25.03.1926
Efri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (2829)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Frsm. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Eins og hv. þdm. mun kunnugt, hefir fjhn. ekki orðið á eitt sátt um þetta mál. Þó virðist ekki hafa verið svo mikið deilt um, hve mikils virði þessi veðrjettur sje. Jeg skal þó taka það fram, að jeg er ekki alveg viss um, að hann sje einskis virði. Að minsta kosti virðist svo sem stjórn Íslandsbanka hafi álitið hann einhvers virði um nýár, því að þá lánaði hún út á hann. Nú er það upplýst, að veðrjetturinn hefir verið færður aftur og veitt hefir verið nýtt rekstrarlán út á hann. Nefndin leitaði upplýsinga hjá bankastjórn Íslandsbanka um það, hvernig útgerð fjelagsins hefði borið sig á þessu tímabili, frá nýári til þessa, og það er óhætt að segja, að bankastjórnin taldi ekki efa á því, að rekstrarhalli hefði orðið, en hún taldi óvíst, að hve miklu leyti veðrjetturinn væri uppjetinn. En það virðist ljóst, að veðrjetturinn er nú minna virði en hann var um nýár. Ef það er nú svo, að veðrjetturinn sje að engu orðinn, getur minni hlutinn ekki sjeð, hvaða þýðingu það geti haft fyrir afkomu fjelagsins, að hann verði færður aftur. Og jeg hefi ekki trú á því, að Íslandsbanki vilji lána nokkuð út á veðrjett, sem er einskis virði. En ef veðrjetturinn er einhvers virði, þá er rjett að athuga það, hvort málið er svo vaxið frá byrjun, að rjett sje að halda lengra út á þessa glapræðisbraut. Ábyrgðin var upphaflega veitt fyrir 5000 sterlingspunda láni, sem eftir núverandi gengi ætti að vera sem næst 111 þús. íslenskar krónur. Nú skyldi maður ætla, að ríkissjóður tapaði ekki meiru en því sem nemur þessari upphæð. En þessum pundum var breytt í íslenskar krónur meðan gengið á pundinu var um 30 krónur, og varð því upphæðin 150 þúsund íslenskar krónur, sem ríkissjóður bar ábyrgð á. En ekki er alt enn talið. Þetta lán hefir hlýtt sama lögmáli sem gildir um öll lán, sem ekki er staðið í skilum með: Það hefir hlaðið utan um sig og er nú komið upp í 172 þús. kr. með áföllnum vöxtum. Maður getur því vel búist við, að eftir 1–2 ár verði það orðið nokkuð á þriðja hundrað þúsund kr., ef haldið verður áfram þeirri stefnu að auka fjárupphæðina, sem ríkissjóður ber ábyrgð á og verður að greiða á endanum, því að um það held jeg að ekki sjeu skiftar skoðanir, að sá einn endir verði á þessari ábyrgð. Eina vonin, sem meiri hl. fjhn. hefir þm, að eitthvað fáist upp í ábyrgðina, er að fjelagið starfi áfram. En þá er þess að gæta, að 1923 er fullyrt af meiri hl. fjhn., að svo miklar skuldir hafi hvílt á 1. veðrjetti, að 2. veðrjettur hafi verið lítils virði. Þegar ástandið er nú þannig eftir tvö ár, og annað árið var uppgripaaflaár og hitt vel sæmilegt, að ábyrgðarupphæðin hefir vaxið, þá býst jeg ekki við því, að vegur sje til þess, að fjelagið fái þau veltiár á næstunni, að það geti greitt 1. veðrjett, sem er 22000 sterlingspund, síðan rekstrarhalla frá 1. janúar og þar á ofan þær 150 þús., sem færa á veðrjettinn aftur fyrir. En alt þetta verður að greiðast áður en kemur að ríkissjóði. Jeg held því, að haldið verði lengra út á þessa óheillabraut, ef till. verður samþykt. Mjer finst því rjettara að vísa þessu máli á bug, svo það sjáist, að Alþingi vilji ekki styðja slíkar ráðstafanir.

Það er ekki tilgangur minn að deila lengi um þetta. Á milli ber það, að minni hl. telur tilgangslaust fyrir afkomu fjelagsins að samþykkja þessa till., en um leið og hún er samþykt kemur það í ljós, að Alþingi hefir ekki á móti því, þó þessi fjárupphæð haldi áfram að hlaða utan um sig, en jeg tel slíka ráðstöfun ekki heillavænlega og vil, að það komi skýrt í ljós.

Jeg skal svo ekki fara ítarlegar út í málið að svo stöddu, eða kýta um það, enda tel jeg það svo vaxið, að jeg tel best að tala sem fæst um það.