24.04.1926
Efri deild: 58. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í C-deild Alþingistíðinda. (2608)

106. mál, hæstiréttur

Flm. (Sigurður Eggerz):

Það er eitt atriði, sem mjer hefir láðst að minnast á, nefnilega um forsetann í rjettinum. Jeg hefi ekki athugað það, hvort það er regla, að rjetturinn kjósi sjálfur forsetann, en venjulegast mun það vera, að hann sje skipaður af konungi. Hversvegna mátti ekki hafa þá aðferð einnig hjer, eins og með sýslumenn? Það gæti auðveldlega valdið ágreiningi og jafnvel sundrung í rjettinum, þegar 3 menn eiga að fara að kjósa dómstjóra úr sínum hóp, og menn hljóta að sjá, að slíkt er mjög óheppilegt. Menn geta verið ágætir dómarar, þó að þeir sjeu ekki vel til þess fallnir að stýra slíkum rjetti. Mig furðar satt að segja á því, að hæstv. forsrh. (JM) skyldi ekki láta sjer detta í hug að innfæra þessa kosningabrellu í hæstarjett. — Hæstv. forsrh. hefir ekki mótmælt því, að meira öryggi fáist með 5 dómurum en 3, en þó að það sje víst, að svo sje, þá er ekki þar fyrir víst, að nokkur bót væri að því að fjölga þeim upp í 30–40. Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði sýnt sig, að margir hjeraðsdómarar í Reykjavík hefðu verið mjög góðir dómarar, og jeg get bætt því við, að það var viðurkent og jeg álít, að hæstv. ráðh. sjálfur hafi verið góður dómari.

En hvernig stendur þá á því, að ekki er einn dómari í hæstarjetti? Af því, að það er of mikið undir hælinn lagt, þegar um þá stofnun er að ræða, þar sem borgararnir eiga að fá sinn síðasta dóm, sem ekki aðeins getur varðað fjármuni þeirra, heldur jafnvel líf og dauða. Það er ekki hægt að leggja slíkt feikna vald í hendurnar á einum manni. Það er engin sönnun fyrir því, að hæstirjettur geti komist af með þrjá dómendur, þótt dómarar hjer í Reykjavík hafi gefist vel. Og jeg vil spyrja: Hversvegna eru alstaðar annarsstaðar í heiminum margir dómarar í hæstarjetti? Er það ekki af því, að rjettaröryggið í landinu heimtar það. Og er ekki rjettaröryggið eins mikils virði í þessu landi? Hæstv. forsrh. (JM), sem ekki hikar við að taka á ríkið skóla, sem alveg eins vel gæti starfað án þess og ekkert munu batna við það, — hann er þá ekki í neinum sjerlegum sparnaðarhugleiðingum. Þá fær sparnaðurinn að eiga sig. En þegar rjettaröryggið í landinu krefst þess, þá hugsar hann sig samt tvisvar um, hvort hann eigi nú ekki heldur að reyna að spara ögn af laununum, hvað sem öðru líði. Jeg held hæstv. forsrh. (JM) geti ekki tekið það neitt illa upp fyrir mjer, þó jeg geri þennan samanburð. Það er svo ótrúlega mikil ósamræmi í þessu.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að í raun og veru væri það aðeins tímaeyðsla að setja þetta mál í nefnd, þó hann raunar væri ekki mjög á móti því, að það væri gert. Og hann vísaði til þess, að 1924 hefði hjer verið svo stór meiri hl. með því, sem þá var gert í málinu. Þetta er rjett, að lögin frá 1924 voru samþykt hjer með miklum meiri hluta. En þess ber að gæta, að aðalástæðan, sem með því mælti þá, var sú, að menn voru hræddir við vaxandi ríkisskuldir. Það kom því hálfgert sparnaðarfát á háttv. þm., svo þeir hjeldu, að það mætti lækna þessi mein með öðru eins tiltæki og þessu. En nú er aðstaða ríkissjóðs önnur, því nú eru ríkisskuldirnar að nokkru leyti greiddar. Þessvegna held jeg, að þeir, sem gengu inn á breytinguna af þeim ástæðum, sem jeg nú nefndi, geti nú verið með því að koma hæstarjetti í sitt fyrra horf. Jeg tek það sem bending frá forsjóninni, að rjetturinn eigi ekki að minka, þar sem hann hefir enn ekki verið minkaður, þrátt fyrir lögin frá 1924. Jeg vona, að þó frv. gangi ekki í gegnum þingið nú, þá verði þess samt ekki langt að bíða. Þjóðin hlýtur að mótmæla því að látast spara nokkra aura og draga um leið úr því, að þjóðin eigi úrslitadómstól, sem hún getur örugg skotið málum sínum til.