29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í C-deild Alþingistíðinda. (2464)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jón Baldvinsson:

Jeg játa, að mjer fanst dálítið hart, þegar frv. frá 1923 tók af kaupstöðunum tekjurnar af skemtanskatti, sem þeir voru farnir að nota til ákveðinna framkvæmda hjá sjer. En af því jeg áleit mjög nauðsynlegt að koma upp þjóðleikhúsi, ljet jeg þetta afskiftalítið. Þá varð það ofan á, að skatturinn næði ekki til annara en nú segir í lögunum. Í þessu er dálítið ranglæti, sem frv. það, er nú liggur fyrir, á að bæta úr. Það getur vel verið, að þessi skattur nægi ekki til þess að leikhúsið komist upp á tilsettutn tíma, en þá verður að leita til ríkissjóðs. Það kemur þá á alla landsmenn Sameiginlega að greiða það, sem á vantar.

Brtt. á þskj. 396, sem 7 hv. deildarmenn flytja, fer í þá átt að breyta núgildandi lögum svo, að Reykjavík ein greiði þennan skatt. þeir gátu alveg eins orðað brtt. svo, að í Reykjavík skyldi leggja skatt á o. s. frv., eins og að tala um kaupstaði sem hefðu 4000 íbúa, því það er öllum kunnugt, að enginn kaupstaður hjer, annar en Reykjavík, hefir svo marga íbúa.

Hv. 1. flm. till. (SigurjJ) hefir bent á, að í stað þess að láta aðra kaupstaði landsins borga þennan skatt, megi eins láta ríkissjóð greiða fjeð. Jeg hefi bent á aðra leið til að bæta kaupstöðunum upp þann tekjumissi, er þeir verði fyrir. — Jeg bar fram þá brtt. við fjárlögin, að heimilað væri að greiða nokkra upphæð til kaupstaða og kauptúna, til þess að koma upp elli- og barna-heimilum. Jeg bjóst við, að unnendur þjóðleikhússins mundu ganga inn á þessa till., til þess að friða kaupstaðina, sem eru óánægðir yfir að þurfa að greiða skatt til leikhússins. Kaupstaðirnir hefðu mátt vel við una, ef þeir hefðu fengið þessa uppbót fyrir skemtanaskattinn. —

Jeg mun greiða atkv. með frv. á þskj. 116, en móti till. á þskj. 396.