21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (2203)

83. mál, útrýming fjárkláða

Hákon Kristófersson:

Það stendur svo á, þótt frv. þetta komi frá landbn., að jeg hefi nokkra sjerstöðu innan nefndarinnar. Skal jeg strax lýsa því yfir, að jeg er alveg sammála hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) og hv. þm. Str. (TrÞ). Og þótt jeg beri mikla virðingu fyrir dýralækni, held jeg, að hann geti því farið villur vegar. Skal jeg nefna eitt dæmi: Nú slær hann því föstu, að alt fje skuli baða þrisvar, en í bæklingi frá í haust segir hann, að til fullrar 1ækningar þurfi 2 baðanir. Það ætti öllum að vera ljóst, að þetta getur eigi farið saman, og annaðhvort hlýtur að vera rangt hjá þeim góða manni.

Jeg er alveg sammála hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) um, að þetta kemur hart niður á ýmsum hjeruðum landsins, sem aldrei hafa fengið kláðavott, eins og t, d. hans kjördæmi og vesturhluta míns kjördæmis. Þar er útigangur ágætur á sumum jörðum, en ákaflega lítið til af heyi, er hægt væri að gefa fjenu, og það sýnir, að hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) muni vera kunnugri einhverju öðru en landbúnaði, ef hann veit ekki, að þriggja vikna eða mánaðar innigjöf á útigangsjörðum er talsverðar búsifjar. Það er svo langur tími, að þá mundi heyið farið, sem ætlað var til vetrarins, það verður því að telja það vandræði, að hverfa að því ráði að stofna til útrýmingarböðunar á þennan hátt, sem gert er ráð fyrir. Það teldi jeg heldur hið eina rjetta í málinu að framfylgja hinum venjulegu þrifaböðunum mjög stranglega í 3–4 ár, og sjá þá að því loknu, hvort ekki skipaðist til hins betra.

Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) sagði, að það væri leiðinleg aðdróttun til bænda, að þeim væri eigi treystandi til að framkvæma baðanirnar, svo sem fyrir verði mælt. En jeg vil segja, að þetta sje ekki aðdróttun, heldur sannleikur, sorglegur sannleikur. Það kemur fyrir í öllum stjettum, að áhugi manna og skyldurækni er misjöfn, og hygg jeg, að það sje alveg eins í þeirri stjett, sem hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) er talinn til, eins og í bændastjettinni.

Svo að jeg snúi mjer aftur að útiganginum, þá held jeg, að óhætt sje að slá því föstu, að það fje, sem vant er útigangi, yrði kulvíst við baðanirnar og þollaust til útigangs, og þyrfti því langa innigjöf, Mjer skilst, að gert sje ráð fyrir í 3. gr. frv., að skoðun fari fram eftir þessar baðanir, til þess að sjá, hvort kláði kynni nú enn að leynast einhversstaðar. En ef treysta má þessari skoðun, hví má þá ekki eins treysta skoðun þeirri, sem fram fer eftir hina árlegu böðun? Það væri nógu fróðlegt að vita, hvernig stendur á því, að þessi skoðun á að verða svo ógurlega áreiðanleg, gagnstætt öllum öðrum.

Jeg er alveg ósammála hæstv. atvrh. (MG), að litið sje leggjandi upp úr hinum árlegu þrifaböðunum, Jeg held þvert á móti, að þær sjeu mjög mikils virði og alveg fullnægjandi, ef góð skoðun fer fram, því að þá er baðað aftur, ef nokkur vottur finst af kláða.

Það er alveg rjett, sem haldið hefir verið fram, að kláði er nú allvíða, en hitt hygg jeg að sje nokkurt vafamál, hvort hann sje nú í uppsiglingu. Jeg held þvert á móti. Fyrir nokkrum árum komu t. d. brjef frá Dalasýslu til þm. þeirra, með tugum undirskrifta, og skoruðu á hann að útvega lagalega hjálp á móti kláðanum. það mun hafa stafað af því, að upphaflega var illa baðað í Dalasýslu. — Til Barðastrandarsýslu barst kláðinn fyrir fám árum úr Dölum. En hann er ekki enn kominn vestur fyrir Vatnsdalsá, svo menn viti.

Jeg er alveg sammála vini mínum, hv. þm. Str. (TrÞ), um það, að baðanir Myklestads hafa ekki verið eintómur hjegómi, heldur mikils virði. Einnig er jeg þess viss, að kláðanum má útrýma með hinum árlegu böðunum, ef rjett er að farið, eins og jeg hefi tekið fram. Þótt það hafi ekki orðið enn, sannar það lítið, því að frá því að kláðalögin voru sett, 1914, og til 1920, voru baðanirnar víða vanræktar, og málið lá í dvala. (ÁJ: það er þá hreppstjórunum að kenna). Nei, ónei; Alþingi fól ekki þeim þetta verk, heldur fjekk það í hendur hreppsnefndunum, og áttu þær aleinar að sjá um framkvæmdir, en því miður hafa þær margar hverjar látið málið afskiftalítið. Það má vel vera, að hreppstjórum hafi borið að skifta sjer frekar af málinu en þeir hafa gert, en jeg held þó, að tæplega sje rjett að kasta sökinni á þá, nema ef vera mætti af því, að þeir hafi ekki kært hlutaðeigendur fyrir vanrækslu á framkvæmd baðananna. (BL: Lögreglustjórarnir hafa yfirumsjónina). Það er nú svo. Og þó að jeg efist ekki um ágæti þessa hv. þm. (BL), er jeg þó í nokkrum vafa um það, hvort hann mundi fara höndum um hverja kláðakind í sínu umdæmi, ef hann væri lögreglustjóri einhversstaðar.