08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2010)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Frsm. (Ágúst Helgason):

Jeg sje ekki ástæðu til að fara að minnast á tildrögin til þess, að frv. þetta um einkasöluheimild er fram komið; þau eru hv. þdm. kunn.

Jeg vil aðeins benda á, að mikla nauðsyn ber til að gera verslun með þá vöru, sem um er að ræða, sem hagkvæmasta að unt er. Það er fyrst nú síðustu árin, að bændur hjer á landi eru farnir að gera tilraunir að nokkum mun með það, hvort svarað geti kostnaði að nota tilbúinn áburð út um sveitir landsins, og virðist reynslan helst benda til, að svo geti verið, þar sem flutningskostnaður er ekki því meiri.

Síðan jarðræktarlögin gengu í gildi, hefir áhugi bænda fyrir að auka túnræktina mjög mikið aukist, en áburðarskortur er mestur þrándur í götu fyrir túnræktinni, eins og allir vita. Túnræktinni getur ekki miðað ört áfram, nema því aðeins, að tilbúinn áburður fáist með svo vægu verði, að svarað geti kostnaði að kaupa hann og flytja út um land, en að því er stefnt með þessu frv.

Nú hagar svo til, að kalksaltpjetur, bæði norskur og þýskur, er bundinn einkasöluumboði hjá einu verslunarhúsi hjer, sem því er einrátt um útsöluverð áburðarins hjer á landi. Af þannig löguðu verslunarfyrirkomulagi er naumast góðs að vænta, þar sem engin verslunarsamkepni getur komist að. Mjer mun verða svarað því, að samkepnin komist heldur ekki að, ef Búnaðarfjelag Íslands hefir einkasöluna, en þar er öðru máli að gegna, því að Búnaðarfjelag Íslands á ekki að hafa neinn hagnað eða gróða af sölunni, heldur aðeins leggja á vöruna óumflýjanlegan kostnað. En þess verður ekki vænst, að einkaverslun selji án þess að hafa hagnað, og þessvegna er auðsætt, að áburðurinn ætti að geta verið ódýrari, ef Búnaðarfjelag Íslands hefði söluna á hendi, heldur en hún væri hjá verslun, sem vitanlega hugsar um að hafa hagnað af sölunni.

Jeg sje ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Jeg vænti þess, að hv. þdm. skilji það til hlítar, hver meiningin er með þessu frv., aðeins sú, að gera áburðinn svo ódýran sem hægt er, eða koma í veg fyrir, að óþarfa kostnaður leggist á hann við söluna.

Jeg vænti þess, að hv. þm. þessarar deildar, ekki síður en hv. þm. Nd., kunni að meta tilgang þessa frv., sem er einungis sá, að greiða veginn fyrir túnræktinni, og vænti því, að hv. þd. samþykki frv.