12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í C-deild Alþingistíðinda. (2380)

66. mál, skylda útgerðarmanns til að tryggja fatnað og muni lögskráðs skipverja

Hákon Kristófersson:

Jeg get tekið undir með hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að mér þykir ilt til þess að vita, hvernig hv. sjútvn, hefir snúist í þessu nauðsynjamáli. Mig og hv. 2. þm. Reykv. greinir ekki á um annað en hver eigi að greiða iðgjöldin. Jeg tel rjettara, að þeir, sem trygðir eru, greiði þau. Mjer hefði þótt það miklu frambærilegra af hv. sjútvn. að koma fram með brtt., heldur en afgreiða þetta mál frá sjer með nál., sem ekki er nema rúm ein lína. Jeg verð að segja, að jeg hefi orðið fyrir miklum vonbrigðum, að jafnmæt nefnd og sjútvn, er, skyldi láta sig henda slíkt sem þetta. Jeg vil nú skjóta því til hv. 2. þm. Reykv. (JBald), hvort honum þyki það nokkur misþyrming á máli þessu, að vísa því til stjórnarinnar að þessu sinni, með ósk um það, að hún leggi frv. þessa efnis fyrir næsta þing. Mun jeg gera þetta að tillögu minni. En eins og jeg gat um áðan, þá finst mjer rjettara, að sjómennirnir greiði sjálfir iðgjöldin. Það hefir verið hlaðið svo miklum útgjöldum á útgerðarmennina, að einhverntíma verður að láta staðar numið í því. Enda er jeg líka viss um, að enginn sjómaður mundi telja slíkt eftir sjer. En í því er jeg algerlega samdóma hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að þessarar tryggingar verður aldrei gætt, nema lagaboð komi til. Þetta frv. virðist svo einfalt, að ekki hefði þurft langan tíma til þess að breyta því, og þá sjerstaklega 2. gr. það hryggir mig stórlega, að þetta mál skuli ekki ná fram að ganga á þessu þingi. En sem sagt, jeg geri það að tillögu minni, að málinu verði vísað til stjórnarinnar, ef hv. flm. hefir ekki á móti því. — Hin mörgu dæmi, sem fyrir hafa komið og það eitt nú nýlega, sýna það best, hve nauðsynlegt er, að tryggingarskylda sje á munum sjómanna.