26.04.1926
Neðri deild: 62. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í C-deild Alþingistíðinda. (2228)

83. mál, útrýming fjárkláða

Þorleifur Jónsson:

Jeg þarf í raun og veru ekki að segja margt, því það hefir ekki verið ráðist mjög óþyrmilega eða með miklum rökum að þessum tillögum okkar. Hæstv. atvrh. (MG) hefir að vísu mælt nokkuð á móti þeim, en jeg var svo óheppinn að vera ekki viðstaddur, þegar hann hóf ræðu sína. Jeg heyrði sagt, að hann hafi talið óheppilegt, að skoðun færi fram í ársbyrjun, betra að vorinu. Jeg skal játa það, að heppilegast væri, að skoðun og baðanir gætu farið fram að vorinu, þegar fje er gengið úr ullu. En það er svo, að þá er ekki hægt að baða eða skoða vegna þess, að fjeð er farið af húsi og alls ekki hægt að ná í hverja kind, langt frá því. þess vegna verður þetta að fara fram meðan fjeð er alt á húsi.

Svo taldi hæstv. atvrh. (MG) skoðunina handahófsverk, sem ekki væri á að byggja. Jeg held, að fyr og síðar í kláðamálinu hafi menn reitt sig á skoðun. Jeg man eftir, að á næstu 3–4 árum eftir Myklestadsbaðanirnar var fyrirskipuð skoðun um alt land. Jeg held þá hafi fyrst orðið vart við kláðavott, einmitt við slíkar skoðanir.

Hæstv. atvrh. (MG) viðurkendi, að ef til vill væri nokkuð hrapað að því að koma þessum lögum í gegn, og hefði kannske verið heppilegra að safna skýrslum til næsta þings um útbreiðslu kláðans. Jeg er honum samdóma, en jeg held, að slíkar skýrslur fáist ekki nema fram fari almenn kláðaskoðun á öllu landinu.

Jeg skal víkja að því, sem hv. frsm. (AJ) sagði um útbreiðslu kláðans. Við seinustu umr. kvaðst hann ekki hafa yngri skýrslur en frá 1911, en nú sagðist hann hafa aflað sjer upplýsinga frá 1922, að þá sje kláðinn í 13 sýslum. Í morgun fór jeg til skrifstofustjóra atvinnumáladeildar stjórnarráðsins og spurði, hvað væri nýjast í þessu máli. Nú í vetur kvað hann það upplýst, að kláði hefði komið upp í Dalasýslu, Austur-Barðastrandarsýslu á einum bæ eða svo, Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu. Einnig mun kláða hafa orðið vart nýlega í Borgarfirði. Þetta eru þá 5 sýslur, sem kláða hefir orðið vart í í vetur. Ef svo væri nú, að kláði sje ekki í fleiri sýslum í vetur, þá sýnir það sig, að honum hefir verið útrýmt í mörgum sýslum síðan 1922. Finst mjer þá, að það bendi til þess, að það megi halda kláðanum mjög mikið niðri með þeirri löggjöf, sem nú gildir.

Það var dálítill misskilningur hjá hv. frsm. (ÁJ), þar sem hann kvað mig hafa sagt, að jeg hefði trú á, að útrýma mætti með einni böðun, en hefði ekki trú á, að það tækist með tveimur. Jeg sagði, að eftir þeim lögum, sem við höfum nú frá 1901, þá mætti halda kláðanum það niðri, að ekki yrði til skaða.

En hins vegar teldi jeg ekki hægt að ábyrgjast, jafnvel þótt hafnar yrðu útrýmingarbaðanir, að kláðanum yrði útrýmt algerlega af landinu.

Mjer virðist eftir þeim skýrslum, sem liggja fyrir, að ekki verði vitað greinilega, hvað kláðinn er útbreiddur, og þess vegna með öllu rangt að fara nú að fyrirskipa allsherjar útrýmingarbað fyr en búið er að fá góðar upplýsingar í þessu máli.

Þá er það, hvort skoðunin sje ábyggileg. Jeg hefi tekið það fram, að oft áður hafa skoðanir verið fyrirskipaðar til þess að fá vitneskju um, hvort kláði sje eða hvað mikill, Og jeg vil minna á það, sem kemur fram í frv. sjálfrar landbúnaðarnefndar um þetta atriði. Þar segir: Hver sá, er hefir fje á fóðrum, leggur ókeypis til nægilega aðstoð við skoðun og böðun þess. Auðsjeð, að hún ætlast til skoðunar á eftir böðun. En ef menn mega byggja á skoðun á eftir böðun, þá hlýtur auðvitað að mega byggja á skoðun á undan böðun. Þessi till. okkar ætti því ekki að vera eins fráleit eins og sumum virðist.

Ef það kemur nú upp við skoðanirnar, að mikil brögð eru að fjárkláðanum, ef hann er í flestum sýslum lands eins og 1922, þá er sennilegt, að atvrh. (MG) sæi sjer ekki fært annað en að hefja útrýmingarbaðanir í samráði við dýralækni. En ef það sýndi sig, að hann væri aðeins í fáum sýslum, þá virðist það hreinasti óþarfi. Þá mætti halda sig við núgildandi lagafyrirmæli til þess að halda kláðanum í skefjum eða jafnvel bæla hann niður með öllu.

Þá hafði hæstv. atvrh. (MG) talað um, hvað jeg hefði átt við, þegar jeg nefndi svæði, sem ekki þyrfti að baða á. Jeg á auðvitað við þau svæði, sem kláðinn hefir ekki verið á. Jeg tók fram, að það gæti verið á stórum svæðum, jafnvel í heilum sýslum. Samkvæmt skýrslum frá 1922 er t. d. enginn kláði í Skaftafellssýslu. Hæstv. atvrh. (MG) tók fram, að kláðinn væri mikil plága, og er jeg honum þar fullkomlega samdóma. Það er afleitt, ef kláðinn magnast, og þessvegna þarf að hefjast handa til að útrýma honum, þar sem hann er. En það eru því miður til fleiri dýrasjúkdómar, eins og t. d. lungnaormasýki, sem herjar á sauðfje og gerir stórkostlegt tjón. Væri mjög æskilegt, ef hægt væri að finna ráð til að stemma stigu fyrir slíkum vágest. Hygg jeg, að hún sje engu betri en fjárkláðinn.

Þá held jeg, að jeg þurfi ekki að taka fleira fram. Skynsamlegast held jeg að verði það, að kynna sjer rækilega, hvar og hversu magnaður kláðinn er, áður en farið er að baða.