08.05.1926
Neðri deild: 74. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í C-deild Alþingistíðinda. (2695)

81. mál, Landsbanki Íslands

Jón Baldvinsson:

Jeg vil mælast til þess, áður en til atkvæða verður gengið, að fá að heyra eitthvað um það frá hæstv. stjórn, hvernig hún lítur á þessa dagskrártillögu, sem hjer er fram komin, en að því búnu skora jeg á hæstv. forseta að veita klukkustundar fundarhlje til þess að athuga málið. Þar sem svo er ástatt, að flokkur sá, sem jeg tilheyri, á sjer eigi formælendur hjer á þingi aðra en mig, verð jeg að fá tækifæri til að bera saman ráð mín við flokksbræður mína utan þings, sem til næst hjer í bænum, og við flokkstjóra Alþýðuflokksins, þegar um annað eins stórmál er að ræða og þingrof og nýjar kosningar. þó að jeg eða flokkur minn sjaldnast hafi á móti því að leggja út í nýjar kosningar, treysti jeg mjer ekki til að taka ákvörðun um þetta á mitt eindæmi, og minna en klukkustundarfrest get jeg ekki komist af með, er flokksmenn mínir eru dreifðir út um allan bæ. Jeg álít þessa tillögu fullkomið alvörumál, og því mælist jeg ákveðið til, að hæstv. forseti veiti mjer umbeðinn frest.