06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í C-deild Alþingistíðinda. (2309)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Frsm. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg hafði búist við því, að aðrir tækju til máls á undan mjer, og ef hv. frsm. meiri hl. (JAJ) vildi tala nú, sparaði það mjer að tala aftur. Mjer þykir einkennilegt, ef hv. frsm. meiri hl. ætlar ekki að segja meira í þessu máli. Hæstv. fjrh. (JÞ) talaði um, að upplýsingar ættu eftir að koma í málinu frá þeim, Jeg á og eftir að fá upplýsingar frá hæstv. fjrh. (JÞ) áður en atkvæði falla um málið. Jeg geri ráð fyrir því, að meiri hl. segi við hæstv. ráðh. (JÞ), ef hann verður tregur til svara, vegna óvissu embættisins: Við gerum ráð fyrir, að ráðh. (JÞ) sitji til næsta hausts, og að dagskráin verði samþykt. Þá er spurningin: Hvað myndi hann gera? Hann hefir áður lent í þessum vanda og ætti að vera ljett um svar.

Hæstv. ráðh. (JÞ) hjelt því fram, að verknaðurinn sje hinn sami, þegar stýft sje, eins og þegar á miðöldunum var blandað saman gulli og eir. Þetta kallaði hann svik. En hjer er tvennu óskildu jafnað saman. Í þá daga var örðugt fyrir almenning að átta sig á gildi málmpeninga og blöndunarhlutföllum, og þurfti hálærða menn og víxlara til þess að ganga úr skugga um, að ekki væru svik í tafli. En nú geta allir, um leið og þeir taka við seðli, vitað, hvaða gullgildi hann hefir, og menn eru frjálsir að því, hvort þeir vilja eiga hann lengur eða skemur, vegna áhættunnar. Þeir hafa alla þekkingu á verðmæti seðilsins og þeim breytingum, sem á því kann að verða, — og er því ómögulegt að tala um, að þeir sjeu sviknir. Ef um svik væri að ræða, þá er þegar búið að fremja þau, en það var þegar innlausnarskyldan var upphafin, og nú orðið er ómögulegt að bæta þeim, sem þá voru „sviknir“ skaða sinn. Skaðabætur koma ekki í hlut hinna rjettu manna, við hækkun krónunnar.

Hæstv. fjrh. (JÞ) kvaðst ekki hafa gefið út seðla, sem væru óinnleysanlegir. Hann gerir það þó samkvæmt lögum frá Alþingi. Ef hann teldi það rangt og sviksamlegt, þá hefði hann komið fram með yfirlýsingu um, að þingið yrði að vera við því búið, að innleysa þurfi þessa seðla í „pari“. Jeg skal ekki halda því fram, að þetta beri vott um, að hæstv. fjrh. (JÞ) sje deigur hækkunarmaður. En það ber vott um, að úr því að hann hefir enga athugasemd gert um þetta atriði, þá er það af því, að hann í rauninni telur innlausnarskylduna aukaatriði fyrir almenning, og til þess eins gerða, að vera aðhald að seðlaútgáfunni. Slík seðlaútgáfa er undir öllum kringumstæðum frávik frá hinni miklu áherslu, sem hæstv. ráðh. (JÞ) leggur nú á gullinnlausnina almennings vegna.

Hæstv. fjrh. gerir mikið úr því, hve rjettlætið sje lítið í þessum jarðneska táradal og vill láta sjer nægja að tryggja mönnum það, að eignir, sem þeir hefðu fengið á löglegan og heiðarlegan hátt, yrðu ekki frá þeim teknar. Þetta er að vísu gott og blessað, en þó er nú svo, að frá þessu hefir oft verið vikið, þegar söfnunin er orðin of mikil annarsvegar og örbirgðin hinum megin. Þegar munurinn er orðinn of mikill, grípur rjettlætið í taumana, og verða þá þeir, sem sjerrjettindanna njóta, að gefa upp nokkuð af hlunnindum sínum eða eiga byltingu á hættu. Svo var það í Róm og á Frakklandi á dögum stjórnarbyltingarinnar miklu. En ýmsar þjóðir hafa komist hjá byltingu með því að vera ekki alt of harðar á þeirri meginreglu, sem ráðherrann gaf. Jeg nefni þetta ekki af því, að það hafi þýðingu fyrir okkur. Við erum bændaþjóð og megum sæmilega una við rjettlætið í okkar fjelagslífi og þurfum vart að óttast byltingar, sem af auðsöfnun og örbirgð leiða, og komumst hjá því harðhenta rjettlæti, sem byltingum er samfara. En jeg nefndi þetta af því, að hækkunarpólitík hæstv. ráðherra er í sjálfu sjer bylting. Aðrar byltingar eru gerðar til þess að skapa meira rjettlæti. En sú bylting, sem hækkunarstefnan felur í sjer, er ekki gerð til þess að skapa rjettlæti, heldur til þess að auka ranglæti og til þess að fullnægja dauðum lagabókstaf og rjettlætistilfinning þeirra manna, sem heldur vilja sjá himin og jörð forganga en að einn stafkrókur lögmálsins líði undir lok. Svona er það, og jeg hefði svarið fyrir það í fyrra, þegar við „byltingamennirnir“ í Framsóknarflokknum ætluðum að steypa þjóðskipulaginu með því að verja tóbakseinkasöluna, — eins og hv. andstæðingar okkar sumir hjeldu fram —, að við mundum standa hjer eftir eitt ár og verja þjóðskipulagið gegn fjármálabyltingu hækkunarmanna. Það þýðir ekki að einblína á það, að skila eigi seðlamagninu í gulli og undir því eigi almenningur alt. Því að menn miða ekki við gull, heldur gæði. Og þau gæði, sem menn fá fyrir sama seðlamagn og áður, eru 13 minni, þótt í gullverði sje. Gullið hefir fallið í verði í heiminum, og stórveldin halda verði þess sjálfrátt niðri til að komast hjá „deflation“. Menn fá því ekki greidda til fulls innstæðu, sem til var orðin fyrir stríð, þó krónan verði hækkuð. Gullið gefur ekki fullkomið rjettlæti þessum fáu innstæðum, sem rjett hafa á sjer. Í öðru lagi byggir þessi fullyrðing, að skila beri í gulli þeim innstæðum sem menn eiga, á þeirri kröfu, að gullið falli í skaut hinna sömu manna, sem áttu þær, þegar er þær fjellu í verði, því að annars væri engu rjettlæti fullnægt. En það rjettlæti fæst ekki með hækkun, því að í flestum tilfellum yrði með hækkuninni öðrum skilað fjármununum en þeim, sem þeir hafa verið teknir frá; margir, sem innstæðu áttu, þegar þær voru að falla í verði, hafa tapað öllu, sem þeir áttu, sumir eytt því og aðrir dánir. Það er ekki hægt að skila þeim aftur með hækkuninni, sem tekið hefir verið með lækkuninni. Hækkunarágóðinn lendir í alt annara manna vösum. Þetta er að hengja bakara fyrir smið.

Jeg ætla ekki að þrátta frekar um það við hæstv. fjrh. (JÞ), hvor okkar noti „dýrtíð“ í rjettari merkingu. Hann nefndi dæmi, sem sannar mitt mál, því að þegar verðlækkunin varð á 16. öldinni vegna gull- og silfurstraumsins frá Ameríku, voru það peningarnir, sem byrjuðu að lækka í verði, en kaupið kom fyrst á eftir og hækkaði að sama skapi. En þetta dæmi sannar mitt mál, að alla 16. öldina var dýrtíð, þ. e. hlutfallið milli kaups og verðlags var óhagstætt. Í sambandi við þessa staðreynd má geta þess, að menn þurfa ekki að óttast, þó verðhækkunin nú verði varanleg, því að þá kom einhver hin stærsta verðhækkun, sem sögur fara af. — — —*

Það má líka benda á þýsku stríðin í þessu sambandi. Þau gerðu Dani ekki svartsýna, heldur bjartsýna. Þau sköpuðu framtak og framfarir á öllum sviðum og gerðu Dani að öndvegisþjóð heimsins í búnaði. Gengishækkunin þar á fyrri hluta 19. aldar hafði aftur ekki í för með sjer örðugleika, sem slær inn og skapa dáð og dug, atorku og eldmóð. Erfiðleikar hækkunarinnar valda svartsýni og deyfð, eins og hæstv. fjrh. hefir lýst í „Lággengi“.

Jeg get ekki tekið undir það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að 1924 hefði verið tekin ákveðin stefna í gengismálinu, sú, að hækka krónuna. Þá var svo ástatt, að lækkunin var orðin svo mikil, að áður en stöðva bæri gengið, þurfti að hækka það nokkuð, svo að það kæmist í samræmi við verðlagið. Verðlagið lagaði sig aldrei fullkomlega eftir genginu eins og það var lægst. Það, sem gert var 1924, var ekkert annað en að stöðva á brautinni niður á við. En 1925 vildu menn hægfara hækkun eða festingu, Og hæstv. fjrh. hefir lýst yfir því, sem skoðun sinni, að nú bljesi byrlegar meðal fjármálamanna fyrir hraðfara hækkun en hægfara. En fyrst nú hægfara hækkunar möguleikinn er úr sögunni, þá er aðeins hinn möguleikinn, festingin, eftir af þeim tveimur, sem gert var ráð fyrir á síðasta þingi. Hafi því verið tekin nokkur stefna í gengismálinu á Alþingi, þá var það sú, að halda genginu föstu, og hækka það ekki.

*Óleiðrjettanlegur kafli frá hendi skrifarans.