10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í C-deild Alþingistíðinda. (2190)

40. mál, yfirsetukvennalög

Pjetur Þórðarson:

Þegar jeg varð þess var, að þetta mál var á ferðinni í Ed., hjelt jeg, að þingið mundi haga því svo, að jeg gæti orðið því fylgjandi. Þessi hugsun mín hefir farið á annan veg, og málið liggur nú svo fyrir, að jeg get ekki verið því meðmæltur. Aðalástæðan er sú sama og fram kom hjá hv. frsm. minni hl. (HStef), sem sje sú, að hjer er gert ráð fyrir miklu meiri útgjöldum fyrir sýslusjóðina en mjer þykir hæfilegt, sem þó er ekki hægt að bera undir hlutaðeigandi aðilja. Mjer hefði þótt sanngjarnt, að gengið yrði svo frá máli þessu, að trygt væri, að ljósmæður fengju fulla dýrtíðaruppbót, en mjer þykir of langt gengið að fara að gera frekari breytingar. Hvort hægt er að koma því við á þann hátt, sem hv. frsm. minni hl. (HStef) hefir lagt til, og hvort það er trygging fyrir ljósmæður, er mjer ekki nógu ljóst, og hefði jeg því heldur kosið, að þetta hefði komið fram í brtt. við frv. Hvort óttinn fyrir því, hvernig fara muni, ef mál þetta nær ekki fram að ganga, er á rökum bygður, skal jeg ekki um segja, en heldur þótti mjer hv. frsm. meiri hlutans (MJ) taka djúpt í árinni um afleiðingarnar. Jeg hirði ekki um að endurtaka spádóma hans, en jeg hygg, að flestir þdm, verði mjer sammála um, að svo dökkum augum er óþarft að líta á afleiðingarnar, sem fram kom hjá hv. frsm. (MJ). Jeg hefði viljað heyra frá hæstv. stjórn, hvort ekkert væri því til fyrirstöðu, sem hv. frsm. minni hl. (HStef) var að tala um, að hún gæti trygt yfirsetukonum dýrtíðaruppbót á ríkissjóðshluta launa þeirra; án þess að breyting verði gerð á lögunum. Það má kannske virða það til vorkunnar, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi öðru að sinna og megi ekki vera að gefa þessu gaum.

En auk þess, sem þetta er aðalatriði, að mjer þykir frv. hafa gengið of langt í að breyta launakjörum þessara starfsmanna ríkisins, þá er líka annar galli á því sjálfu að formi, það er það, að þegar 3. gr. var sett inn í frv. í hv. Ed., þá var einnig jafnsjálfsagt að fella 2. og 3. gr. laganna frá 1919 inn í gömlu lögin, svo að þau yrðu öll á einum stað. Jeg veit, að þetta mætti laga til 3. umr., ef frv. kemst svo langt, og vona jeg, að það verði gert.