29.03.1926
Efri deild: 40. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (2160)

40. mál, yfirsetukvennalög

Guðmundur Ólafsson:

Það er ekki margt, sem jeg ætla að segja um þetta mál, en helst yrði það í nokkuð svipaða átt og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ).

Það virðist ekki verulega hafa vakað fyrir nefndinni annað en það, að þörfin á gagngerðri hækkun væri alveg sjerstök að því er snertir yfirsetukonur. Og eins og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) benti á, hefir hún ekki munað eftir því, að til væri aðrir embættismannaflokkar í landinu, sem altaf eru óánægðir með laun sín og krefjast hækkunar á þeim. Jeg verð að líta á þetta mál alveg eins og hv. 1. þm. Eyf., að það má fara varlega í að taka að miklu leyti til greina kröfur eins embættismanna- eða starfsmannaflokks í landinu, en neita öðrum harðlega.

Þó að jeg játi, að það sje ekki sambærilegt, hvað yfirsetukonur hafa lægri laun en flestir aðrir starfsmenn ríkisins, þá er það líka svo, að þeirra laun eru lægst í sveitum, þar sem starfið er í sjálfu sjer afskaplega lítið, eins og hv. 4. landsk. (IHB) tók fram, að í litlum umdæmum væru lítil laun. Það er eðlilegt, að lítil laun sjeu goldin fyrir lítið starf.

Mjer finst nefndin hafa litið nokkuð einhliða á þetta, en þó verð jeg að segja, að hún hefir fært sumt til bóta frá því, sem var í frv., því þar er ekki talað um minni launahækkun en helming í sveitaumdæmum. Nefndin lætur sjer þó nægja að bæta 1/3 við.

Jeg skal taka það fram, að jeg tel fylstu þörf, að einhverju sje bætt við það, sem nú er. En jeg hygg það hefði verið skynsamlegast af nefndinni að fara ekki svona langt.

Jeg hefði kannske minst eitthvað á þessa kynlegu frumvarps-grein, sem nefndin hefir sett þarna saman, en þarf þess ekki, þar sem hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefir bent á gallana á henni.

Jeg man ekki, hvort jeg heyrði, þegar hv. frsm. (HSteins) mælti fyrir þeirri brtt. nefndarinnar, að launin væru borguð eins í bæjum og sveitum. Þessi breyting vil jeg halda að sje alveg ranglát. Að þetta fyrirkomulag er svo nú, stafar af því, að miklu fleiri yfirsetukonur þarf að tiltölu við fólksfjölda í sveitahjeruðum, og yrði kostnaðurinn því miklu þyngri á þeim en í bæjunum. Það eru sannarlega ekki svo margir gjaldendur í sýslusjóðina fyrir hverja yfirsetukonu. Jeg vil, fyrir mitt leyti, mæla á móti þeirri brtt., og held því fram, að hún sje hreint og beint ósanngjörn.

Það hefði ekkert verið verra, þótt hv. nefnd hefði gert hv. deild það greinilegra, þar sem hún segir, að yfirsetukvennaumdæmi sjeu mjög víða óskipuð í landinu, aðallega vegna lágra launa. Jeg hefði kunnað betur við að sjá, hve víða þetta er svo, og það hefði verið gerð grein fyrir, hvort það væri beint af því, að illa sje launað. Jeg segi þetta blátt áfram, því þarna finst mjer ekki vera gengið vel frá ástæðum nefndarinnar. Mjer er kunnugt um það, að sumstaðar á landinu er alls ekki kvartað undan því, að þær sjeu ekki nógu margar. Jeg segi ekki, að nefndin hafi hjer ekkert fyrir sjer, skýrslu frá landlækni eða eitthvað slíkt, en það væri þó rjettara að taka það fram.

Í sjálfu sjer er engin ósanngirni í því að hafa launin lægri í sveitum en kaupstöðum, þar sem víða eru örfáar barnsfæðingar á ári. Yfirsetukonur geta hjer um bil gert hvað sem er þess vegna, ef þær þurfa ekki að taka á móti nema 4–6 börnum á ári, eins og talið er meðaltal sumstaðar. En mjer finst nefndin ekki hafa gert sjer það nægilega ljóst, að það geta aðrir komið á eftir með hækkunarkröfur fyrir ýmsa launaflokka, sem erfitt yrði þá að taka ekki til greina.