29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í C-deild Alþingistíðinda. (2466)

63. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Pjetur Ottesen:

Þegar þetta mál var hjer til 1. umr., varð að samkomulagi að ræða það ekki þá. Jeg lít því svo á, að nú sje frekar leyfilegt að fara nokkrum orðum um málið alment, enda hefir hv. frsm. meiri hl. farið inn á þá braut. Jeg ætla aðeins að drepa á gang málsins á undanförnum þingum.

Árið 1918 voru samþykt lög, sem heimiluðu hreppsnefndum og bæjarstjórnum, með reglugerð staðfestri af stjórnarráðinu, að leggja á skemtanaskatt til hrepps- eða bæjarþarfa, og höfðu hreppsnefndir og bæjarstjórnir óskoraðan rjett til að ráðstafa skattinum eftir eigin vild. Samkvæmt þessari heimild var þegar lagður á skemtanaskattur í Reykjavík og víðar. Þó varð það ekki strax, að skemtanaskattur væri tekinn upp utan Reykjavíkur, því menn þurftu nokkurn tíma til að átta sig á þessu nýmæli, en bráðlega rak þó að því, að hann var lagður á í nokkrum kaupstöðum, og nú er hann kominn á ekki óvíða á landinu.

Á Alþingi 1923 kom fram frv. um breytingu á þessum lögum, sem náði samþykki þingsins, og varð að lögum á því ári. Samkvæmt þessum nýju lögum var nú skemtanskatturinn lögfestur í öllum kaupstöðum og kauptúnum á landinu, sem höfðu 1500 íbúa og þar yfir, í stað þess að í upphaflegu lögunum (frá 1918) var hann aðeins heimilaður í þeim kaupstöðum, sem höfðu 2000 íbúa eða fleiri. þá var og svo ákveðið í lögum þessum, að skatturinn skyldi renna í sjerstakan sjóð — þjóðleikhússjóð, — er notast skyldi á sínum tíma til að koma upp þjóðleikhúsi í Reykjavík. — Þessi breyting á lögunum frá 1918 mætti þegar allmikilli mótspyrnu víðsvegar að, og ekki hvað síst frá tveimur fulltrúum Reykjavíkurbæjar á Alþingi og núverandi hæstv. fjrh. (JÞ), (þá háttv. 3. þm. Reykv.), sem benti á mótmæli, sem fram höfðu komið í bæjarstjórn Reykjavíkur gegn þessari breytingu á lögunum. Mótmæli þessi ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hjer upp, þau eru svohljóðandi:

„Bæjarstjórn Reykjavíkur leyfir sjer að vekja athygli Alþingis á því, að ákveðið er með samþykt, staðfestri af ráðuneytinu, að nota skuli skemtanaskattinn í Reykjavík til að koma upp barnahæli og gamalmennahæli. Er slíkra hæla afar mikil þörf, en vansjeð, að unt sje í náinni framtíð að fá fje til framkvæmda, ef skatturinn verður tekinn til annars. — Skorar bæjarstjórnin því á Alþingi að láta heimildarlögin um skemtanaskatt standa óhögguð.“

Mótspyrna þessi var bæði sprottin af því, að menn vildu ekki láta lögbjóða skattinn alment, en aðallega var þó hitt, sem mætti mestri mótspyrnu nær alstaðar frá, þar sem skatturinn var kominn á, — ráðstöfun skattsins til þjóðleikhúss-byggingarinnar. Svo árjettaði núverandi hæstv. fjrh. (JÞ) þessi mótmæli bæjarstjórnar Reykjavíkur með allmiklum þunga, eins og siður þeirra manna er, sem ganga heilir og óskiftir að hverju máli. Í sama strenginn tók þá einnig háttv. 2. þm. Reykv. (JBald).

Þegar fulltrúar Reykjavíkurbæjar rísa öndverðir gegn þessari breytingu, þar sem Reykjavíkurbúar eiga þó öllum öðrum landsmönnum fremur að hafa not af stofnun og starfrækslu þjóðleikhúss í Reykjavík, þá segi jeg, að það sje síst að undra, þó að íbúum annara kaupstaða og kauptúna á landinu þyki það allharkaleg meðferð á sjer af löggjafarvaldinu, að lögbjóða fyrst skemtanaskattinn og hrifsa hann svo af þeim, sem áður var búið að leyfa að nota hann eftir eigin vild; hrifsa hann af þeim, segi jeg, — ekki til almenningsþarfa; — því á það hefðu menn fremur getað fallist, — heldur aðeins handa einum kaupstað á landinu, og það því fremur sem skemtanaskattur í Reykjavík má vel skoðast sem landsskattur, því að þangað streymir fjöldi fólks hvaðanæva af landinu, til skemri eða lengri dvalar; og sækir skemtanir engu síður en Reykjavíkurbúar sjálfir.

Og eimnitt frá sjónarmiði leiklistarinnar sjálfrar verður þetta fyrirkomulag ennþá óeðlilegra og ósanngjarnara, þegar litið er á það, að starfandi leikfjelag er einmitt í þeim kaupstöðum, sem skatturinn hefir verið lagður á, er þannig eiga að greiða skatt af starfsemi sinni til Reykjavíkur. Því var mjög haldið á lofti hjer í þinginu, að skemtanaskatturinn mundi draga úr aðsókn að leiksýningum yfirleitt, — að skatturinn mundi verða til að draga úr leiklistinni, og ef þetta skaðar hjer í Reykjavík, mun það ekki síður verða afleiðingin annarsstaðar í landinu. Enda hefir og reynslan sýnt, að þetta er þannig, því að með þessu er verið að níðast á leiklistinni í öðrum kaupstöðum landsins, til þess að upphefja leiklistina í Reykjavík. Þetta fyrirkomulag hefir því algerlega gagnstæðar afleiðingar við það, sem til var ætlast. Í stað þess að efla leiklistina, dregur það úr henni og hindrar alla framþróun í leiklist, algerlega utan Reykjavíkur, og í öllu landinu yfirleitt.

Frá fjárhagslegu sjónarmiði er þetta einnig jafnósanngjarnt gagnvart kaupstöðum utan Reykjavíkur. Ósanngjarnt að því leyti, að vera að leggja á þá sjerstakan skatt og svifta þá svo öllum notum skattfjárins og rjettinum til að ráðstafa þessu fje.

En þó kastar nú fyrst tólfunum, þegar á að fara að draga öll kauptún og hreppa á landinu, sem hafa 500 íbúa eða fleiri, undir þetta skatta-ok, og gera þá að sjerstökum skattlendum Reykjavíkurbæjar.

Þó að þessi skatt-álagning, eins og henni er hagað, sje vitanlega mjög ranglát gagnvart kaupstöðunum, sem hún hvílir á, þá er þar þó sá munur á, að kaupstaðirnir eru flestir miðstöð í sínum landsfjórðungi, og verður skatturinn þar af leiðandi nokkru almennari en í hinum minni háttar kauptúnum; þar lendir hann nær eingöngu á þeim einum, sem þar búa.

Þegar þessi heimildarlög voru samþykt 1918, og skemtanaskatturinn síðan lagður á samkvæmt þeim, var það gert með hinni brýnu þörf fyrir augum, að afla fjár handa viðkomandi bæjar- eða hreppsfjelagi. Heimildarlögin voru bygð á því, að verið var að leita að, og þarna var álitið, — sem og var, — að væri fundinn nýr og eigi óálitlegur tekjustofn handa bæjar- og hreppafjelögum; en bæjar- og sveitarstjórnir hefir ávalt mjög tilfinnanlega vantað tekjustofn, og þetta var tilraun til að hjálpa þeim til að auka tekjurnar í hlutfalli við útgjöldin. Þetta hefir víða reynst mjög erfitt og það jafnvel þó að ekki hafi verið tekin með í reikninginn önnur en þau útgjöld, sem hreppsfjelögin eru skyld að inna af hendi að landslögum. Eins og nú er ástatt, stynja hreppsfjelögin undir álögum og þungum útgjaldabyrðum, og flestir tekjustofnar þeirra eru svo mylktir í þarfir ríkissjóðs, að ekki er um auðugan garð að gresja eftir handa hreppsfjelögunum sjálfum, til eigin þarfa.

Nú er því svo varið, að hreppa- og bæjarfjelög hafa, auk lögákveðinna útgjalda, og þrátt fyrir örðugan fjárhag og litla getu, ýms framfaramál og ýmsar bráðnauðsynlegar framkvæmdir með höndum, framkvæmdir, sem ýmist eru óhjákvæmilegar til að geta samrýmt atvinnureksturinn breyttum skilyrðum og kringumstæðum, eða framkvæmdir, sem nauðsynlegar eru til að auka og efla framleiðsluna á ýmsan hátt annan. þá hafa og bæði bæjar- og hreppsfjelög oft, auk lögfestra annara gjalda, sem atvinnuhættir og önnur skilyrði skapa þeim, ýms mannúðarfyrirtæki eða því skylda starfsemi með höndum, sem mjög þarf fje til að geta haldið í horfinu.

Jeg verð að segja, að mjer finst það æði hart að gengið, að hrifsa inn þenna tekjustofn, skemtanaskattinn, af þeim hrepps- og sveitarfjelögum, sem hann hafa tekið upp samkvæmt heimildarlögum frá 1918, og leggja á nýjan, og lögbjóða, að hann skuli allur falla til Reykjavíkurbæjar eins saman, því vitanlega veikir þetta gjaldþol viðkomandi hreppa og hefir að sama skapi lamandi áhrif á nauðsynlegar framkvæmdir, sem að einhverju eða öllu leyti eru bygðar á skemtanaskattinum eða óskertu gjaldþoli gjaldþegna viðkomandi hrepps eða bæjarfjelaga. Þetta er næsta háskaleg aðferð, að ráðast þannig á framkvæmdir og framkvæmdamöguleika landsmanna, þeirra, sem búa á þeim stöðum, sem skatturinn á að ná til. Jeg sagði, að með þetta mál hefði verið farið inn á ranga braut á þinginu 1923, með því að gera þannig þá kaupstaði, sem höfðu 1500 íbúa eða fleiri, skattskylda til Reykjavíkurkaupstaðar, og nú er enn bætt gráu ofan á svart með því að færa ranglætið út, er skattskyldan er aukin og færð út til hinna smærri kauptúnanna, alt niður að 500 íbúum. Jeg segi, að það væri síður tiltökumál, þó teflt væri á fremsta hlunn með gjaldþol þjóðarinnar til að losa hana úr skuldum, en þegar farið er að auka álögur á almenningi í öðrum landshlutum aðeins til að hlaða undir og efla aðra einstaka landshluta, t. d. Reykjavík, þá verð jeg að segja, að löggjöfin er færð út fyrir þau takmörk, sem hún á að halda sjer innan. Aðalatriðið í allri löggjöf í skattamálum er og á að vera það, að löggjöfin sje fyrir alt landið í heild, en ekki aðeins fyrir einstaka hluta þess. Hjer er því farið inn á nýja braut og alveg óþekta hjer áður, með þessum lögum um skemtanaskattinn. Þetta er einna svipaðast því, sem átti sjer stað í Noregi í fornöld, er einstök hjeruð eða landshlutar voru skattskyldir öðrum hjeruðum, en þetta er al-óþekt hjer og er ætíð mjög óeðlilegt, þó að það kunni að hafa tíðkast einhversstaðar.

Jeg hefi nú talað allmjög á víð og dreif um málið, vegna þess að 1. umr. var slitin sundur, og svo gaf hv. frsm. (ÁJ) mönnum eftirdæmi í þessu efni.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) kom fram með mikilli sanngirni í þessu máli. Hann benti á, að það gæti komið til mála að fella alveg burtu 1. gr. frv., og þá væru það aðeins dansleikirnir, sem frv. nú tæki til, og væri það þá eina breytingin á lögunum frá 1923. Það var einhver hv. þm., sem hafði það eitt að athuga við þetta, að þá væri of mjög þrengt að dansleikjunum; bæði í Reykjavík og annarsstaðar. Þessum líka prúðu dansleikjum! Jeg veit ekki, hvort þetta hefir átt að vera sáttaboð frá hv. 3. þm. Reykv. (JakM), um að háttv. flm. tækju 1. gr. frv. aftur. Minni hl. allshn. mun fús til þessa samkomulags, og það því fremur, sem við minni hl. menn buðum upp á þetta í nefndinni.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) reyndi á ýmsan og mjög „útspekúleraðan“ hátt að verja framkomu sína í þessu máli. Jeg held jeg muni það rjett, að hann hafi átt sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur þegar mótmælin bárust þinginu þaðan gegn því að svifta bæjarfjelagið yfirráðum og notarjetti skemtanaskattsins, enda studdi hann núverandi hæstv. fjrh. (JÞ) í mótstöðu hans gegn þeirri breytingu. Hv. 2. þm. Reykv. hefir alveg snúist í hring í þessu máli síðan 1923.