06.05.1926
Neðri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í C-deild Alþingistíðinda. (2316)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Tryggvi Þórhallsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) fer ekki með rjett mál, þar sem hann heldur því fram, að hans aðgerðir hafi fyrst og fremst miðað að því að halda í hemilinn á hækkun krónunnar. Hæstv. ráðh. á sök á því, að þessi mikla hækkun hófst í haust, þegar hann neitaði Íslandsbanka um styrk til þess að kaupa erlendan gjaldeyri.

Út af hinu, sem okkur hefir farið á milli um lánin, vík jeg ekki frá því, að mjer er annara um þann skuldunaut, sem varið hefir fjenu til jarðræktar. En jeg vil ekki heldur láta fremja það ranglæti gagnvart hinum, sem skulda vegna verslunarreksturs, að þeir sjeu látnir borga miklu dýrari krónur en þeir fengu.