nú gangurinn í málinu, og er nauðsynlegt að draga hann fram, vegna ónákvæmra skýrslna um málið, og til þess að geta felt rökstuddan dóm um það. En aðalatriðið í málinu er þetta:

Er ástæða til einkasölunnar?

Hv. frsm. landbn. (JS) færði ekki fram neina aðra ástæðu en þá, að Nathan & Olsen hefðu náð í einkaumboð! Hvílíkt dæmalaust ólag! En hvað gerir það til, þótt þetta firma hafi einkasölu? Eina atriðið, sem hjer þarf um að spyrja, er þetta: Er verðið á vörunni rjett? Nálega allar verksmiðjur, sem selja hingað vörur, hafa hjer umboðsmenn, og þykir engum neitt að athuga við það. Framleiðendurnir vilja hafa hjer menn til að bjóða fram vöruna og auglýsa hana. Nú er það alveg vafalaust, að verðið er mjög sanngjarnt á saltpjetrinum, enda hefir hæstv. landbn. ekki sagt eitt orð í aðra átt. 2% er alveg ótrúlega lág álagning, en Nathan & Olsen buðust til að leggja ekki meira á vöruna. Jeg held, að þingið seilist heldur um hurð til lokunnar, ef það ætlar sjer að fara að setja upp einkasölu. Því að það er áreiðanlegt, að öll þau firmu, sem vilja fá markað fyrir vöru sína, gæta þess, að umboðsmenn þeirra leggi ekki óhæfilega á hana. Og svo kemur eitt til greina. Umboðið mundi halda áfram, þótt einkasalan kæmi. Það er hreinn barnaskapur að halda, að hægt sje að hræða Norsk hydro með því, að það missi af versluninni með þessi 2–300 tonn af saltpjetri, sem hingað flytjast. Menn verða að athuga, að 2–300 tonn er ekki meira en eins og dropi í hafinu gagnvart þeim hundruðum þúsunda tonna, sem Norsk hydro framleiðir árlega af Noregssaltpjetri.

Ef farið er að gera rekistefnu út af þessu, gæti það orðið til þess eins, að erfiðara yrði að fá Norsk hydro til að sinna þessum litlu pöntunum hjeðan. Mjólkurfjelag Reykjavíkur ætlaði að ógna Norsk hydro með því að segjast kaupa Chilesaltpjetur, ef það fengi ekki sendingu beint. Norsk hydro virti þetta ekki svars í brjefi sínu. Sama mun það gera við þessum selbita, sem því er gefinn í 2. gr. frv.

Þetta er þá ástæðan til þess, að þingnefnd, sem yfirleitt er á móti einkasölu, krossbrýtur sínar eigin reglur og fjöldi þingmanna fer á eftir. Með öðrum orðum, þá er engin ástæðan, ekkert nema ímyndun. Jeg vona því, að þessi orð mín hljómi eins og gleðiboðskapur fyrir þá hv. þm., sem eru á móti einkasölu, en hafa komist inn á villigötur í þessu máli.

Það eru í rauninni fleiri þættir, sem mætti minnast á í þessu máli. En þar sem jeg er nú bílinn að tala alllengi, get jeg látið mjer nægja að bæta fáu við.

Til stuðnings því, sem jeg sagði um verðið á Noregssaltpjetrinum, gæti jeg lesið upp brjefkafla frá Norsk hydro, þar sem þeir fara fram á, að Búnaðarfjelagið hafi hönd í bagga um verðið á áburðinum, svo að þeir geti fengið fult traust manna. En þess gerist eflaust ekki þörf, þar sem jeg hefi rökstutt þetta nægilega.

En það virðist vera eina meiningin með þessu frv., að ná versluninni úr höndum Nathan & Olsen. (JS: Hvenær hefir það komið fram?). Mjer skildist hæstv. atvrh. (MG) spyrja, hvað menn vildu að gert væri, ef komist yrði að viðunanlegum samningum við Nathan & Olsen. Þá reis hver upp af öðrum og sagði, að versluninni yrði að ná úr höndum firmans. En af hverju mega Nathan & Olsen ekki hafa áburðarsöluna? Eru það ekki alstaðar eyrun á Mjólkurfjelaginu, sem gægjast upp úr? Það var aðaláhugamál formanns Búnaðarfjelagsins að gera það ánægt. Og til þess, að svo gæti orðið, varð álagningin á áburðinn í ár ca. 7% í stað 2%!

Frv. hv. þm. (TrÞ) var svo skiljanleg „agrar-pólitik“. Það sýnir þennan anda, sem hvergi þolir að sjá neitt, sem landið á, landsbanka, landsverslun, landssjóð, landssjóðsskip, án þess að skattleggja það til landbúnaðarins. En þetta kæmi þó að einhverju gagni. En hin ósköpin! Landsverslun, einkasala, auðvitað dýr í rekstri. Og allar líkur til þess, að áburðurinn yrði dýrari, en ekki ódýrari eftir en áður, því að sennilega halda Nathan & Olsen sínum umboðslaunum eftir sem áður.

Vil jeg því óska, að málið verði afgreitt með svofeldri rökstuddri dagskrá: „Í því trausti, að ríkisstjórnin láti hafa nákvæmt eftirlit með verðlagi á tilbúnum áburði hjer á landi og sjái svo um, að hann sje seldur hjer við sanngjörnu verði, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Allir þeir, sem greiða atkv. á móti þessari dagskrá, sýna, að þeim gengur eitthvað annað til en að fá ódýran áburð.