07.05.1926
Neðri deild: 73. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. fyrri kaflans (Þórarinn Jónsson):

Jeg get í rauninni fallið frá orðinu, því að jeg vil ekki að óþörfu lengja umræðurnar mikið. Jeg býst við, að niðurstaðan verði á sama veg hvort sem er. Mjer kom nú ekki á óvart, þótt einhverjir þm. væru óánægðir, og þá sjerstaklega þeir, sem hafa orðið fyrir niðurskurði. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hóf máls á því, að átelja nefndina fyrir það að beygja sig fyrir Ed. og ganga að fjárlögunum óbreyttum og taldi slíkt óþinglegt. En er hann athugar þetta rólega, þá sjer hann, að fjvn. hefir ekki lagt til að beygja sig, heldur aðeins að firra ríkissjóð útgjöldum, með því að koma í veg fyrir, að tekjuhalli fjárlaganna verði hærri. Hann áfrýjaði máli sínu til deildarinnar, en það hafa ekki nema tveir hv. þm. kvartað, svo mikill meiri hluti deildarinnar er samdóma nefndinni. Ekki er hægt að segja, að þetta sje óþinglegt. og Nd. hefir gert þetta áður, fyrir 4–5 árum. Það er nú svo, að þó þessi deild sje mannfleiri og ætti því frekar að hafa umsjón með fjármálum en Ed., þá er því ekki að neita, að í Ed. sitja landskjörnir þm., kosnir af hinum eldri og reyndari kjósendum, og munu menn því ætlast til, að þeir sjái um, að gjaldþoli ríkisins sje ekki ofboðið. En hvað sem um þetta er, þá er það aukaatriði og kom ekki til greina frá sjónarmiði nefndarinnar.

Þá var önnur ástæða, sem hv. þm. N.-Þ. (BSv) kom fram með, að þetta mundi vera gert til þess að flýta þinginu. Jeg hefi ekki heyrt þetta fyr og veit ekki, hvaðan það er komið, en slíkt er á engum rökum bygt.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, að fjvn. hefði trygt sjer atkvæði í flokkunum. En slíkt er með öllu tilhæfulaust. Hún hefir ekkert gert annað en bera fram þessa till. og skotið henni til vitsmuna hv. deildarmanna.

Út í einstök atriði ætla jeg ekki að fara, enda álít jeg frekari umr. litla þýðingu hafa og vænti, að bráðlega komi að atkvæðagreiðslu.