10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í C-deild Alþingistíðinda. (2337)

39. mál, stöðvun á verðgildi íslenskra peninga

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. þm. Str. (TrÞ) spurði um meira en jeg get eiginlega svarað. — Hann spurði fyrst um, hvað stjórnin mundi leggja í dagskrána eða hvaða heimild um aðhald fælist í henni. Jeg verð þá að segja það, að alment tekið, álit jeg ekki, að svona dagskrá eða till. geti falið í sjer heimild fyrir stjórnina að taka til ríkissjóðsins. Með slíkri dagskrá er ekki annað gert en að láta í ljós óskir deildarinnar. Verður svo stjórnin að ráða það við sig sjálf, hve langt hún gengur í því að nota ríkissjóðinn og verða við slíkum óskum. En það verður að meta eftir kringumstæðunum á hverjum tíma, sem geta cg verið alt aðrar en þær, sem deildin hafði fyrir augum.

Jeg hefi lýst því yfir, að jeg get tekið við dagskránni, þar sem hún felur í sjer það, sem rjettast er og líklegast eins og nú stendur, sem sje að reyna að halda genginu föstu fyrst um sinn. Jeg ætla ekki að gera frekari grein fyrir þessu nú. Nú er verðlagið, sjerstaklega innlenda verðlagið, ekki í samræmi við gengið, en það mun hafa aukna erfiðleika í för með sjer fyrir atvinnuvegina, ef krónan hækkar meðan á þessu ósamræmi stendur. Jeg get ekki gefið ákveðið svar um það, hvort stjórnin muni nota lánstraust ríkissjóðs til þess að hjálpa bönkunum eða taka lán. Það fer alt eftir því, hvernig ástandið verður. En eftir afstöðu deildarinnar eða Framsóknarflokksins til þessa máls, þarf stjórnin ekki að gera ráð fyrir hirtingu úr þeirri átt, þótt hún taki til þess, sem hún hefir yfir að ráða, til að koma í veg fyrir, að krónan hækki. (TrÞ: Gerir hæstv. fjrh. (JÞ) ráð fyrir, að slíkt geti fyrir komið?). Jeg geri aðeins ráð fyrir öllum möguleikum. Jeg hefi sýnt fram á, að ástandið felur ekki í sjer neina bendingu um, að krónan muni sýna tilhneigingu til hækkunar á þessu ári.

Hvað viðvíkur orðalagi dagskrárinnar „veruleg röskun“, þá er það óákveðið. Þó má ekki skilja það svo, sem það sje svo rúmt, að keppa megi að viðlíka hækkun og á árinu sem leið. Jeg get þessa aðeins af því, að hv. þm. Str. (TrÞ) var að tala um það. Jeg hefi ekki fundið þetta upp hjá sjálfum mjer. Jeg skal í þessu sambandi láta þess getið, að jeg hefi ekkert á móti því, að brtt. hv. 2. þm. Rang. (KlJ) verði samþ. Jeg álít, að þá sje látið í ljós, að gengið eigi að haldast. En þó að jeg eigi sjálfur þær sömu óskir, skal jeg ekki ábyrgjast, að þær rætist, hvað sem fyrir kann að koma. Jeg get ekki sjeð, að það sje rjett hjá hv. þm. Str. (TrJ), að till. stefni eigi að þessu marki. Mjer finst það yfirleitt vera almenn ósk viðvíkjandi gengismálinu, að stefna beri að því, að friður fáist eða frestun, svo að verðlagið geti lagað sig eftir hækkuninni. Till. tekur og í þann streng. Þessvegna er síður en svo, að sómi þingsins sje í hættu með þeirri afgreiðslu málsins.