03.05.1926
Neðri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í C-deild Alþingistíðinda. (2653)

81. mál, Landsbanki Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg skal nú reyna að hlífa deildinni við frekari umr. Viðvíkjandi því, sem jeg sagði um möguleika til gjaldeyrisverslunar, hefi jeg engu við að bæta. Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) viðurkendi það, sem jeg hafði sagt, enda var ekki annað unt. En seðlabanki, sem hefir gjaldeyrisverslun, verður að hafa hlaupareikning, því að annars kemst engin gjaldeyrisverslun að.

Jeg geri ekki greinarmun á seðlabanka og seðlastofnun að því er snertir vextina. Og jeg verð að segja það, að jeg geri lítið úr því valdi. Landsbankinn verður aldrei tilneyddur að fylgja ákvörðunum seðlastofnunar um vextina, enda hafa þeir lítið að segja, er til þess kemur að halda uppi gildi peninganna.