12.04.1926
Efri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (2068)

97. mál, kvennaskólinn í Reykjavík

Jónas Jónsson:

Vegna þess að svo stendur á, að sagt er, að frv. það, er hjer liggur fyrir, sje borið fram af meiri hl. mentmn., verð jeg að lýsa yfir því, að jeg er í minni hl. enn sem komið er, hvað sem síðar kann að verða.

Þegar þess er gætt, hvað frv. hæstv. stjórnar um þetta efni fjekk kaldar móttökur hjá þinginu í fyrra, þá finst mjer, að þessi dráttur, sem orðið hefir á því, að frv. kæmi fram á þessu þingi, bendi til þess, að hæstv. stjórn hafi sjálf efast um, hvort hún ætti að nýju að koma fram með það. Og mjer finst það dálítið athugavert fyrir mitt leyti, að nú skuli eiga að stofna 8 föst kennaraembætti og þar með jafnframt að skapa það fordæmi, sem hlýtur að binda ríkissjóð allmikla nýja bagga um aukinn kostnað.

Jeg verð fyrst og fremst að átelja það, að hæstv. forsrh. (JM) skyldi ekki láta frv. þetta koma fyr fram. Og mál þetta er alls eigi undirbúið eins og skyldi, því að það hefir ekki verið rætt í mentamálanefnd í heild. Það eru ekki nema 2–3 dagar síðan málið barst henni í hendur, og á þeim fundi, sem málið var tekið til meðferðar, var hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) ekki við, en nú hefir hv. 4. landsk. (IHB) lýst yfir því, að hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) sje frv. samþykkur, og á þann hátt hefir verið skapaður sá meiri hluti í nefndinni, er ber fram frv. fyrir hönd hæstv. stjórnar.

Jeg vil hjer með beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. (JM), hvort eigi sje ástæða til þess, að málið fari til nefndar aftur. Mentamálanefnd hefir ekkert rannsakað það, aðeins tekið ákvörðun um að flytja það.

Þá vil jeg minnast á tvö atriði í sambandi við málið.

Mjer finst sem hjer sje um að ræða aukaríkisrekstur, þar sem á að fara að taka upp á arma ríkisins tvo skóla, sem fram að þessu hafa starfað á frjálsum grundvelli: Samhliða þessu verður að gæta þess, að frv. er borið fram af hæstv. stjórn, en jafnhliða er borin út um bæinn grein eftir einn ráðherrann, formann Íhaldsflokksins, þar sem það er kallað stjórnlyndi, að ríkið ráði sem mestu af fyrirtækjum í landinu. Þar er því með öðrum orðum lýst yfir skýlaust, að stjórnarflokkurinn sje á móti ríkisrekstri, enda er í greininni bæði talað um tóbaksverslunina og Steinolíuverslunina. Vil jeg því spyrja hæstv. forsrh. (JM),sem er höfundur frv. þessa, hvernig hann haldi, að þetta tvent geti samrýmst, og hvort eigi sje með frv. brotin sú meginregla, er formaður Íhaldsflokksins talar um í grein sinni, og hvernig hann muni telja, að það sje ekki stjórnlyndi, að taka þessa tvo skóla, sem áður hafa starfað á þeim grundvelli, er eigi reiknast til stjórnlyndis.

Þá er hitt atriðið. Ef frv. verður samþ., þá er þar með komið inn á þá leið, er lengra verður að ganga. Jeg skal þó ekki fullyrða neitt um það, hvort sú leið sje rjett eða röng. það er nú langt síðan, að hið háa Alþingi samþykti fræðslulög sín á þessum svonefnda stjórnlyndisgrundvelli, en öll unglingafræðsla í landinu er bygð á öðrum grundvelli. Í raun og veru er ekki hægt að telja þessa tvo skóla, sem hjer er um að ræða, annað en unglingaskóla fyrir kvenfólk, alveg eins og skólarnir á Hvítárbakka, Eiðum, Laugum og hinn tilvonandi hjeraðsskóli Árnesinga eru unglingaskólar bæði fyrir karla og konur. Vil jeg því vekja athygli hæstv. forsrh. (JM) á því, að ef ríkið tekur þessa skóla upp á sína arma, verður það á næstu árum að taka alla hina unglingaskólana. Og það getur vel verið, að vit sje í þessu, úr því að barnafræðslan, Mentaskólinn, Háskólinn, Stýrimannaskólinn og Vjelstjóraskólinn eru á höndum ríkisins og reknir á þjóðnýtingar grundvelli.

Þá vil jeg benda á það, að í fyrra bar stjórnin ekki fram nema helming frv. þessa. En hvernig fór þá? Frv. fjell hjer í þessari hv. deild vegna þess, að ýmsir þm. hjeldu því fram, að ef ríkið tæki að sjer kvennaskólann í Reykjavík, yrði það einnig að taka að sjer Blönduósskólann.

Nú hefir hæstv. stjórn sjeð það, að ekki væri undanfæri að taka Blönduósskólann með, en þó er það nú svo, að í fyrra var bæði hæstv. forsrh. (JM) og hv. 4. landsk. (IHB) á móti þessu. Þetta sýnir það, að ef frv. skyldi nú falla með jöfnum atkv. eins og í fyrra, þá verður hæstv. kenslumálaráðherra (JM) að bera fram frv. á næsta ári, með þeim breytingum, að allir unglingaskólarnir skuli þjóðnýttir.

Þetta hefi jeg aðeins sagt til þess, að hæstv. forsrh. (JM) fái tækifæri til þess að skýra hv. deild frá afstöðu hæstv. stjórnar til málsins, og hvernig hún hefir hugsað sjer að geta tekið unglingaskóla kvenna eina út úr, en láta alla aðra unglingaskóla verða útundan.