25.03.1926
Efri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (2830)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Mjer virtist hv. frsm. minni hl. (IP) fara nokkuð utan við það efni málsins, sem meiri hl. leggur mesta áherslu á. Hann talaði mest um, hvaða áhrif þessi ályktun þingsins hefði á afkomu fjelagsins. Við leggjum áherslu á alt annað. Við höfum tekið mest tillit til þessa árstíma, sem nú er, og að það var ekki fært fyrir fjelagið að halda áfram rekstrinum, nema þessi tilslökun væri gerð. Hvaða áhrif tilslökunin hefir á afkomu fjelagsins framvegis, höfum við látið hlutlaust. Jeg býst ekki við því, að hagur þess batni stórum við eina vertíð, en hitt vita allir, að vetrarvertíðin er sá tími ársins, sem helst er von til, að togararnir geti rjett hlut sinn. Þetta gerði það að verkum, að meiri hl. vildi samþykkja tillöguna. Málið kom fyrir þingið í byrjun vertíðar, og bankinn vildi ekki lána fje til rekstrar, nema veðrjetturinn væri færður til, án þess þó að gefa skýlaust loforð um lán, þó það yrði gert.

Hv. þm. talaði um óheillabraut, sem hjer væri komið inn á. Það getur verið nokkuð til í því. Það er slæmt að gæta þess ekki, þegar lán eru veitt, að hafa næga tryggingu. Jeg býst nú heldur við, að ríkissjóður tapi á ábyrgð þessari, en þó er ekki hægt að fullyrða neitt um það, ef fjelagið fær að starfa áfram. En það er alveg víst, ef fjelagið verður skorið niður við trogið núna. Ef fjelagið verður neytt til að stöðva reksturinn og eignir þess verða seldar eins og stendur, þá tapar ríkissjóður áreiðanlega. Í þessari atvinnugrein er fljótt að syrta að og líka fljótt að rakna úr, ef vel gengur. Jeg skal engu spá um, hvernig fara mun, ef vel gengur, en það er til einskis barist fyrir ríkissjóð, ef hendinni er slept af fjelaginu. Þess ber að gæta, að ríkissjóður hefir fengið beint og óbeint laglegan skilding frá Kárafjelaginu, og mikið fje frá því runnið í vasa landsmanna. Fjhn. fjekk á fund sinn framkvæmdarstjóra fjelagsins og bankastjórn Íslandsbanka, og þær upplýsingar, sem bankastjórnin gaf, voru ekki til þess að hnekkja áliti mínu á fjelaginu. Árið 1924 borgaði fjelagið upp allar skuldir í bankanum, er á höfðu hlaðist á undanförnum árum út af rekstrinum, og borgaði þá í rauninni meira en það var fært um. Það hefði ef til vill verið hyggilegra fyrir það að draga undan og skulda meira. Með þessu virðist mjer fjelagið hafa sýnt, að það vill standa í skilum, þó ástæður þess sjeu örðugar nú. Framkvæmdarstjóri fjelagsins gaf þær upplýsingar, að á vegum fjelagsins væra nú 80 manns. Í Viðey, þar sem fjelagið hefir aðalbækistöð sína, hefir verkafólkið bygt hús yfir sig, í von um örugga atvinnu. Fjelagið hefir borgað í dagkaup og tímakaup um 200 þús. krónur árlega, og í laun skipverja hefir verið greitt á báðum skipunum um 300 þús. krónur árlega. Þegar þar við bætist það, sem ríkissjóður hefir fengið í útflutningsgjald af fiski og í skatta frá verkafólki því, sem unnið hefir hjá fjelaginu, þá finst mjer líka mega líta á þetta atriði. Þó ríkissjóður tapi á ábyrgðinni, þá hefir líka komið mikið fje í sjóðinn að tilhlutun fjelagsins, og er það ekki einskis vert. Þetta leggur meiri hl. meðal annars áherslu á.

Það hefir verið talað um það af mönnum, sem eru á móti þessari heimild, að það væri skrítið, að Íslandsbanki vildi fá þessa heimild, sem meðmælendur till. telja einskis virði. Það, að Íslandsbanki vill fá þessa tilfærslu, þarf ekki að þýða nákvæmlega það, að hann telji hana þess virði, sem ábyrgðin hefir kostað ríkissjóðinn, ef hann þarf að borga hana, heldur er það svo, að það er ekki þægileg aðstaða fyrir banka að hafa veðhafa á undan sjer, sem getur gengið að veðinu hvenær sem honum þóknast. Þetta hefir verið túlkað svo af sumum, að það sje stór fengur fyrir bankann, ef ríkissjóður sleppi veðrjettinum, hann sje eins mikils virði og ábyrgðin kostar ríkissjóðinn. En eins og jeg sagði áðan, er það ekki svo, og frá mínu sjónarmiði er það ekki óeðlilegt, þó bankinn vilji fá þennan veðrjett til að koma á eftir lánum, sem hann veitir eða kann að veita til rekstrarins, sem vitanlega eru miklu stærri upphæðir.

Jeg man svo ekki eftir, að það sje fleira, sem jeg þarf að svara hv. frsm. minni hl. (IP). En jeg get ekki fallist á, að ástæður hans sjeu svo ríkar, að fært sje þeirra vegna að neita um heimildina.