29.04.1926
Neðri deild: 65. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í C-deild Alþingistíðinda. (2543)

103. mál, iðnaðarnám

Flm. (Jón Baldvinsson):

Mjer skilst, að í slíku frv. sem þessu hljóti ætíð að vera sterk ákvæði til að tryggja rjett þeirra, sem ætíð hljóta að vera minni máttar, sem sje iðnnemanna. Það þarf eigi löggjöf til að tryggja rjett þeirra, sem sjálfir geta gert það. Þessvegna hlýtur slík löggjöf ætíð að vera nokkuð einhliða.

Hæstv. atvrh. sagði, að formaður Iðnaðarmannafjelagsins hafi komið til hans og mótmælti frv. Jeg veit, að sá fjelagsskapur hefir í 10 eða 20 ár verið að undirbúa almenn iðnlög, og eiga m. a. að vera í þeim ákvæði um iðnnám. En Jeg veit ekki til, að nokkurntíma hafi komið árangur af þeirri starfsemi. Þótt allir meistarar sjeu á móti þessu frv., tel jeg það enga ástæðu til að fella það. Það getur verin hin brýnasta þörf að setja lög um þetta, þótt allir meistarar sjeu á móti þeim. — það eina, sem hægt væri að hafa á móti þessu frv., er það, að erfitt kunni að reynast að framfylgja því sumstaðar. En megnið af iðnaðarmönnum landsins er hjer í Reykjavík, og hjer er fyrsti vísirinn til iðnfjelaga, bæði meðal sveina og meistara. Slík fjelög tryggja nokkuð, að í iðnirnar komi hæfir menn, en þó verða þeir að eiga kost á góðri kenslu.