19.04.1926
Neðri deild: 57. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í C-deild Alþingistíðinda. (2396)

6. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Þess mætti nú vænta, eftir eðli þessa máls, að um það yrðu alllangar umr., því að það er hvorttveggja, að málið er nokkuð yfirgripsmikið, og auk þess ákaflega mikið deilumál. En það ber ýmislegt til, að jeg mun ekki með minni framsögu gefa neitt tilefni til þess, að mjög langar umr. þurfi að verða.

Þetta mál er líklegast að öllu samantöldu eitt hið best undirbúna mál, sem nú liggur fyrir þinginu. Það hefir ýmist verið stjfrv. eða sem þmfrv. á öllum þeim þingum, sem jeg hefi setið á, þó að þau sjeu nú reyndar ekki svo mörg. Og á flestum þessum þingum hefir málið verið talsvert mikið rætt. Auk þess hefir það verið rætt á Stúdentafjelagsfundum, í blaðagreinum og tímaritagreinum, og nú að síðustu hefir farið fram eftirtektarverð deila milli tveggja úr hópi þeirra manna, sem teljast verða allra manna kunnugastir skólanum, nefnilega tveggja yfirkennara við skólann, sem þar standa á öndverðum meiði hvor við annan. Þetta mál hefir því fengið þá meðferð alla, og þar að auki rækilegan undirbúning frá stjórnarinnar hendi, svo að jeg skil ekki, að hjer þurfi miklu við að bæta.

En þar með er þó ekki sagt, að allir hv. þm. og aðrir, er þessu máli fylgja með áhuga, hafi þegar gert sjer ljósa grein fyrir málinu, en það er þá í rauninni einskis að vænta hjer eftir, því að svo mikið er nú búið að fást við þetta mál.

Jeg vil, af því að svo mikið hefir þegar verið rætt um þetta mál, aðeins draga hjer fram örfá aðalatriði, sem mjer virðast vera í þessu máli, en þó eru það engan veginn ný atriði.

Fyrsta atriðið, sem jeg vil benda á, er það, að þeir menn, sem stjórnin fól að undirbúa þetta mál á milli þinga og semja frv. það, er lagt var fyrir þingið 1921, sýndu ljóslega fram á þann tvíverknað, sem væri samfara skiftingu skólans, og nema mundi sem svaraði einu ári fyrir nemandann, ef ætti að halda tvískiftingunni og ná því, sem annars væri hægt að ná á sex árum með óskiftum skóla; það mundi taka hann sjö ár. En jeg skal ekki fara frekar út í þetta, heldur láta það, sem þeir menn hafa sagt, nægja sem svar við því, sem hv. minni hl. mentmn. telur fram undir staflið 2. þar sem þeir hv. þm. telja ekkert á móti því að hafa þessa skiftingu. Það hefir svo oft verið talað um það, í hverju þessi tvíverknaður liggi, að hafa tvo þriggja ára skóla til að ná sama tilgangi og sex ára heill skóli.

Þá er annað atriði, sem jeg vil draga fram, sem altaf hefir stækkað í huga mínum, eftir því sem jeg hefi lengur hugsað um það. Það er um þyngd námsins, hvenær það á að þyngjast og hvenær það á að ljettast, ef það á annað borð er haft misjafnlega þungt. Eins og skólinn nú er, að neðri bekkirnir eru jafnframt gagnfræðaskóli, þá held jeg, að það sje víst óhjákvæmilegt að hafa þá fremur ljetta, því að það er í sjálfu sjer engin ástæða til þess að neyða menn, sem aðeins vilja ganga á þriggja ára gagnfræðaskóla, til að setjast þar að einhverjum óskaplegum bókaþrældómi, og þetta hefir líka reynst svo. Jeg hefi fyrir satt, að þrír neðri bekkirnir sjeu svo ljettir, að fullfrískir námsmenn, sem vilja leggja nokkuð mikið að sjer, myndu í raun og veru geta lokið því námi á tveim árum, ef í það færi. Aftur á móti hefir mjer virst, við að athuga, hvað lesið er í þrem efri bekkjum skólans, að þeir sjeu mjög þungir, Og þetta álít jeg að sje alveg öfugt við það, sem á að vera. Jeg álít, að í neðri bekkjunum eigi einmitt að leggja mesta áherslu á það nám, sem er beint erfiðisverk, að neðri bekkirnir sjeu einmitt rjett valdir til þess að safna í þeim fróðleiksundirstöðu, en svo eigi efri bekkirnir að vera ljettir, svo að nemendurnir geti meira notið sín, ef þeir vilja lesa sjer til einhvers fróðleiks utan hjá skólanámsgreinum, til þess að koma þroskaðri og betur hæfir til háskólans, þar sem þeir svo fá meira frelsi. Mjer virðist einmitt, að í þessu efni komi fram aðalmunurinn á þeim, sem útskrifast hafa frá yngri og eldri skólanum. Það er yfirleitt mikið deilt um það, hvorir sjeu betur að sjer. En eftir að jeg fór að taka eftir þessu, finst mjer einmitt, að munurinn sje aðallega fólginn í því, að stúdentarnir komi nú talsvert meiri bóka-þrælar úr skólanum heldur en þeir voru áður. Og það er aðal-afleiðingin af því, að þeir koma úr miklu aðhaldi, í stað þess, að jeg veit það um marga gáfuðustu og lærðustu menn okkar, að þeir hafa aldrei á æfi sinni tekið eins miklum þroska og þeir tóku í tveimur efstu bekkjum lærða skólans, þegar námið var svo ljett, að þeir gátu vel lært það á einu ári, sem annars var varið tveim árum til. Þá notuðu menn tímann til þess að lesa ýmislegt, sem gagn var að, og komu miklu frjálsari að háskólanámi. Þessi galli held jeg að hafi beinlínis leitt af skiftingu skólans; annaðhvort verða menn nú að hafa þetta svona eða þá að hafa skólann óskiftan, því að jeg get ekki fallist á, að það sje nokkurt vit í því að fara að neyða þá, sem ætla sjer aðeins að taka gagnfræðapróf, til þess að taka á sig þá þjálfun, sem er góð þeim, sem áfram ætla að halda. En sjeu á hinn bóginn neðri bekkirnir hafði svo ljettir, sem rjett er í gagnfræðaskóla, þá verður að herða mjög að efri bekkjunum, til þess að ljúka nauðsynlegu undirbúningsnámi.

Þá er takmörkun á nemendafjölda skólans. Það er að vísu ein af ástæðum hv. minni hl., að ekki verði hægt að takmarka hann með þeirri breytingu, sem hjer er um að ræða, en því verð jeg algerlega að mótmæla, og jeg byggi það á þeirri sögulegu staðreynd, að það var einmitt á þeim tíma, sem breytt var í það horf, sem nú er, að nemendum skólans fjölgaði stórkostlega. Og ef litið er á það, hvort nokkurt orsakasamband sje þar á milli, þá er það sem sagt svo augljóst, að með þessum ljettu gagnfræðabekkjum neðan við skólann er mönnum, eins og einn hv. þm. hefir sagt hjer áður, gert hlaupvítt upp eftir skólanum, og ekki hert að þeim fyr en þeir eru komnir svo langt, að þá er farið að langa til að halda áfram, þó að þeir annars hefðu ekki ætlað sjer það. Það er alkunna, að menn eru oft hálfvolgir um það, hvort þeir ætla sjer að ganga mentabrautina eða ekki, en þegar þeir eru einu sinni komnir inn í námið, búnir að fá „blóðbragð á tunguna“, þá ráða þeir það af við sig að halda áfram með fjelögum sínum. Og ef það er gert mjög auðvelt að halda áfram, þá getur skólinn blátt áfram orðið einskonar gildra til þess að ná mönnum undir stúdentspróf.

Um það, hvort æskilegt sje að hafa miklu fleiri stúdenta heldur en hjer eru eða ekki, eða hvort hjer þurfi fleiri lærða menn en komast í embætti, ætla jeg ekki að fara að ræða hjer, því að jeg held, að eftir öllum okkar högum hjer á landi, geti það ekkert deilumál verið, að það sje ekki heppilegt, að þeir menn, sem ætla sjer í aðrar stöður, ætla sjer að verða kaupmenn, bændur, eða eitthvað annað, fari að eyða fleiri árum í undirbúningsnám undir háskóla. Það er áreiðanlegt, að þeim árum er hægt að verja miklu betur til einhvers annars náms heldur en til þess að verða stúdent eða kandidat. Jeg held einmitt, að með því að gera skólann að óskiftum lærðum skóla aftur, gera neðri bekkina talsvert þunga, og láta það strax vera yfirlýst, að þeir, sem byrja á þessum skóla, það sje eingöngu þeir, sem ætla sjer að komast á enda brautarinnar og vilja verja til þess þeim 12–14 árum, sem það kostar, það mundi draga stórkostlega úr aðsókninni að skólanum.

Svo er það fjórða atriðið, sem jeg vil nefna af breytingum þessum. Það er atriði, sem fyrir mjer er ekkert aðalatriði. Það, sem jeg þegar hefi nefnt um að hafa óskiftan skóla, það er aðalatriðið. Það, sem jeg á við hjer, er það að taka upp aukna kenslu í latínu, en það sjá allir, að það er ekki sjálfsögð afleiðing af hinni, því að það mætti vel gera skólann að óskiftum 6 ára lærðum skóla, án þess að leggja latínuna til grundvallar. En jeg verð að segja það, að latínu-nám vinnur heldur á í huga mínum heldur en hitt, við það að fást lengur við að athuga málið, og það er alls ekki af neinum þráa eða af því, að orustu-hitinn hafi haft nein sannfærandi áhrif á mig um rjettmæti málsins, heldur er það af því, að jeg hefi bæði fyrir mjer sögusögn fjölda ágætra manna frá gamla skólanum og líka að nokkru leyti eðli málsins, fyrir því að latínukenslan er ágætt þroskameðal. Það er mál manna, og það er vitanlega ekki hægt að fara eftir neinu öðru í því efni en umsögn manna, að latínan hafi verið sú námsgrein, sem fjekk þeim nóg til þess að glíma við og varð þeim endanleg þjálfun. En jeg skal ekki orðlengja þetta frekar, jeg vil aðeins minnast lauslega á þrjár helstu mótbárurnar, sem fram hafa komið.

Það hefir verið sagt, að ófært væri að neyða menn til þess að lesa jafn-„ópraktíska“ námsgrein sem latínu. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði einhverntíma, að latína hefði beinlínis verið „praktiskt“ nám áður fyrri, þegar hún gekk á meðal lærðra manna, enda var þá svo sem ekkert annað lært en latína. Og öll undirbúningsmentun gekk út á það, að gera menn svo, að þeir gætu bjargað sjer á meðal lærðra manna, hvar sem þeir komu, og urðu svo að taka sitt sjernám á eftir. Mig minnir, að það sje í Ordinantíu Kristjáns IV., að svo er fyrir mælt, að menn skuli fyrst læra stafrófið, og svo byrja á að lesa latínu.

Það er vitaskuld, að latína er nú ekki „praktiskt“ mál eins og þá var, en það dettur heldur engum manni í hug nú að leggja jafnmikla áherslu á latínu, heldur aðeins það, að gefa latínunni þann tímafjölda, að menn geti orðið það sæmilega að sjer í henni, að hún geti orðið þeim verulegt þroskameðal. Það er nú svo, að hún er ekki orðin „praktisk“ lengur, en jeg held, að það eigi alveg það sama við í andlegum efnum eins og í líkamlegum. Hnefleikamaðurinn æfir sig ekki stöðugt í því að beita hnefunum og sjá; nei, aðalæfing hans liggur í því að hlaupa, og sömuleiðis minnist jeg þess, að knattspyrnukennari, sem kom hingað, hvatti þá, sem lögðu stund á þá íþrótt, til þess að hlaupa stöðugt. Og hvernig er nú þetta? Væri ekki hyggilegra að ganga beint að því verki, sem menn ætla sjer að læra? Hnefleikamanninn að slást og knattspyrnumanninn að erfiða með knöttinn? Nei, það er skilyrðið að gera menn fyrst og fremst vel þjálfaða; svo að þeir geti komist langt í sinni list. Þannig er það og í andlegum skilningi. Þó að menn svo aldrei líti framar í latneska bók, þá er sú fyrirhöfn, sem til hennar fer, margfaldlega endurgoldin, ef hún aðeins reynist gott þroskameðal alment, því fyrirhöfnin við hana skilar sjer þá í öllu öðru, sem maðurinn fæst við. Það er líka dálítið í þessu, sem skilur á milli real-skóla og lærðs skóla, að mínu viti. Real-skóli er svo að segja takmarkið í sjálfu sjer, hann er ekki neinn undirbúningur undir annan skóla. Það, sem þar er numið, er það eitt, sem menn ætla sjer að nema. Aftur á móti er lærður skóli beinlínis undirbúningur undir hærri skóla, og hann hefir því ekki nema að nokkru leyti sinn tilgang í sjálfum sjer, en höfuðtilgangur lærðs skóla er að búa menn undir annan hærri skóla. Þetta gerir verkefni þessara skóla talsvert ólík. Og ef latínan er „ópraktisk“, hvað er þá ekki mikið af námsgreinunum yfirleitt ópraktiskt“? Hvaða gagn hafa t. d. prestar og sýslumenn af þekkingu sinni í náttúrufræði yfirleitt, t. d. jarðfræði og steinafræði? Það má auðvitað segja, að það sje altaf hægt að hafa eitthvert gagn af því, sem lært er, og að minsta kosti ætti það að miða ofurlítið í sömu áttina og latínulærdómurinn, að þroska nemandann. En ekki held jeg, að alment verið haft mikið upp úr náttúrufræðisvísindum. Það má auðvitað segja, að þau sjeu ákaflega þroskandi, en hve margir hafa gagn af því í lífinu á eftir, hvað miklu fleiri en þeir, sem hafa gagn af latínu?

Þá er eitt atriði hjá hv. minni hl., í fylgiskjali II, þar sem talað er um, að sá tími, sem ætlaður er til náms í stærðfræðideild, verði ekki fullnægjandi til þess að geta náð inngöngu á fjöllistaskólann, Jeg álít, að þetta skifti engu, því að til þess að ráða bót á því, þarf ekki annað en að auka tímafjölda þeirra námsgreina, og ef menn ekki vilja tvískifta nema tveimur efstu bekkjunum, þá verður að auka tímafjöldann. En þar að auki hefi jeg sjeð, að mönnum kemur ekki alveg saman um það, hvort þetta sje svo ófullnægjandi.

Þá vil jeg minnast á þriðju ástæðuna og ljúka þannig máli mínu. Það er að mínu áliti raunveruleg ástæða. Ef skólinn hjer verður gerður að óskiftum lærðum skóla, þá vantar okkur gagnfræðaskóla, og það er alveg rjett, að þá er illa sjeð fyrir gagnfræðamentun hjer. Það eru að vísu nokkrir skólar hjer, sem má kalla gagnfræðaskóla, og svo er Flensborgarskólinn hjer í nánd. En þetta er þó alt saman ófullnægjandi. það hlýtur að reka að því, að það verður að sjá betur fyrir gagnfræðanáminu. En undan hverju er þá verið að kvarta? Þeir, sem ekki vilja láta skifta skólanum, þeir segja, að það sje sjeð svo illa fyrir gagnfræðanáminu, og það er þá auðsjeð, að það þarf að koma hjer upp nýjum gagnfræðaskóla, og það þarf meira að segja að koma honum upp á næstu árum, og það alveg án tillits til þess, sem hjer kann að verða gert. Það getur einmitt vel verið, að ef mentaskólinn væri gerður að óskiftum skóla, þá verði það þessu máli til góðs, með því að herða á umbótum í því efni.

Jeg get hugsað mjer opna leið til að leysa þetta mál með hægu móti, og það væri í sambandi við barnaskóla Reykjavíkur. Það á nú að reisa hjer svo stóran skóla, að eigi verður brúk fyrir alt húsið strax. Og meðan verið væri að koma upp húsi fyrir gagnfræðaskóla, mætti fá ljeðar stofur þar. Auk þess má koma upp gagnfræðaskóla ódýrari í sambandi við barnaskólann, enda var í fyrstu gert ráð fyrir því á uppdrætti, að menn settu svona til gamans gagnfræðaskóla við endann á barnaskólanum, og átti að vera innangengt milli þeirra.

Jeg læt svo þetta nægja sem almennar ástæður fyrir því, að meiri hl. nefndarinnar leggur með frv. Og um einstakar brtt. nefndarinnar og einstakar greinar frv. get jeg verið fáorður.

Frv. hefir eftir svo langan tíma, sem það hefir verið á döfinni, fengið gróflega fast snið, sem ekki er mikið haggað, þótt nefndin beri fram fáeinar brtt., svo sem um kenslu í kristnum fræðum og líkams og heilsufræði. Hvorttveggja fanst okkur heyra til almennri mentun. Svo er tekið upp í 2 efstu bekkjunum aukanám, eftir því sem best er við hæfi hvers eins. Hefir það tíðkast í skólum erlendis, sjerstaklega í Þýskalandi, og gefist vel. Hafa skólarnir á skrá sinni sæg af námsgreinum, er menn geta valið um.

Það ræður af líkum, að það er dýrt og erfitt, nema við stóra skóla, að hafa svo mikla kenslukrafta sem þarf. En okkur langar til með þessu að sveigja ofurlítið til fyrir menn í skólanum í þessa átt, þannig, að ef einhver er hneigður fyrir einhverja námsgrein, að hann geti fengið meiri tilsögn í henni heldur en skólinn veitir alment og innan vissra takmarka, í námsgreinum, sem ekki eru kendar í skólanum, t. d. í grísku, því að það er fjarskalegur galli á því fyrir guðfræðinga, að þurfa að byrja á því námi í Háskólanum, jafnhliða heimspeki.

Þá höfum við fært aldurstakmarkið fram um eitt ár, úr 12 í 13. Það verður hver að gera upp við sjálfan sig, hvað hann telur heppilegastan aldur. Það er gott að ýmsu leyti, að koma ungur í skóla, en munur er stór á því, hvað hinir eldri hafa meira gagn af skólavist. Þá fanst okkur með frv. vera gert ráð fyrir því og útilokað, að menn kæmust inn í aðra bekki en fyrsta bekk. Þetta er ófært, því að svo framarlega sem menn hafa næga þekkingu, þá eiga þeir að geta sest í aðra bekki.

Svo er það smávegis breyting, að hafa prófdómara 2 í staðinn fyrir 3. Okkur var sagt, að það hefði tíðkast í seinni tíð og reynst vel.

Þá er brtt. við 8. gr. um það, að skólastjóri í stað skólastjórnar gefi sjerstök frí. Það er þunglamalegt fyrirkomulag, að þurfa að kalla saman kennarafund í hvert skifti, og er best, að rektor ráði því, hvenær frí er gefið.

5. brtt. a, er aðeins til samræmis, og hin brtt. um það, að þeir fastir kennarar, sem hafa miklar stílaleiðrjettingar, skuli fá 1–3 stunda eftirgjöf á skyldustundum á viku. Hefir þetta sjálfsagt fallið úr frv. af misgáningi.

Síðast er svo brtt. um það, að utanbæjarmenn skuli sitja fyrir heimavist. Jeg orðlengi svo ekki frekar, en óska þess, fyrir mína hönd og meiri hl. nefndarinnar, að hv. deild afgreiði frv. og láti þar með málið vera úr sögunni og því skipað á hinn heppilegasta hátt.