27.03.1926
Efri deild: 39. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (2842)

53. mál, tilfærsla á veðrétti ríkissjóðs í togurum

Jónas Jónsson:

Mjer þykir leiðinlegt, að það sæti meðal hinna landsk. þm., sem jeg hafði áður, skuli ekki vera betur skipað en nú virðist vera, því öllu þynnri ræðu en hv. 5. landsk. (GunnÓ) hjelt í dag hefi jeg aldrei heyrt áður. Þessi hv. þm. reyndi að koma inn á málið, en gat ekki með einu orði hrundið öllum þeim ásökunum, sem jeg bar á hendur hæstv. stjórnar. Hann gat ekki hrundið því, sem hv. þm. Snæf. (HSteins) viðurkendi, að núverandi stjórn hefði látið tvö tækifæri líða hjá til þess að krefja fjelagið um peninga upp í skuld þessa.

Þar sem hv. þm. er töluverður gróðamaður fyrir sjálfan sig, þá efast jeg um, að hann hefði verið jafnhirðulaus um útistandandi skuldir sjálfs sín og um þessa skuld fyrir landið, og segi jeg það ekki til ámælis honum. Hefði hann átt slíkt lán útistandandi og vitað skuldunautinn vaða í peningum, þá væri hann ekki fjármálamaður, ef hann reyndi ekkert að aðhafast til að ná í peninga sína. En þögn þessara manna, sem hjer hafa talað, bæði hv. frsm., þm. Vestm. (JJós), og hv. 5. landsk. (GunnÓ) um þetta atriði, er sönnun fyrir því, að þeir sjá, að þegar fjelagið hefir haft 700000 kr. gróða á 2 árum, en notað hann til annars en að borga landinu, þá er ómögulegt að koma fram með nokkur rök fyrir því, að stjórnin hafi haft nokkurn neista af vilja til þess að fá skuldaþrjót sinn til þess að borga.

Það hefir heldur ekki komið neitt fram hjá þessum hv. þm., hv. frsm. (JJós) og hv. 5. landsk. (GunnÓ), til þess að sanna, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi haft heimild til þess að færa aftur veðrjettinn. Það var deilt um það í hv. Nd., hvort fyrv. stjórn hefði haft heimild til að veita lánið. Hv. þm. Borgf. (PO) sagði, að hún hefði ekki haft heimild til þess. Hvað sem því líður, þá var þessi heimild veitt af þinginu, þó vafasamt væri, hvort það var rjett að gera það, en aftur á móti er enginn stafur fyrir því, að það mætti afhenda þennan rjett, sem hjer er um að ræða, til þess að fjelagið gæti fengið daglegt rekstrarfje. Tel jeg það litla búmensku, þegar aðrir láta skipin liggja. En þó er það skiljanlegt, að gripið var til þessa úrræðis, þegar von var um gróða úr þessari átt. Hefir enginn enn reynt að verja þessa ljettúð, og tek jeg það sem merki þess, að fylgismenn stjórnarinnar finni, að málstaður hennar er slæmur. (JJós: Hv. þm. heyrir illa!).

Viðvíkjandi sköttunum var það eina, sem hv. þm. reyndi að verja. Hann sagði, að stjórnin ætti ekki að vera að innheimta skatta frá fjelögum, sem væru svona illa stödd.

Hún er nú kunn sagan um það, þegar stjórnin vildi dreifa sköttum togaranna á 3 ár. Ætli „Kára“-sagan sýni ekki, hver meiningin var með þessu. Getur hugsast meiri snoppungur fyrir stjórnina en saga „Kára“-fjelagsins. Jeg get ekki hugsað mjer meira blygðunarleysi en ef forsvarsmenn stjórnarinnar ætla að fara að verja það, að fjelag, sem er handbendi Íslandsbanka, skuli ekki hafa verið krafið fjárins, sem landið átti hjá því, um leið og bankinn innheimti hjá fjelaginu, og að innheimtumanni landsins skuli ekki hafa verið gefið neitt til kynna um það. Og þótt skuldunauturinn hefði nú ekki komið sjálfkrafa, þá var þó ekki til of mikils mælst, þótt stjórnin hefði ýtt við fjelaginu. Það er upplýst, að fjelagið átti að borga af 800,000 kr., að það hafi síðan leikið sjer með 200,000 kr., sem átt hefðu að borgast landinu, og Íslandsbanki segir, að ekki hafi verið nauðsynlegar til rekstrar fjelaginu. Þannig er algert ráðaleysi hjá þeim vesalings þm., sem eru að reyna að verja stjórnina, og þeir hafa beinlínis spilt fyrir henni með því að blanda 3 ára reglunni inn í þetta mál.

Hæstv. forseti (HSteins) er sammála að sumu leyti, þótt jeg sje honum ekki samferða alstaðar, því að ef dagskráin verður ekki samþ., þá greiði jeg atkvæði móti heimildinni. En þar sem hæstv. forseti (HSteins) vildi verja stjórnina, þá get jeg sagt honum, að hann hefir ekki verið heppinn, því að þegar þetta mál, sem í hv. Nd. var fyrir tilstilli hæstv. fjrh. (JÞ) flýtt með afbrigðum, af því að stjórnin var hrædd við rannsókn, ef málið drægist, hafði fengið nýjar upplýsingar, þá kemur ráðherrann ekki inn í þessa hv. deild dag eftir dag, þegar málið er til umræðu. Jeg held, að rjettast sje að orða þetta svo, að hann sje hræddur við málstað sinn. Jeg hefi fært rök að því, að hann hefir ástæðu til þess að vera það.

Hæstv. forseti (HSteins) hjelt því fram, að meining þingsins hefði verið að fá góð veð, en jeg bið hann að athuga, að þótt menn hafi talað svo þá, þá var þessi heimild því að eins gefin, að menn vildu ekki, að skipin færu burt úr landinu. Hefði jeg verið á þingi 1921, mundi jeg hafa verið mótfallinn þessari lánsheimild, en nú má segja, að stjórnin hafi gert sjer að góðu þessa yfirsjón, með því að veita ný lán og innheimta ekki hjá skuldadólginum, og loks með því að ganga á undan í því að kasta burtu þessu vesala veði landsins. Gagnið af meðferð þessa máls sýnir, að stjórnin hefir verið of ljettúðug. Hún hefir litið á þetta fjelag sem heilagan hlut, sem ríkinu væri skylt að styðja hvenær sem þörf krefði. Mjer þykir leitt, að hæstv. fjrh. (JÞ) er ekki við. Það er altalað meðal háttstandandi manna hjer í bænum, að hann hafi gengið í ábyrgð fyrir „kolakrana“ hjer við höfnina fyrir gróðafjelag. Sje þetta rjett, hefir ráðh. alls enga heimild haft til þess. Hann svarar væntanlega til saka fyrir þetta hjer í deildinni. En eftir því, sem hann hefir áður gert í því að ganga í ábyrgðir í leyfisleysi, þá trúi jeg honum vel til þess að hafa gengið í þessa ábyrgð. Og ef stjórnin ætlar að fara að gera sjer leik að því að ganga í ábyrgðir bak við þingið, þá vil jeg segja það, að ekki er orðið langt til Mussolinis. (JJós: Gengur Mussolini í ábyrgðir?). Hann fótumtreður þingviljann. Hann stjórnar landinu með ofbeldi. Hann drepur menn, og það hefir verið stungið upp á því af mönnum, nákomnum stjórninni, að vega að mönnum, svo að Mussolini er ekki að verða langt frá.

Þá kem jeg að hv. þm. Vestm. (JJós). Hann áleit óviðkunnanlegt að vera með spádóma um „Kára“-fjelagið. Það kann nú að vera nóg að tala um fortíð þess. Það upplýstist í nefndinni, að bankinn vill engin loforð gefa um stuðning við fjelagið. Ennfremur játa bankastjórarnir, að fjelagið sje peningalaust, skipin veðsett, aflinn veðsettur og að annað skipið hafi stundum þurft að liggja, uns hitt kæmi inn með eitthvað til að veðsetja, svo að það kæmist út aftur.

Sjá nú ekki allir lifandi menn, að fjelagið er marggjaldþrota, landssjóðshlutinn í skipunum farinn, tekjuskattur ógreiddur, en bara farið til landsstjórnarinnar til þess að fá eftirgjöf á veði, til þess að fjelagið geti lifað?

Hv. þm. Vestm. (JJós) áleit vera gerðan hvell úr þessu máli og sagði, að stjórnin hefði neitað um föstu lánin, en ekki rekstrarlán. Nú veit hv. þm., að hann hefir heyrt Eggert Claessen segja, að Íslandsbanki hafi veðrjettinn, svo að bráðabirgðalánið verður þá varanlegt, og ef fjelagið fer á hausinn, þá er sama, þótt neitað hafi verið um heimildina. Þetta veit hv. þm. frá þeim mönnum, sem veittu lánið. Hann er alt of skýr maður til þess að vita ekki, að ef jeg er á 6 mánaða víxli, sem hann hefir gefið út fyrir mig, og ef jeg get ekki borgað, þá verður hann að greiða fyrir mig, og þýðir ekkert að segja bankanum, að hann sje aðeins til bráðabirgða á víxlinum sem ábyrgðarmaður.

Annaðhvort er það fádæma fáviska eða gert á móti betri vitund að vera að afsaka þetta, þar sem nú er líka sannað í meðferð málsins, að þetta vesala skilyrði, að láta ganga fyrir öllu að borga bráðabirgðalánið, sem hæstv. fjrh. (JÞ) stendur í ábyrgð fyrir, ef þingið gefur þá ekki þessa upphæð eftir, hefir alveg verið virt að vettugi. Nú hefir Íslandsbanki játað, að sjerstakt veð hafi verið sett fyrir allhárri upphæð, og þetta veð frá fjelaginu, ásamt veði ríkissjóðs, hefir verið undirstaðan undir rekstri fjelagsins upp á síðkastið. En nú skal enginn halda, að borgað hafi verið af þessum lánum með fiskinum, eins og einmitt var sett sem skilyrði, heldur var hitt lánið notað til að borga hluthöfunum. Það er sama venjan og áður: Ekkert borgað til ríkissjóðs, ráðherrann hundsaður um hans eigin skuld, tvisvar vanrækt að borga landinu, af 200 þús. og 500 þús. kr., þó allir aðrir fengju sína peninga hjá fjelaginu.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að skjal nokkurt væri sönnun fyrir sakleysi stjórnarinnar. Í ákaflega ómerkilegu afriti af stjórnarráðsbrjefi er ástæðan fyrir því, að stjórnin geti ekki gengið í ábyrgð fyrir „Kára“-fjelagið. Hvort hjer er um að ræða skjalafals, veit jeg ekki. Svo er skrifað með blýanti, með annari hendi, neðar á sama afrit, alt annað, að stjórnin sje til með að lána til bráðabirgða. Væri þetta glæpamál fyrir rjetti, þá yrði rannsakað, hvaða munur væri á frumskjalinu og blýantskrotinu, þar sem stendur í öðru, að stjórnin veiti enga heimild, en í hinu er gengið þvert á móti þessu. Hvaðan þetta skjal er komið, veit nefndin ekki. Enn er eftir eitt atriði, að þótt fjármálastjórnin líti svo á, að hún mætti skrifa upp á þennan víxil, þá er það ekki sannað af neinum, að hún hafi haft heimild til þess. Þess vegna er það óhrakið enn, að víxillinn er á ábyrgð hæstv. fjrh. (JÞ). Hjer er því um það að ræða, að farið er fram á, að gefin verði eftir ábyrgð, sem ráðherrann sjálfur stendur persónulega í, og mun hann við nánari athugun sjá, að honum er meiri heiður í að standa við hana og sæmra að borga hana heldur en að vera að „bóndafanga“ stuðningsmenn sína, til þess að skella henni á landið. Þessi ábyrgð hefir ekki meiri rjett á sjer en hver önnur persónuleg ábyrgð, sem ráðherrann gengur í fyrir góðkunningja sinn.

Hv. þm. Vestm. (JJós) sagði, að jeg harmaði það, að útgerðin væri studd, vegna þess, að hún skaðaði sveitirnar. Jeg gerði ekki annað en að benda á það ósamræmi, sem kemur fram í því, að annarsvegar er útgerðin talin stórkostlegur gróðavegur, en hinsvegar talar reynslan um sorglega útkomu hjá fjelögunum. Jeg hefi hjer sagt sögu eins fjelags, sem hefir haft duglegum mönnum á að skipa. Þegar maður svo athugar þá niðurstöðu, sem maður kemst að með það, að fjelagið er altaf að falla dýpra og dýpra, getur ekki staðið í skilum, hvorki við innlenda nje erlenda lánardrotna, getur ekki staðið í skilum við landið, ekki borgað lögboðna skatta, og hluthafarnir ekki þeir drengir, að þeir gangi í persónulegar ábyrgðir fyrir fjelag sitt, þótt landið borgi fyrir þá, þá bið jeg hv. þm. að athuga, hvort þessi útvegur sje glæsilegur og hvort rjett sje að halda við svona fyrirtækjum, sem ekki standa í skilum, en bjóða hátt kaup á kostnað bankanna og draga fólkið úr sveitunum með tálvonum. Nei, þetta rekur áreiðanlega upp á sker. Við höfum dæmi um það, að jafnvel eftir góðæri er aðstaðan sú, að mikill hluti flotans getur ekki staðist, nema landið setji sig í hættu vegna hans, og engin fyrirtæki hafa þurft eins mikillar hjálpar frá landinu, eins og togarafjelögin.

Hv. þm. segir, að stórútgerðin hafi borið hag ríkissjóðs á herðum sjer. Hún hafi borið þyngstu baggana. Það eru þá helst baggar! Við vitum nú, hvað þau hafa borgað, ríku fjelögin. Loks þegar góðu árin komu, borguðu togarafjelögin í tekju- og eignarskatt í Rvík eitthvað 30 þús., annað árið 40 þús., og svo 3. árið, í fyrra, þegar verulega gekk vel og útlit var fyrir, að fjelögin borguðu mikið, var allur stjórnarflokkurinn „mobiliseraður“ á móti því, að þau borguðu það, sem þeim bar. Þá lá það fyrir skjallegt, að þau hefðu sett gróðann í alt annað. Enda hafði það komið fram á fundi einum hjer í bænum, að játað hafði verið af einum stuðningsmanni ráðh., að hann hefði sagst vera óánægður yfir því, hve frv. um skattaívilnunina gengi skamt til rjettlætis. (Fjrh. JÞ: Alveg rjett.). Hæstv. fjrh. (JÞ) er alveg viss á því, að ekki megi leggja á þessar stofnanir, og hann er einkar lukkulegur yfir því, ef „Kári“ sleppur við að borga 42 þúsundirnar, þótt það verði til þess, að reglan komi ekki fram, því að „Kári“ hefir fundið upp reglu til þess að forða ríkissj. frá of miklum peningum, og er sú regla miklu betri en 3 ára reglan. Það gleður mig, að hæstv. fjrh. (JÞ) er kominn inn í deildina, og held jeg því, að jeg verði að fórna ofurlitlum tíma til að láta hann heyra þær ásakanir, sem jeg hefi flutt á hendur honum í þessu máli, svo að honum gefist kostur á að svara þeim, og geti hann ekki gert skil fyrir máli sínu, þá vil jeg, til þess að hlutur hans verði ekki óglæsilegur í þingtíðindunum, rifja upp nokkur atriði, sem jeg óska eftir að hann svari:

1. Hvaða rjett hann hafði til þess að ganga í ábyrgð fyrir „Kára“-fjelagið nú í vetur?

2. Hvort hann vilji þá ekki borga sjálfur þessa upphæð?

3. Hvers vegna hann reyndi ekki að krefja fjelagið um greiðslu upp í veðið ?

4. Hvernig stóð á því, að hann flýtti málinu með afbrigðum í Nd. ?

5. Hvers vegna hann tók ekki fram, að hann hefði afhent veðrjettinn?

6. Hvernig stendur á blýantskrotinu í stjórnarráðsbrjefinu ?

7. Hvernig stendur á því, að hann reyndi ekki, þegar hann vissi um hinar illu ástæður fjelagsins, að ýta undir tollheimtumann sinn með að krækja í eitthvað af 200 þúsundunum upp í skattinn fyrir árið 1924?

8. Hvernig getur hann afsakað það gagnvart þinginu að hafa ekki sagt það skýrt og skorinort, eins og E. Claessen, að það væri búið að festa þennan veðrjett?

Það væri gott, ef hæstv. fjrh. (JÞ) hefði tíma, að hann skýrði frá, hvers vegna Íslandsbanki fjekk alla fiskframleiðslu „Kára“ 1924? Hann játar nú, að stjórnin hafi enga vitneskju fengið um, hvernig bráðabirgðaláninu hafi reitt af, og segist ekki vita, hvernig sakir standi nú. Jeg óska, að hann skýri þá frá því sem „business“-maður, hvers vegna hann ljet skipin ganga þessa mögru tíma, jan.–febr., og hvort ekki hefði þá verið betra að hjálpa fjelaginu á sjálfri vertíðinni. Það er kunnugt, að sum önnur fjelög ljetu skip sín liggja nokkuð af þessum magra tíma. Það er auðsjeð, að frammistaða hæstv. fjrh. er slæm, hvort sem litið er á almenna framsýni eða heimildir.

Nú er fullyrt af háttsettum mönnum, að hæstv. fjrh. hafi gengið í ábyrgð fyrir „kolakrana“ hjer við höfnina. (Atvrh. MG: Hverjir eru þessir háttsettu menn?). (Fjrh. JÞ: Það eru víst heimilismenn Gróu á Leiti.). Það eru háttsettir Íhaldsmenn, þó það sje ekki sjálfur formaður Íhaldsflokksins, sem borið hefir hviksögur á fundi í Hafnarfirði nú í vetur um kennara fyrir norðan. En af því að jeg vil hæstv. fjrh. vel, mun það gleðja mig, ef hann getur hreinsað sig af þessu, og hafi hann komist í freisting með „kolakranann“ eins og áður gagnvart „Kára“-fjelaginu, þá er gott fyrir hann, ef hann getur nú snúið við. Jeg hefði kosið, að hæstv. fjrh. (JÞ) hefði verið hjer viðstaddur áðan, en jeg vona, að hæstv. forseti, sem gert hefir alt, sem í hans valdi hefir staðið, til þess, að stjórnin tæki þátt í þessum umræðum, þó ekki hafi það tekist, leyfi mjer að gera stutta athugasemd eftir að stjórnin hefir reynt að þvo af sjer þá mörgu kolabletti, sem hún hefir fengið á sig af þessu máli.