29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í C-deild Alþingistíðinda. (2460)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. meiri hl. (Árni Jónsson):

Eins og menn sjá á nál., hefir allshn. ekki orðið á eitt sátt um þetta mál. Við erum þrír í meiri hl., sem leggur til, að frv. verði samþykt með lítilfjörlegum breytingum, en minni hl., háttv. þm. Mýra (PÞ) og þm. Borgf. (PO) leggja aftur á móti til, að það verði felt.

Jeg hefi fátt eitt að bera fram af hálfu meiri hl. á þessu stigi málsins. Býst jeg við, að minni hl. og þeir þm., er bera hjer fram víðtæka brtt., tali sínu máli, og ætla jeg að geyma mjer þangað til að ganga nánar inn á það.

Eins og getið er um í nál. meiri hl., eru tvær aðalbreytingarnar, sem felast í frv. Önnur er sú, að í stað þess, að lögin ná nú aðeins til kaupstaða, sem hafa yfir 1500 íbúa, koma þau, eftir frv. því, er hjer liggur fyrir, til að ná til allra þeirra kaupstaða og kauptúna, er hafa 500 íbúa og þar yfir.

Hin breytingin er fólgin í því, að dansleikar innan fjelaga verði skattskyldir. Er hún komin fram vegna þess, að hjer hafa myndast fjelög, sem hafa ekkert annað markmið en dans, til þess að geta farið í kring um ákvæði laganna.

Lögin um skemtanaskatt komu fyrst fram á þinginu 1918, og í því upphaflega formi náðu þau aðeins til myndasýninga, og voru stíluð gegn kvikmyndahúsunum. En við meðferð málsins breyttist þetta mikið. Víðtækar breytingar voru gerðar á frv., svo að það náði nú til dansskemtana, söngskemtana og leiksýninga. Það er auðsjeð á gangi málsins, að takmark laganna. — að fje þetta renni til ákveðinnar stofnunar, — vakir óljóst fyrir mönnum. Það er að vefjast fyrir þm., til hvers eigi að nota fjeð. Eins og Nd. gekk frá því, átti fje þetta að renna til almennra þarfa, en Ed. fanst rjett, að það gengi til lista og mannúðarstarfsemi. En hugmyndin verður ekki fyllilega skýr, fyr en á þinginu 1923, að hugmyndin um þjóðleikhúsið kemst upp. Þá fyrst var takmarkið orðið ljóst. Menn hjeldu, að bæjarfjelög þau, sem lögin ná til, myndu fljótt nota þenna skattstofn, en svo var ekki. Ekkert bæjarfjelag hagnýtti sjer ákvæði laganna fyr en seint á árinu 1921, eða 3 árum seinna. Og var það Reykjavík og Ísafjörður, sem riðu á vaðið. En síðan þessi skattur var látinn renna í ákveðinn sjóð, held jeg, að kaupstaðirnir hafi alls ekki borið sig illa undan honum. Þess vegna kom mjer á óvart till. sú, sem hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) ber nú fram, ásamt fleirum þm. þó skal jeg ekki ræða um það nú, og ekki fyr en jeg hefi heyrt rök háttv. flm. till. og minni hl.